Fara í efni
Mannlíf

Fótbolti ekki bara í sól og sumaryl

Fótbolti ekki bara í sól og sumaryl

Sumir vita fátt betra en horfa á skemmtilegan knattspyrnuleik á fögrum sumardegi á iðjagrænum velli þegar angan af nýslegnu grasi fyllir vitin. Leikmenn sjálfir hafa án efa mest gaman af því að leika listir sínar við þær aðstæður, en sú er ekki alltaf raunin; æfingin skapar meistarann, eins og allir vita, og veturnir eru því vel nýttir til þess að auka styrk og snerpu, boltatækni, sendingar og hvaðeina sem þjálfarinn telur nauðsynlegt. Akureyrarliðin, karlalið KA og Þórs og sameiginlegt kvennalið félaganna, æfa mikið inni í Boganum en líka utandyra og þá oft í góðu veðri – sem er auðvitað teygjanlegt hugtak. Ekki er hægt að segja að veðrið á Akureyri nú um kvöldmatarleytið sé „vont“ en aðeins hefur snjóað og lognað er á örlítilli hreyfingu. Því var ekki annað hægt en stökkva út úr bílnum, fyrst myndavélin var með í för, þegar blaðamaður ók framhjá KA-svæðinu. Æfing sem þar stóð yfir var svo myndræn; sumir spörkuðu í bolta en aðrir voru í hlutverki snjóruðningsmanna! Þarna reyndist meistaraflokkur Þórs á ferð, og ekki var annað að sjá en leikmenn hefðu lúmskt gaman af þessari óhefðbundnu upphitun. 

Fín upphitun! Bjarki Viðarsson var einn þeirra sem hreinsaði snjó af vellinum við upphaf æfingarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.