Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 132. gamla myndin frá safninu sem birtist hér og hafa flestar vakið mikil viðbrögð. Fólk sýnir iðulega gömlum myndum gríðarlegan áhuga og Minjasafninu hafa borist fjölmargar ábendingar um nöfn fólks og staðhætti eftir að mynd birtist opinberlega.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um myndina eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri, á netfangið hg@minjasafnid.is

  • Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Hún er frá Laugarvatni og bárust miklar upplýsingar og ítarlegar eftir birtingu myndarinnar, m.a. frá Sigurði Kristinssyni, prófessor við Háskólann á Akureyri. Faðir hans, Kristinn heitinn Kristmundsson, var skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni frá 1970 til starfsloka 2002

Sigurður Kristinsson skrifar meðal annars um myndina frá æskuslóðum sínum:

Myndin er tekin ofan úr fjallshlíðinni ofan við lundinn í kringum styttuna af Jónasi frá Hriflu, sem horfir niður eftir grasrennunni í skóginum á framhlið héraðsskólabyggingarinnar frá 1928, en Jónas var dóms- og kennslumálaráðherra 1927-1932. Til vinstri með sléttu þaki er viðbyggingin sem í var íþróttasalur og sundlaug, byggt 1942 en rifið á 10. áratugnum. Niðri á sléttlendinu fyrir aftan héraðsskólann er skólastjórabústaður Íþróttakennaraskólans, sem ég man eftir að hafa gengið undir nafninu Fuglinn. Hægra megin á myndinni er fyrst einbýlishúsið Garður, sem var lengi skólastjórabústaður Héraðsskólans en síðar bústaður skólameistara Menntaskólans. Lengst til hægri er svo elsti hluti húss Menntaskólans að Laugarvatni, byggður um og upp úr 1950. Við þessa byggingu var byggður turn á árunum 1959-60 þannig að myndin er tekin fyrir þann tíma. Myndin getur hins vegar ekki verið eldri en frá 1957 því að þá fyrst var lokið endurbyggingu Héraðsskólahússins eftir að burstirnar brunnu 1947.

Í baksýn eru Laugarvatn nær og Apavatn fjær. Aftan við Apavatn sést í Mosfell og þar fyrir aftan Vörðufell. Skógurinn í forgrunni er mun lægri á myndinni en hann er í dag, enda var þá fé beitt á skóginn og skógrækt ekki hafin.

Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR