Fara í efni
Mannlíf

Friðrik Þór leikstýrir mynd um Kalla

Karl Guðmundsson og Friðrik Þór Friðriksson í Ketilhúsinu fyrr á árinu þegar tekið var upp atriði í kvikmyndina. Sýning Kalla var opnuð í salnum á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Friðrik Þór Friðriksson leikstýrir heimildamyndinni Dansandi línur sem unnið er að um Akureyringinn Karl Guðmundsson, myndlistarmann. Kalli, sem er bæði mál- og hreyfihamlaður, opnaði fyrstu einkasýningu sína í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn og þar voru Friðrik Þór og Jón Karl Helgason kvikmyndatökumaður mættir ásamt samstarfsfólki.

Friðrik Þór, sem á sínum tíma var tilnefndar til Óskarsverðlauna fyrir Börn náttúrunnar, leikstýrði fyrir liðlega áratug heimildamyndinni Sólskinsdrengnum um Kela, einhverfan son íslenskra hjóna sem búa í Bandaríkjunum. Sú mynd vakti gríðarlega athygli. Við gerð hennar kynntust Friðrik Þór og Vilborg Einarsdóttir, sem er annar framleiðandi myndarinnar um Kalla og höfundur handrits.

Að sögn Vilborgar má rekja upphafið að myndinni til þess að Arna Guðný Valsdóttir, listakona á Akureyri og vinkona Vilborgar, sendi henni upptökur af samstarfi Kalla og Rósu Kristínar Júlíusdóttur. Rósa var fyrsti kennari Kalla og hefur unnið með honum að listsköpun til fjölda ára.

Arna, sem hefur einnig kennt Kalla og síðan unnið með honum, hugðist skrásetja samvinnu Kalla og Rósu fyrir þau og fjölskyldu Kalla, en sendi Vilborgu myndböndin með þeim orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað allt annað og miklu meira en stutt upptaka í fjölskyldualbúmið! Það reyndust orð að sönnu.

Undirbúningur og handritsskrif hófust 2019 og listrænar tökur fóru fram 2020 og aftur í sumar undir stjórn Örnu Guðnýjar, sem er listrænn stjórnandi myndarinnar.

Sigmundur Ernir Rúnarsson ræddi við Vilborgu og Friðrik Þór á sjónvarpsstöðinni Hringbraut á dögunum. Smellið hér til að sjá viðtalið.

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net í morgun um sýningu Kalla.

Friðrik Þór Friðriksson, lengst til vinstri, og hans menn mættu við opnun sýningar Kalla í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.