Fara í efni
Mannlíf

Forsetinn í fylgd með fullorðnum!

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í gærkvöldi ásamt öllum sem koma að sýningunni á Melum.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í gærkvöldi ásamt öllum sem koma að sýningunni á Melum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði Hörgdælinga með nærveru sinni í gærkvöldi, þegar hann þáði boð um að sjá sýninguna Í fylgd með fullorðnum sem nú gengur fyrir fullu húsu á Melum.

„Í fylgd með fullorðnum er bráðskemmtileg sýning Leikfélags Hörgdæla, söngleikur Péturs Guðjónssonar sem byggir á lögum og textum Bjartmars Guðlaugssonar, alþýðuskáldsins góða. Ég hélt á Mela í Hörgárdal í gærkvöldi, naut þessarar skemmtunar til hins ítrasta og þakka öllum sem að henni koma,“ skrifar Guðni á Facebook síðu embættisins í dag. Bætir svo við: „Á myndinni að er leikhópurinn káti og svo ég með bindi og væri freistandi að kalla mann kótelettukarl þar, með vísan í einn hinna fjölmörgu braga Bjartmars“

Forsetinn heldur áfram: „Allir dagar marka tímamót á einhvern hátt. Í dag minnumst við þess til dæmis að 120 ár eru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, þess rithöfundar sem markað hefur dýpst spor í bókmenntasögu Íslendinga. Einnig má nefna að 20 ár eru liðin frá andláti Kristjáns Eldjárns tónlistarmanns sem lést fyrir aldur fram en var þegar búinn að láta vel að sér kveða á sínum vettvangi.

Vonandi náum við sem flest að njóta fallegs dags. Norðan heiða var brakandi blíða í morgunsárið og nú sé ég ekki betur en að sólargeislar séu að mjaka sér leið í gegnum skýjabakka hér syðra,“ skrifaði Guðni uppúr hádegi í dag.

Pétur Guðjónsson, höfundur verksins og leikstjóri, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Kristján Blær Sigurðsson, framkvæmdastjóri leikfélagsins í sýningunni.

Leikhópurinn eftir vel heppnaða sýningu á Melum.