Gaf stuðningspúða til íbúa á Lögmannshlíð
Íbúum Lögmannshlíðar barst óvenjuleg gjöf, þegar Hjörleifur Árnason eigandi Polynorth kom færandi hendi með skrautlega púða í vikunni. Þegar nánar var að gáð, var um að ræða stuðningspúða, ætlaða undir handleggi sem ef til vill eru að prjóna eða hekla, eða þurfa hvíld í öxlum. Prjónaklúbburinn var einmitt saman kominn þegar Hjörleifur mætti með púðana, og það stóð ekki á ánægjunni með stuðninginn.
Starfsfólk Polynorth á Akureyri er önnum kafið yfir sumarið, en á veturna skapast rými til þess að fá frumlegar hugmyndir, að sögn Hjörleifs. Efnið sem er notað í einangrunarkubba fyrirtækisins býður upp á ýmsa möguleika og meðal annars gerðu þau snjókarl úr frauðkúlunum eitt árið og gáfu barnadeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ólöf Snorradóttir býr á Lögmannshlíð, en hún heklar mikið. Hún er mjög ánægð með púðann sinn og telur að það verði betra að hekla með hann heldur en ekki. Heiða Björg iðjuþjálfi aðstoðar, en púðarnir eru til í tveimur stærðum.
Einstök vara á heimsvísu
„Okkur datt semsagt í hug að láta sauma svona púða, og fylla þá af kúlunum, til stuðnings fyrir brjóstagjöf til dæmis,“ segir Hjörleifur, en hann eignaðist barn fyrir ekki svo löngu og flaug í hug að athuga hvort einhversstaðar væri hægt að fá svona gjafapúða með merkjum fótboltaliða. Hann er sjálfur mikill Tottenham aðdáandi og vissara að kynna erfingjann snemma fyrir merkjum Spurs, þar sem hann gæti bókstaflega fengið ástina á félaginu með móðurmjólkinni.
„Ég komst að því að það var hvergi hægt að fá svona púða á veraldarvefnum, og við ákváðum því að hendast í framleiðslu. Ég fann þetta fótboltaliðaefni í metravöru frá Ástralíu og frábæra saumakonu hérna í bænum sem setti púðana saman fyrir okkur. Við ætluðum að slá í gegn með þessa púða og selja þá, en það var töluvert eftir á lager og þá langaði okkur að gefa þá til einhverra sem geta notað þá,“ segir Hjörleifur.

Hér má sjá innvolsið í púðunum góðu, en frauðkúlurnar eru inn í hvítum púða sem er inn í áklæðinu. Þannig er hægt að taka áklæðið auðveldlega utan af og þrífa ef þarf. Einnig er hægt að opna innri púðann og fá áfyllingu af frauðkúlum hjá Polynorth.
Poolarapúðar hafa selst best
„Liverpool púðarnir hafa verið vinsælastir, eftir síðasta tímabil,“ segir Hjörleifur. Eigendur Liverpool-púðanna eru kannski ekki eins sáttir í dag, en enginn hefur þó reynt að skila vörunni. Íbúar Lögmannshlíðar veltu sér ekki mikið upp úr því, hvaða púða þau fengu, en það er hætta á að sumir myndu ekki taka í mál að prjóna á hvaða merkjum sem er!
Hjörleifur segir það alls ekki útilokað fyrir áhugasama að eignast svona púða ef áhugi er fyrir hendi, en eitthvað er til af efni og hægt að hafa samband. „Við segjum eiginlega aldrei nei í Polynorth,“ segir Hjörleifur að lokum.