Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 261. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.

Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar þessi mynd er tekin? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net

  • Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Þetta er bærinn Hlíð í Skíðadal. Vignir Sveinsson sendi eftirfarandi upplýsingar:

    „Þetta umhverfi þekki ég vel, enda fæddur og uppalinn á Þverá sem er beint á móti Hlíð. Myndin hefur verið tekin annað hvort 1957 eða 1958, líklega síðsumars 1957. Þarna er fjós í byggingu en aðeins búið að reisa hlöðuna sem er á bakvið fjósið. Byggingarár fjóssins er skráð 1958 í fasteignamati. Á myndinni sést einnig stór malarhaugur sem ýtt hefur verið upp úr eyrunum vestan ár, líklega vegna þessarar byggingar og/eða vegna íbúðarhúss sem byggt var á Þverá á sama tíma. Íbúðarhúsið þar var hlaðið úr r-steinum sem voru steyptir um haustið 1957 en húsið ekki reist fyrr en 1958 og þá jafnframt steyptar plötur. Mögulega gæti þessi malarbingur einnig hafa verið til ofaníburðar í þjóðveginn í dalnum.“