Fara í efni
Mannlíf

Fjölbreyttur og vinsæll Vísindaskóli – MYNDIR

Margir nemenda Vísindaskóla ungu fólksins fengu mynd af sér með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, að útskriftarathöfninni lokinni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Hinn árlegi Vísindaskóli unga fólksins í Háskólanum á Akureyri starfaði í síðustu viku og voru nemendur útskrifaðir með pompi og prakt í hátíðarsal HA á föstudaginn var. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var heiðursgestur á samkomunni, ávarpaði viðstadda, svaraði hraðaspurningum nemenda og afhenti öllum jurt frá skólanum eftir að þeir höfðu tekið við útskriftarskírteininu.

Skólinn er ætlaður nemendum 11 til 13 ára, námsefnið var fjölbreytt að vanda og ljóst að nemendur voru hæstánægðir.

„Í vikunni gerðum við allskonar skemmtilegt og fjölbreytt, enginn dagur var eins og ég vona að allir hafi skemmt sér vel,“ sagði Valur Darri Ásgrímsson, annar tveggja nemenda sem hélt ávarp við útskriftina. „Eftir fyrsta daginn sagði ég við mömmu mína: þegar að ég vaknaði í morgun þá bjóst ég ekki við að fá að halda á auga eða blása í lungu!“ Valur Darri sagði vikuna hafa verið ótrúlega fljóta að líða „og mér finnst eins og ég hafi verið að byrja í gær. Nú veit ég til dæmis hvernig við náum í heita vatnið og hvernig lyktarskynið hjá dýrum virkar. Ég ætla svo sannarlega að koma hingað aftur á næsta ári og ég hlakka mjög til.“

Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor HA, ávarpaði nemendur við upphaf athafnarinnar, Irena Rut Jónsdóttir söng tvö lög og það voru svo Dana Rán Jónsdóttir verkefnastjóri skólans og Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri sem útskrifuðu nemendur ásamt Elínu Díönnu og Guðna forseta.

Kennd voru fimm námskeið, eitt á dag: 

  • Laganna verðir og gæludýr
    Hvernig vinna lögguhundar? Kynnumst fjórfættum laganna vörðum og hinum ýmusustu gæludýrum og fáum smjörþefinn af dýralækningum. Svo ætlum við líka að hreyfa okkur helling!
  • Vatnið er verðmæti
    Er heita vatnið endalaust? Er kúkur í lauginni? Er klósettið ruslafata? Nánar um orku- og frárennslikerfi bæjarins.
  • Áhrifavaldarnir í lífi okkar
    Hverju á ég að treysta á netinu? Netöryggi, umferðareglur og upplýsingamiðlun í netsamfélagi.
  • Tónar og leikur
    Hvað gerist baksviðs? Hvað gerist á sviðinu? Sköpun í tónum og hljóðum og listin að leika. Við getum öll leikið!
  • Að eiga hvergi heima
    Af hverju verða stríð? Hvernig leysast þau? Hverjar eru afleiðingar stríðs? Hvernig ætli það sé að komast aldrei aftur í sitt eigið rúm?

Tveir nemenda Vísindaskólans, Benedikt Már Þorvaldsson og Bríet Laufey Ingimarsdóttir, spurðu forseta Íslands spjörunum úr. Sigrún Stefánsdóttir skólastjóri til hægri.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpar samkonuna.

Heiðdís Rós Hafrúnardóttir, nemandi í Vísindaskólanum, flutti ávarp við útskriftina.

Valur Darri Ásgrímsson annar tveggja nemenda Vísindaskólans sem flutti ávarp við athöfnina.

Irena Rut Jónsdóttir söng tvö lög við athöfnina.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti öllum nemendum plöntu eftir að þeir höfðu tekið við útskriftarskírteininu.

Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri.