Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 177. gamla myndin frá safninu sem birtist hér og hafa flestar vakið mikil viðbrögð. Fólk sýnir iðulega gömlum myndum gríðarlegan áhuga og Minjasafninu hafa borist fjölmargar ábendingar um nöfn fólks og staðhætti eftir að mynd birtist opinberlega.

Hefurðu hugmynd um hvar myndin dagsins er tekin og jafnvel hvaða menn þetta eru? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um myndina eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net Athugið að myndin er skorin en neðst í fréttinni sést hún öll.

  • Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Ekki stóð á svörum við þeirri spurningu hvar hún væri tekin. Sverrir Páll Erlendsson sendi til dæmis eftirfarandi upplýsingar:

Þetta er á Siglufirði við norðurenda gamla fótboltavallarins, sem nú er verið að byggja á. Til hægri sést í hús sem merkt er BÍÓ. Þetta er Alþýðuhúsið þar sem Aðalheiður Eysteinsdóttir hefur nú aðsetur og vinnustofu.

Litla húsið með dökku þaki nær okkur er löngu farið og líka næstu tvö hús, það hvíta var áhaldahús fyrir völlinn en hitt var hornhús á mörkum Túngötu, sem liggur eftir endilöngu frá norðri til suðurs, frá Torginu norður í Hvanneyrarkrók. Hornhúsið var íbúðarhús en löngu farið.

Hin gatan er Þormóðsgata sem liggur upp brekku, sem ekki sést. Háreista húsið með kvistinum er Sölvahúsið, og því miður löngu búið að rífa það. Hitt húsið, tveggja hæða með gluggaröðinni út að Þormóðsgötu er Hólakot, timburhús sem stendur enn, mjög ryðgað og því miður illa útlítandi utan frá. Þar eru að mig minnir 3 eða 4 íbúðir.

Hinum megin við túngötuna, norðan við Alþyðuhúsið, er myndarlegt hús sem stendur enn.

Þetta er gömul mynd því ef hún væri yngri sæist á bak við Sölvahús og Hólakot hin mikla Mjölskemma Síldarverksmiðja ríkisins, sem var kölluð Ákavíti og var stærsta bygging á Íslandi að flatarmáli áður en ameríski herinn byggði flugskýli á Keflavíkurvelli sem var stærra. Mjölskemman var reist 1946, stálgrindarhús með tveim burstum eftir endilöngu. Snjórinn veturinn eftir var nógur til að þakið hrundi og var gert upp á nýtt 1947 og þá bara ein burst. Stendur enn.

Sem sagt húsin á gatnamótum Túngötu og Þormóðsgötu á Siglufirði.

Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR