Fara í efni
Mannlíf

Frí í VMA vegna veðurs og grillveisla á SAk

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, til vinstri, og Bjarni Jónasson, forstjóri, vígalegir við grillið í gær. Ljósmynd: Helgi Þór Leifsson.

Hitamet var ekki slegið á Akureyri í gær en veðrið var engu að síður dásamlegt. Hitinn fór mest í 26,1 gráðu, skv. opinberum mælum Veðurstofu Íslands, bæði klukkan 13.00 og 15.00, og fór ekki niður fyrir 20 stig fyrr en um kvöldmatarleytið þegar ský dró fyrir sólu.

Kennsla er nýlega hafin við skóla bæjarins. Skólameistari Verkmenntaskólans veitti kennurum skólans heimild til að gefa frí eftir hádegi í gær vegna veðurs og hlupu sumir út í sólina og lognið. Aðrir fengu útikennslu og margir nemendur voru í nýnemaferð á Hólavatni, þar sem þeir nutu veðurblíðunnar.

Stjórnendur Sjúkrahússins tóku upp á því að bjóða starfsfólki í grillveislu í góða veðrinu í gær. Þetta kemur fram á vef N4, þar sem meðfylgjandi mynd birtist, af Bjarni Jónassyni forstjóra og Sigurði E. Sigurðssyni, framkvæmdastjóra lækninga, að grilla ofan í mannskapinn í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf síðustu mánuði.

Smellið hér til að sjá frétt N4 um grillveisluna á SAk

Smellið hér til að sjá myndir frá nýnemaferð VMA-inga