Fara í efni
Mannlíf

Fyrsta stig KA/Þórs eftir ótrúlega sveiflu

Rakel Sara Elvarsdóttir fagnar einu sex marka sinna í kvöld. Hún var með 100% skotnýtingu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór nældi í kvöld í fyrsta stig vetrarins í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins.

Stjarnan kom í heimsókn í KA-heimilið og eftir miklar sviftingar skildu liðin jöfn, 24:24. Stjarnan var einnig án stiga fyrir leikinn.

Stjarnan var mun ákveðnari í fyrri hálfleik, var fimm mörkum yfir að honum loknum, 15:10, og gerði fyrsta mark seinni hálfleiks. Staðan þá 16:10 en þegar níu mín. voru liðnar af hálfleiknum hafði KA/Þór jafnað 18:18.

Matea Lonac rekur samherjana fram í hraðaupphlaup í kvöld. Hún var frábær í seinni hálfleik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór gerði raunar sjö mörk í raun; breytti stöðunni úr 16:18 í 23:18 á ellefu mínútna kafla. Vörnin small saman og Lonea Matic lokaði markinu.

Gestirnir náðu síðan smám saman að minnka muninn en þegar 10 mín. voru eftir gerði Lydía Gunnþórsdóttir 24. mark KA/Þórs eftir gegnumbrot, staðan þá 24:21, og allt virtist í lukkunnar velstandi. Þetta reyndist hins vegar síðasta mark heimaliðsins, og eftir mikinn darraðardans og töluverð mistök á báða bóga á lokamínútunum varð jafntefli niðurstaðan.

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Nathalia Soares Baliana 5, Telma Lísa Elmarsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4/1, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 15, 38,5%.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Lydía Gunnþórsdóttir laumar sér í gegnum Stjörnuvörnina, kemur KA/Þór í 24:21 þegar tæpar 10 mínútur voru eftir, og fagnar markinu, sem reyndist síðasta mark liðsins í leiknum. 


Nathalia Soares Baliana hvetur liðsfélagana til dáða á meðan hún kastaði mæðinni á varamannabekknum.