Fara í efni
Mannlíf

Fjölbreytt dagskrá á Sæludegi í Hörgársveit

Fallegt er við Hraunsvatn. Meðal þess sem í boði er á Sæludögum í Hörgarsveit er ganga um jörðina Hraun með félagi eldri borgara en reyndar ekki upp að vatninu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sæludagur í Hörgársveit hefur verið árlegur viðburður í upphafi sumars, og í ár verður engin undantekning á. Á morgun, laugardaginn 22. júní opna íbúar og fyrirtæki dyrnar og bjóða gestum að njóta með sér á Sæludegi 2024. Margt og mikið er á dagskránni, sem hægt er að skoða HÉR.

Svo eitthvað sé nefnt, verður grænmeti og list í brennidepli á Hjalteyri, ganga um Hraun með félagi eldri borgara og Zumbaveisla í sundlauginni. Á Möðruvöllum verður vöfflukaffi, markaður, þrautabraut fyrir krakkana og Umskiptingar sýna leikritið Fóa og Fóa feykirófa. Í Íþróttahúsinu verður UMF Smárinn með Íþróttaskóla og á efri hæðinni verður markaður þar sem ýmislegt fallegt úr héraðinu verður til sölu. Höllin verkstæði á Laugalandi verður svo með opið hús. Garðyrkjustöðin Sólbakki opnar dyrnar og býður upp á fersk jarðaber og sumarblóm. 

Margt fleira verður í boði, en áhugasöm eru hvött til þess að skoða dagskránna.