Fara í efni
Mannlíf

Fyrsti KA-maðurinn með 50 mörk í efstu deild

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar fyrra marki sínu í gær – 50. markinu fyrir KA í efstu deild – ásamt Harley Willard (37) sem sendi á hann. Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði tvö mörk þegar KA sigraði Keflavík 4:2 í gær í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta var 50. mark Hallgríms fyrir KA í efstu deild Íslandsmótsins og er hann sá fyrsti í sögu félagsins sem nær þeim áfanga að því er fram kemur í samantekt Víðis Sigurðssonar í Morgunblaðinu í dag.

Hallgrímur gerði einnig fjórða mark KA í gær og var það 55. mark hans í efstu deild Íslandsmótsins og það 51. fyrir KA. Hallgrímur var í herbúðum Víkings í Reykjavík eitt sumar og gerði þá fjögur mörk í efstu deild.

  • Hallgrímur skoraði fyrst í efstu deild Íslandsmótsins – sem þá kallaðist Pepsi deild – sumarið 2015. Hann lék þá með Víkingi í Reykjavík og gerði tvö mörk í 7:1 sigri á Keflavík 19. júlí í Víkinni. Hann gerði fyrsta mark leiksins á 25. mín. og fimmta mark liðsins á 71. mín.
  • Fyrsta mark Hallgríms fyrir KA í efstu deild kom í 2:2 jafntefli gegn FH í Hafnarfirði 8. maí 2017. Hann gerði fyrsta mark leiksins með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 22. mín. 
  • Fyrsta mark Hallgríms fyrir KA á heimavelli í efstu deild kom í 6:3 sigri gegn ÍBV á Akureyrarvelli 16. júlí. Hann gerði sér reynar lítið fyrir og skoraði þrjú mörk þann dag – það fyrsta með skoti úr víteignum á 18. mín. eftir sendingu Ásgeirs Sigurgeirssonar, það næsta úr víti á lokasekúndum fyrri hálfleiks og loks sjötta markið á 79. mín. með skalla eftir sendingu Steinþórs Freys Þorsteinssonar.

Hallgrímur Mar skorar í 2:1 sigri KA á Grindavík á Akureyrarvelli 24. september 2017. Þetta var sjöunda og síðasta mark hans í deildinni þetta fyrsta sumar KA í efstu deild í langan tíma. Markvörðurinn er Kristijan Jajalo sem verið hefur samherji Hallgríms í KA síðustu ár. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson