Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 235. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.

Hefur þú, lesandi góður, hugmynd um hvar þessi mynd er tekin? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net

  • Myndin hér fyrir neðan birtist fyrir viku. Eins og margir lesendur bentu á er hún tekin í Siglufjarðarkirkju. Altaristaflan er óhefðbundin en tilkomumikil, máluð af Gunnlaugi Blöndal, einum kunnasta listmálara þjóðarinnar á 20. öldinni. - Nánari upplýsingar fyrir neðan myndina.

Óskar J. Þorláksson, sóknarprestur á Siglufirði frá 1935 til 1951, fjallað er um altaristöflu Gunnlaugs Blöndal í Kirkjuritinu 1. nóvember 1937. Þar segir hann:

Sunnudaginn 5. sept. s.l. var kirkjunni á Siglufirði afhent framúrskarandi myndarleg gjöf, stór og vegleg altaristafla, máluð af Gunnlaugi Blöndal listmálara. Mun þetta vera ein hin stærsta og tilkomumesta altaristafla af nýrri gerð, sem prýðir kirkjur hér á landi. Hefir listamaðurinn unnið að henni í 2 ár, og er hún talin eitt af stærstu og merkilegustu verkum hans. Stærð hennar er 3 X 2,30 m.

Atburðurinn, sem liggur til grundvallar listaverkinu, er frásaga N. t. [Nýja testamentisins] um göngu Jesú til lærisveina sinna, þar sem þeir eru í stormi og öldugangi úti á Genesaretvatninu (Mark. 6, 47—50).

Málverkið er þannig útfært, að það sýnir íslenzka staðhætti og íslenzka fiskimenn og minnir með sérstökum hætti á baráttu þeirra við storma og bylgjur hafsins og hjálp þeirra í þeirri baráttu, eða þá almennu reynslu, sem kemur svo oft fram í lífi mannanna, að „þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst“.

Afhending altaristöflunnar fór fram í upphafi sérstakrar hátíðaguðsþjónustu, sem jafnframt var sjómannaguðsþjónusta. Þormóður Eyjólfsson konsúll afhenti gjöfina fyrir hönd gefendanna, sem eru 14 að tölu og vildu ekki láta getið um nöfn sín. Í ræðu, er Þ. E. flutti við þetta tækifæri, fórust honum orð meðal annars á þessa leið:

„Ósk gefendanna er sú, að altaristaflan megi verða söfnuðinum til ánægju og vekja hjá honum traust á hjálpræði og mátt hins
góða“.

Sóknarpresturinn þakkaði gjöfina fyrir hönd safnaðarins og flutti síðan prédikun út frá Mark. 6, 47—50.

Þessi nýja altaristafla kirkjunnar minnir með sérstökum hætti á það starfslíf, sem Siglufjörður er vaxinn upp af. Hún sameinar á fagran hátt að vera listaverk í fremstu röð og vekja sígilda trúarlega hugsun. Er því ekki að efa, að þessi nýja altaristafla mun vekja hina mestu athygli.

Um það leyti sem altaristaflan var afhent, voru 5 ár liðin frá því, að Siglufjarðarkirkja var vígð, og var þetta því myndarleg afmælisgjöf, og er það einn vottur af mörgum, frá því kirkjan var reist, um þann góða hug, sem margir Siglfirðingar bera til kirkju sinnar.

_ _ _ _ _

Hér má sjá skemmtilega umfjöllun á vef Síldarminjasafns Íslands:

Listrænn innblástur – Tengsl Gunnlaugs Blöndal við Siglufjörð