Fara í efni
Mannlíf

Jólakort Guðmundar eru listileg grafíkverk

Svavarsstef, jólakort Guðmundar Ármanns frá 2013, tileinkað Svavari Guðnasyni, einum helsta brautryðjanda íslenskrar málaralistar.

Hjónin Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Hildur María Hansdóttir, myndlistarmenn, hafa í tæpa tvo áratugi sent vinum og kunningjum óvenjulega glæsilegt jólakort: grafíklistaverk eftir Guðmund, hvert og eitt tileinkað íslenskum myndlistarmanni.

„Þetta byrjaði með því að krakkarnir okkar gerðu kort og við hjálpuðumst að við að þrykkja. Svo þegar þau urðu eldri og fóru að hafa áhuga á öðru gerði pabbinn þetta bara sjálfur og það vatt upp á sig,“ segir Guðmundur við Akureyri.net. Kortið sem hann hefur nýlokið við er hið 17. í þeim flokki, það fyrsta sendu hjónin fyrir jólin 2004, tileinkað Gunnlaugi Scheving.

Mikil vinna er að útbúa kortin fyrir hver jól. „Ég byrja á því að skoða myndir eftir viðkomandi listamann og af þeim, fer svo að kompónera kortið og velja liti sem mér finnast einkennandi fyrir hann. Þessi teiknivinna tekur dálítinn tíma og svo hefst næsta ferli, sem er að yfirfæra teikninguna á línóleumdúkinn; þegar ég sker er myndin í spegil á dúknum en rétt þegar þrykkt er. Ég sker fyrst útlínu, það sem á að vera hvítt sker ég í burtu og þrykki ljósasta litinn, held svo áfram að skera í sama dúk, þrykki næst dekkri lit og þannig koll af kolli. Nú eru sjö litir í kortinu þannig ég þrykki sjö sinnum.“

Kortið er 13x18 sentimetrar að stærð, Guðmundur sker karton sem kortið er sett í, það er límt í „samloku“ þar sem í aðra örkina er skotið gat fyrir kortið. Jólakortið er því eins og hvert annað grafíklistaverk.

Lunginn úr nóvember fer í að útbúa jólakortið, með öðru, segir Guðmundur. „Já, þetta er mikil vinna en ég hef voða gaman af þessu. Áður gerði ég þetta á kvöldin og um helgar en nú er ég hættur að kenna og tíminn er meiri.“

Eftir að Guðmundur þrykkti Gunnlaug Scheving á kort sigldu í kjölfarið næstu ár Kjarval, Jón Stefánsson, Nína Tryggvadóttir og Júlíana Sveinsdóttir. Sá elsti sem Guðmundur hefur sett á kort er Sigurður Guðmundsson – Sigurður málari, sá kunni listamaður sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar.

„Síðasta kortið, sem ég gerði núna, er Sigurður Sigurðsson, sem var kennarinn minn. Myndlistarmenn á Íslandi líta á Sigurð sem einn af bestu íslensku málurunum en það er ekki mikið látið með hann, ekki haldnar yfirlitssýningar eða slíkt, því miður. En það er önnur saga.“

Guðmundur veit til þess að margir safni kortunum. „Ég þrykki í 75 eintökum en við sendum um það bil 65, ekki bara til fjölskyldunnar held fá alls konar vinir og kunningjar kort, myndlistarmenn, rithöfundar og skáld sem maður hefur kynnst bæði hér heima og erlendis.“

Og spurður hvort menn bíði ekki spenntir eftir korti um hver jól, svarar Guðmundur: „Jú, menn hafa gaman af þessu. Margir safna kortunum og sumir hafa spurt í gríni: hvað á maður að gera til að komast á jólakortalistann?

Engan skyldi undra. Kortin eru mögnuð listaverk.

Svavarsstef frá 2013 og Schevingsstef frá 2004.
Nínustef frá 2009 og Louisustef frá 2010.
Sigurjónsstef frá 2016 og Harðarstef Ágústssonar frá 2018.