Fara í efni
Mannlíf

„Fjarbúð“ Hallgríms og Önnu varð fyrir valinu

Frá Hríseyjarhátíðinni um síðustu helgi. Mynd af vef Akureyrarbæjar: Gestur Leó Gíslason.

Á Hríseyjarhátíðinni sem haldin var um sl. helgi voru tilkynnt úrslit úr samkeppni um nafn á fjarvinnusetrið í eynni. Nafnið sem varð fyrir valinu er Fjarbúð, að því er kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar.

Alls bárust 57 tillögur að nafni, frá 35 einstaklingum. Tvær uppástungur komu um nafnið Fjarbúð, frá þeim Hallgrími Helgasyni og Önnu Guðmundsdóttur. Vinningstillagan felur í sér skírskotun bæði til fjarbúðar sambúðarfólks og einnig til verbúðar.

„Fjarbúð má skilgreina sem svo að átt sé við að einstaklingar sem eru í staðfestri samvist búi ekki saman um hríð, af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna atvinnu annars þeirra sem krefst langvarandi fjarvista frá hinu án þess þó að um skilnað að borði og sæng sé að ræða. Verbúð er hins vegar dvalarstaður fiskverkafólks í takmarkaðan tíma eða íverustaður sjómanna á vertíð. Fjarbúð á því vel við um fólk sem stundar vinnu sína fjarri heimili sínum til lengri eða skemmri tíma,“ segir í fréttinni frá Akureyrarbæ.

Hér eru nánari upplýsingar um aðstöðuna sem er í boði í fjarvinnusetrinu Fjarbúð í Hrísey.

Ingólfur Sigfússon, formaður hverfisráðs Hríseyjar, og Ásrún Ýr Gestsdóttir, starfsmaður Akureyrarbæjar í Hrísey, stigu á svið og tilkynntu að fjárvinnusetrið skuli heita Fjarbúðin. Mynd af vef Akureyrarbæjar: Gestur Leó Gíslason.