Fara í efni
Mannlíf

Jólaföndurstofan full út úr dyrum – MYNDIR

Húsfyllir var og handagangur í öskjunni þegar Minjasafnið á Akureyri bauð til jólaföndurstofu í húsakynnum safnsins við Aðalstræti um nýliðna helgi.

Listakonurnar Jonna og Bilda – Jónbjörg Sigurðardóttir og Brynhildur Kristinsdóttir – voru föndurstjórar, klæddu sig í viðeigandi búning og stjórnuðu föndursmiðjunni af alkunnri snilld, eins og Haraldur Þór Egilsson safnstjóri orðar það. Allur efniviður var úr endurnýttu efni, Andrésblöð voru klippt, gamlar jólakúlur fengu nýtt útlit og ýmislegt fleira var notað í föndurstofunni og til varð margskonar, glæsilegt jólaskraut.

Haraldur Þór var himinlifandi með hvernig til tókst. „Þetta verður örugglega árviss viðburður héðan í frá, og allt eins víst að fullorðnum verði boðið upp á föndurstund fyrir næstu jól,“ sagði safnstjórinn við Akureyri.net.