Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
14.11.2025 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 262. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.
Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar og við hvaða tilefni þessi dásamlega mynd er tekin? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Ingvar Þóroddsson sendi eftirfarandi upplýsingar:
Mynd þessi er tekin út um glugga á þriðju hæð þess húss er hýst hefur skólastarf á Laugum í Reykjadal í 100 ár. Horft til suðurs, yfir tjörnina og suður Reykjadal. Gæti verið tekin um 1960.
Býlið næst til hægri á myndinni er Kárhóll sem að Ingi Tryggvason frá Laugabóli í Reykjadal og Anna Þorsteinsdóttir frá Götu á Árskógsströnd stofnuðu 1954.Það sér aðeins í Laugaból ef farið er þvert yfir myndina frá Kárhóli. Ofan og innan við Kárhól eru Daðastaðir og Lyngbrekka þar fyrir neðan. Innst hægra megin eru Narfastaðir en þar rak fyrrnefndur Ingi ferðaþjónustu til margra ára eftir fráfall Önnu. Ingi var kennari á Laugum, sá lengi um Sparisjóð Reykdæla, og var öflugur félagsmálamaður á landsvísu.Ofar á myndinni vinstra megin er Hjalli. Bændur í Laugafelli greinilega búnir að heyja túnið sunnan við tjörnina.Hver á hinn fagra jeppa sem er þarna á ferð veit ég ekki en í dag væri hann inni í íþróttahúsi skólans ef hann væri staddur á sama stað. -
Vegna þess sem Ingvar segir í síðustu setningunni er gaman að birta mynd sem Kristinn Ingi Pétursson, starfsmaður Framhaldsskólans á Laugum sendi akureyri.net. Hún er fyrir neðan gömlu myndina. „Þetta er nú bara akkurat útsýnið út um skrifstofugluggann hjá mér. Myndin er tekin út um gluggann á Gamlaskóla, Laugaskóla í Reykjadal, horft til suðurs yfir tjörnina.“
Allar gömlu myndirnar frá Minjasafninu á Akureyri sem Akureyri.net hefur birt er hægt að skoða HÉR

