Fara í efni
Mannlíf

Fjölmenn opnunarhátíð hjá Norðurhjálp

Anna Jónu Vigfúsdóttir, Stefanía Fjóla, Guðbjörg Thorsen og Sæunn Ísfeld, stofnendur og sjálfboðaliðar Norðurhjálpar. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Nytjamarkaður Norðurhjálpar var opnaður á ný kl. 13.00 í dag, föstudaginn 21. júní, að Dalsbraut 1 á Akureyri. Opnunarhátíð stendur enn yfir. Það voru ánægðar og stoltar konur sem tóku sér kærkomið korter til þess að spjalla við blaðamann Akureyri.net inni á kaffistofu.

Konurnar mega varla vera að því að setjast niður, en það er bókstaflega stöðugur straumur af fólki með alls kyns heillaóskir og spurningar í farteskinu

Þær Sæunn Ísfeld, Stefanía Fjóla, Guðbjörg Thorsen og Anna Jónu Vigfúsdóttir stofnuðu Norðurhjálp í október á síðasta ári, en þær hafa allar mikla reynslu af sjálfboðaliðastörfum á nytjamörkuðum. „Við erum ofboðslega stoltar og hrærðar yfir góðum viðtökum og sérstaklega núna í dag, að opna verslunina eftir mikla vinnu við að skipta um húsnæði,“ segir Sæunn Ísfeld. „Þetta var alveg hrátt hérna og við þrifum allt og máluðum áður en við gátum farið að stilla upp.“

 


Verslunin er rúmgóð og vítt til veggja. Mikið fjölmenni var mætt á opnunarhátíðina. Mynd RH

Húsnæðið að Dalsbraut 1 er mjög rúmgott og stórt, en inngangurinn er svolítið falinn aftan við húsið. Það þarf að fara upp litla brekku við endann á húsinu, þar sem Útisport var á jarðhæðinni. „Áður var ullarmatið hérna til húsa, þar sem ull af svæðinu var safnað saman og hún gæðametin. Svo var hérna byggingarfyrirtæki og síðast var þetta bara geymsla.“ Konurnar mega varla vera að því að setjast niður, en það er bókstaflega stöðugur straumur af fólki með alls kyns heillaóskir og spurningar í farteskinu.

„Við erum hundrað prósent á því, að við erum með bestu viðskiptavinina,“ segir Sæunn brosandi. „Fólk gefur okkur svo vandaða og góða hluti til endursölu og er svo duglegt að koma að versla líka. Fólk hefur verið að koma með hluti til okkar á meðan það var lokað, og nánast allt sem er í búðinni núna er nýtt.“ Í nytjamarkaðsheiminum er náttúrulega fátt raunverulega 'nýtt', en þá er átt við hluti sem ekki hafa áður verið til sölu í búðinni. Norðurhjálp opnaði og var fyrstu mánuðina til húsa að Hvannavöllum, í gamla Hjálpræðishershúsinu en varð að flytja þaðan í apríl síðastliðnum. Sæunn hefur orð á því að það hafi verið mikill happafengur að fá húsnæðið við Dalsbraut og nú geta sjálfboðaliðar Norðurhjálpar haldið áfram að sinna sínu hjálparstarfi. 

Nú er heilmikið að koma inn, sýnist mér, þannig að við byrjum aftur af útdeila styrkjum eftir helgi

Allur ágóði sölunnar á nytjamarkaðnum hefur runnið til einstaklinga og fjölskyldna á svæðinu sem hafa lítið á milli handanna, en hingað til hefur Norðurhjálp getað styrkt þennan hóp um u.þ.b. 6 milljónir, bara með sölu úr búðinni. „Við styrkjum líka öðruvísi, til dæmis með því að gefa fólki vörur úr búðinni,“ segir Sæunn. „Nú er heilmikið að koma inn, sýnist mér, þannig að við byrjum aftur af útdeila styrkjum eftir helgi,“ en þegar við kíkjum fram í búð er löng röð að afgreiðslukassanum. 

Opnunartími verslunarinnar er frá 13-17 á virkum dögum og 13-16 á laugardögum, en það verður opið í allt sumar. „Það verður áfram kaffihorn hjá okkur, en það hefur alltaf verið hugguleg stemning þar,“ segir Sæunn.

 


Stórt og gott rými er fyrir bækur, tónlist, blöð og jafnvel gömlu góðu VHS spólurnar. Mynd RH

Fólk sem vill óska eftir aðstoð hjá Norðurhjálp, getur komið í verslunina og fengið að spjalla við sjálfboðaliðana þar. „Það má líka hafa samband við okkur á Facebook síðunni. Oft finnst fólki þetta erfitt skref, að biðja um hjálp, og á erfitt með að koma í persónu. Við skiljum það mjög vel, en við tökum vel á móti öllum og sýnum nærgætni og gætum þagmælsku,“ segir Sæunn. 

„Við erum hérna til þess að fólk leiti til okkar,“ segja stúlkurnar glaðar í bragði. „Við þurfum engin bankayfirlit eða afrit af skattaskýrslum, við treystum fólki og okkur þykir mjög vænt um að geta hjálpað. Eins tökum við glaðar við hlutum sem fólk vill gefa til sölu í búðinni og svo má hafa samband ef einhver gæti hugsað sér að verða sjálfboðaliði með okkur.“