Fara í efni
Mannlíf

Fleiri gersemar frá Erlingi Davíðssyni

Kaffitími við einu síldarsöltun ársins 1968 í Krossanesi, fimmtudaginn 26. september, og þá síðustu á staðnum. Frá vinstri: Skapti Hallgrímsson, Margrét Ásgrímsdóttir, Ragnhildur Franzdóttir, Anna Gréta Baldursdóttir, en ekki er vitað hver er lengst til hægri.

Minjasafninu á Akureyri barst nýverið mikill fjöldi filma með ljósmyndum Erlings Davíðssonar, eins og fram kom á Akureyri.net í gær. Erlingur var ritstjóri Dags frá 1955 til 1979. Í gær birtust hér nokkrar af myndum Erlings og sannaðist það sem ritstjóri þessa miðils hefur lengi leyft sér að halda fram; ekkert (eða a.m.k. fátt) gleður fólk meira en gömul ljósmynd! Viðbrögðin voru gífurleg.

Hversdagsleg ljósmynd getur nefnilega verið dásamlegur vitnisburður um daglegt líf liðins tíma. Hér koma nokkrar myndir til viðbótar sem ættu að gleðja marga.

Rétt er að taka fram strax að ritstjóra Akureyri.net þykir góð sú regla fjölmiðlamanna að láta sem minnst á sér bera, en einstaka sinnum er óhjákvæmilegt að gera undantekningu. Góð ljósmynd má til dæmis ekki líða fyrir að á henni sjáist maður sem síður vill birta mynd af sjálfum sér! Efsta myndin, sem Erlingur tók við síldarsöltun í Krossanesi 26. september 1968, er söguleg, ekki bara vegna þess að það var eina söltun þess árs á staðnum heldur sú allra síðasta í Krossanesi. Myndin er líka svo listilega gerð að hún krefst þess beinlínis að fá að koma fyrir almennings sjónir. Sú staðreynd að á myndinni sé sex ára saklaus drengur við hlið móðursystur sinnar má ekki koma í veg fyrir að hún birtist, jafnvel ekki þótt þessi sami drengur sé nú ritstjóri Akureyri.net! Unga kynslóðin kann að halda að þarna séu leikarar í bíómynd eða leikriti, í óvenju trúverðugri leikmynd. Svo er sem sagt alls ekki. 

Tilviljanir eru stundum ótrúlegar. Þegar mér barst til eyrna að Minjasafninu hefði áskotnast filmur með um það bil 10 þúsund ljósmyndum Erlings Davíðssonar, til viðbótar við það sem safnið átti þegar af myndum hans, skundaði ég í heimsókn. Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar, kallaði upp á tölvuskjáinn aragrúa smámynda sem hann hafði skannað, en þrátt fyrir smæðina sagði ég um leið: „Þetta er örugglega frá síldarsöltun í Krossanesi,“ og benti á tvær eða þrjár myndir. „Ég man að við Anton frændi minn Benjamínsson fórum einu sinni þangað þegar verið var að salta, vegna þess að mamma hans ...“ Ekki hafði fleira verið sagt þegar Hörður smellti á eina myndanna – tilviljun réð því hvaða mynd – og sagan varð ekki nema sjö orð til viðbótar: „Veistu hver þetta er? Þetta er ég!“ Rétt er að taka fram að drengurinn/ritstjórinn hafði aldrei séð þessa mynd og rámaði ekki í að hafa „setið fyrir“ hjá ljósmyndara þennan annars eftirminnilega dag.

Á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, fyrir utan gamla Alþýðuhúsið, Allann, við Gránufélagsgötu. Þetta er augljóslega á Þorskastríðsárunum: „Sjóræningjana í hendur dómstólanna“ er letrað á einn borðann og „Enga samninga við Breta og Þjóðverja“ á annan. Glöggir ættu að sjá að lengst til hægri á myndinni er Ingimar Eydal tónlistarmaður og gott ef ekki Guðný Björk dóttir hans.

Við upphaf KA hlaups í apríl 1970. Tíu ára strákar, fæddir 1960, þeir fremstu með lægstu númerin úr Oddeyrarskóla, þar fyrir aftan strákar úr Barnaskóla Akureyrar. 

Við upphaf KA hlaupsins í apríl 1970, fyrir framan gamla íþróttahúsið við Laugargötu. 

Fyrstu umferðarljósin sett upp á Akureyri, í ágúst 1973, á mótum Glerárgötu og Strandgötu. Maðurinn sem stendur á stéttinni er Henry Henriksen og í stiganum er Ingólfur Steinar Ingólfsson, rafvélavirki hjá Rafveitu Akureyrar.

„Þetta er mjög merkileg mynd, eina myndin sem ég hef séð frá því þegar verið er að brjóta niður útihúsin á Barði og athyglisvert er að á sama tíma er verið að mæla út fyrir lóðinni Eyrarlandsvegi 25, þar sem reist var stórt einbýlishús, á horni Barðstúns og Eyrarlandsvegar,“ segir Hörður Geirsson á Minjasafninu. Húsið Barð er bak við gröfuna. Þar bjó lengi Kristrún Júlíusdóttir - Rúna í Barði - sem starfaði við þrif í Menntaskólanum á Akureyri í hálfa öld. Húsið Barð var flutt að skíðahótelinu í Hlíðarfjalli en fauk í  ofsaveðri og eyðilagðist.