Fara í efni
Mannlíf

Framkvæmdir hafnar á KA-svæðinu

Mynd af heimasíðu KA

Framkvæmdir hófust í dag á svæði KA við Dalsbraut þar sem miklar breytingar á knattspyrnuvöllum félagsins standa fyrir dyrum. Fyrsta skrefið er jarðvegsvinna í suðvestur horni svæðisins þangað sem núverandi gervigras á svæðinu verður fært. Nýtt gervigras verður svo lagt þar sem núverandi gervigras er. Vinna við að leggja hið nýja hefst fljótlega eftir páska.

Eiríkur S. Jóhannsson, nýr formaður KA, upplýsti á aðalfundi félagsins á dögunum að KA hefði fengið leyfi Knattspyrnusambands Íslands til þess að heimaleikir félagsins í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, fari fram á KA-svæðinu í sumar eftir að nýtt gervigras hefur verið lagt á völlinn sunnan við KA-heimilið og bráðabirgðastúka reist þar. Fyrstu heimaleikirnir verða á Dalvík en ekki liggur ljóst fyrir hve þeir verða margir.

Mikil uppbygging

„Nú er að hefjast ein mesta uppbygging á félagssvæði okkar á seinni tímum. Á næstu vikum verður gervigras á gamla gervigrasvelli okkar endurnýjað, og gamla mottan færð uppí horn þ.a. Nývangur mun frá og með vori verða lagt gervigrasi og nýtast þannig sem æfingasvæði fyrir yngstu iðkendur okkar. Samhliða þessu hefur félagið fest kaup á áhorfendastúku sem sett verður upp á pallinum sunnan við húsið og höfum við fengið leyfi KSÍ til að keppa heimaleiki okkar í Bestu deildinni þar í sumar. Er þetta fyrsti vísir að því að allar deildir félagsins eigi sér sinn heimavöll á KA svæðinu. Samkvæmt samningi sem við höfum undirritað við Akureyrarbæ og gerð hefur verið grein fyrir á s.l. félagsfundi, mun svo aðal keppnisvöllur KA í knattspyrnu verða lagður árið 2023 og stúkubygging reist 2023-2024,“ sagði Eiríkur S. Jóhannsson, nýr formaður KA, á aðalfundi félagsins á dögunum.

Gerir allt starfið öflugra

„Þessi framkvæmd mun lyfta öllu svæðinu okkar upp og gera allt starf okkar öflugra. Þó skal áréttað, að það er algerlega ljóst að húsnæði okkar munu ekki ráða við allan þann fjölda sem fylgir núverandi starfsemi okkar hér, hvað þá framtíðar starfsemi félagsins. Í því sambandi er rétt að minna á, að næsta verkefni á uppbyggingarlista íþróttamannvirkja á Akureyri er einmitt ný félagsaðstaða á KA svæðinu. Í yfirstandandi framkvæmdum er tekið tillit til þessa, í jarðvegsskiptum fyrir hina nýju félagsaðstöðu. Það er því áframhaldandi verkefni aðalstjórnar að hefja að nýju samtal við nýja bæjarstjórn um undirbúning fyrir frekari framkvæmdir á svæðinu og hlökkum við til þessa samtals enda hefur ríkt góður andi í samtölum okkar við fulltrúa bæjarins. Á kosningavori er þó ljóst að KA fólk þarf að hafa þessar staðreyndir í huga þegar kosið er til nýrrar bæjarstjórnar! Við skulum hafa í huga, að uppbygging á KA svæðinu hófst árið 2008 en stöðvaðist jafnharðan vegna bankahruns. Frá þeim tíma hefur upptökusvæði KA stækkað gríðarlega, en eina uppbyggingin verið gervigrasvöllur, sem ekki uppfyllir keppnisleyfi KSÍ. Félagshúsnæðið er fyrir löngu sprungið og enn vantar húsnæði fyrir aðrar deildi KA,“ sagði Eiríkur.

Mynd af heimasíðu KA.