Fara í efni
Mannlíf

Frábær upplifun að spila á Boston Calling

Bjarki Guðmundsson í banastuði á Boston Calling tónlistarhátíðinni á dögunum. Ljósmyndir: Tiffany Hu

Akureyringurinn Bjarki Guðmundsson og félagar í hljómsveitinni Paper Tigers frá Boston léku fyrir skömmu á stærstu tónlistarhátíð borgarinnar, Boston Calling, og kveðst Bjarki afar ánægður með viðtökurnar. Hljómsveitin er orðin býsna þekkt á svæðinu.

Bjarki hefur verið búsettur í Boston á austurströnd Bandaríkjanna undanfarin fimm ár ásamt Elínu Dröfn Þorvaldsdóttur eiginkonu sinni. Elín lærði hagnýta atferlisgreiningu (e. Applied Behaviour Analysis) í Boston og starfar við sitt fag þar í borg en Bjarki, sem nam gítarleik í Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík, lauk nýlega kennaranámi í fjarnámi við Háskóla Íslands.

Auk Bjarka, sem leikur vitaskuld á gítar, eru þrír Bandaríkjamenn í hljómsveitinni; Michael Medlock syngur, Ben „Cutty“ Cuthbert spilar á trommur og Matt Hughes á bassa.

„Sá eini okkar sem er með einhverja Boston tengingu er Matt bassaleikari. Hann á fjölskyldu hér og hefur búið í töluverðan tíma í Massachusetts ríki en er upprunalega að vestan – frá Seattle í Washington ríki. Michael er hins vegar frá Washington DC og hefur búið hér í Boston álíka lengi og ég, um það bil fimm ár. Cutty er uppalinn í Texas en var mjög lengi í flughernum og hefur því búið út um allt ef svo má segja; í Suður-Kóreu, Þýskalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Konan hans var í námi í Boston og því flutti hann hingað eftir að hafa lokið herþjónustu,“ segir Bjarki við Akureyri.net.

Vildi kynnast heimamönnum!

Sagan af því hvernig hljómsveitin varð til er býsna skondin.

Það var vorið 2019 sem Michael setti auglýsingu á Craigslist, kunnan auglýsingavettvang í Boston, þar sem hann óskaði eftir fólki til þess að stofna hljómsveit. „Hann taldi það vera bestu leiðina til þess að kynnast fólki í nýrri borg, en endaði með því að hann fékk okkur utanbæjarmennina með sér! Í janúar árið 2020 vorum við tilbúnir með nógu mörg lög til að spila á tónleikum og náðum að koma þrisvar fram áður en Covid skall á,“ segir Bjarki.

„Við vorum mjög duglegir á Covid tímanum að spila á stafrænum tónleikum, taka upp og semja tónlist. Þetta virkaði furðulega vel þar sem við vorum í okkar eigin „Covid-búbblu” hittum nánast enga aðra. Þannig að þegar að Covid takmörkunum var aflétt vorum við tilbúnir með fullt af nýjum lögum, búnir að mynda okkur gott tengslanet með öðrum hljómsveitum í gegnum samfélagsmiðla og tilbúnir að byrja upp á nýtt.“

Bjarki, lengst til hægri, á Boston Calling- tónlistarhátíðinni um daginn. Ljósmynd: Tiffany Hu

„Án þess að vilja hljóma of gamall þá er hljómsveitarbrölt ekki alveg það sama og mér fannst það vera fyrir örfáum árum. Við búum við svo frábært framboð af tónlist og annarri afþreyingu að það hljómar oft ekkert sérstaklega spennandi að fara á tónleika með einhverju lókal bandi sem maður hefur aldrei heyrt í áður. Þar sem við erum allir utanbæjarmenn þekkjum við hversu erfitt það getur verið að fá fólk til að mæta á tónleika og okkar markmið hefur því alltaf verið að reyna að koma allri grasrótar tónlistarsenunni í Boston á framfæri, ekki bara okkur sjálfum,“ segir Bjarki. „Við höfum lagt mikið upp úr því að mæta á tónleika hjá öðrum böndum, deila tónlistinni þeirra á samfélagsmiðlum og reynt að vekja áhuga fólks á því hvað það eru margar góðar hljómsveitir í þessari borg. Þessi afstaða okkar og samstaða okkar með öðrum hefur skilað sér margfalt til baka fyrir okkur og var líklega það sem gerði það að verkum að okkur var boðið að spila á Boston Calling.“

Ljósmynd: Tiffany Hu

Það góða við að vera í hljómsveit á sæmilega þéttbýlu svæði, segir Bjarki, er að geta spilað í hverri viku án þess að vera „uppáþrengjandi“. Þeir félagar spila ekki einvörðungu í Boston og næsta nágrenni heldur nánast um allt Nýja England, en til svæðisins teljast sex ríki; Maine, New Hampshire, Vermont, Massachusetts, Rhode Island, og Connecticut. Bjarki segir hljómsveitina skipuleggja að minnsta kosti eina tónleika mánaðarlega, en þeir félagar komi oft fram allt að fimm sinnum í mánuði.

Hávært rokk en melódískt

„Ég held að besta skilgreiningin á tónlistinni okkar sé hávært rokk sem er þó nógu melódísk að hægt sé að syngja með. Við segjum stundum Indie-Rock eða Alt-Rock en þessi hugtök eru víst hætt að afmarka nokkuð. Við erum allir með ólíkan tónlistarbakgrunn en gengur furðulega vel að semja tónlist og komast að samkomulagi um hvernig þetta á allt að hljóma. Cutty og Matt eru mjög amerískir tónlistarlega á meðan ég og Mike erum meira Bretlands megin þegar kemur að áhrifum,“ segir Bjarki.

„Boston Calling er stærsta giggið okkar hingað til. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá 2013 að Covid tímanum frátöldum. Þetta árið var ákveðið að bjóða upp á fleiri lókal tónlistarmenn en áður hafa komið fram og við vorum svo heppnir að fá að vera með. Þetta var frábær upplifun í alla staði, það að fá að spila þarna og bara að vera á svæðinu og sjá aðrar frábærar hljómsveitir. Við trúðum ekki hvað það var margt fólk mætt til að horfa á okkur spila, það var alveg stappað við sviðið þegar við byrjuðum og var þannig alveg þar til við kláruðum. Við vorum mjög heppnir með veður, deginum áður þurfti að aflýsa nokkrum atriðum vegna þrumuveðurs, en okkur mætti bara sól og blíða – sem ég veit að Akureyringar tengja auðveldlega við og geta samglaðst okkur!“

Ljósmynd: Tiffany Hu