Fara í efni
Mannlíf

Fögnuðu 35 ára afmæli Krógabóls - MYNDIR

Á laugardaginn voru 35 ár síðan leikskólinn Krógaból tók til starfa á neðri hæð Glerárkirkju. Nemendur skólans og starfsmenn fögnuðu tímamótunum í gær, í skemmtilegri afmælisveislu á skólalóðinni.

Skreytt var með íslenska fánanum og blöðrum, leikin skemmtileg tónlist og brugðið á leik með ýmsum hætti. Ekki leyndi sér að allir viðstaddir skemmtu sér konunglega. Börnin höfðu margt fyrir stafni sem endranær, þeir sem unnu að vegagerð voru mjög uppteknir en gáfu sér tíma til að líta eldsnöggt á ljósmyndarann og ökumaður strætisvagnsins, sá á neðri myndinni, kvaðst á leið niður í Norðurgötu á Eyrinni. Farþegar mótmæltu því ekki, en ástæða þess óvenju langa ferðalags var ekki gefin upp. Svo var auðvitað hlaupið í gegnum vatnsbunu – það heillar alltaf verulega!

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.