Fara í efni
Mannlíf

„Finnum fyrir mjög miklu þakklæti“

Hjónin Ólöf Ásta Salmannsdóttir og Ragnar Hauksson í versluninni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsso…
Hjónin Ólöf Ásta Salmannsdóttir og Ragnar Hauksson í versluninni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Átta ár eru í dag síðan FISK Kompaní – sælkeraverzlun var opnuð í Kjarnagötu 2 á Akureyri, undir sama þaki og verslun Bónus. Þá hafði ekki verið rekin sérverslun með fisk í háa herrans tíð í bænum, en var greinilega orðið tímabært því FISK Komopaní  hefur notið mikilla vinsælda allar götur síðan.

Eigendur eru hjónin Ólöf Ásta Salmannsdóttir og Ragnar Hauksson. „Það hefur verið mikið að gera frá fyrsta degi – sem betur fer,“ sagði Ragnar þegar Akureyri.net leit við í versluninni í dag í tilefni afmælisins, og hjónin gáfu sér tíma í stutt spjall. Auk þess að selja fisk af margvíslegu tagi hafa þau verið með kjötborð í nokkur ár og selja auk þess ýmislegt annað matarkyns, ekki síst sælkeravörur, sem Ólöf kallar svo.

Mikil tryggð viðskiptavina

Fisk- og kjötborð voru í Nettó í Hrísalundi og verslun Hagkaups, þegar FISK Kompaní var sett á fót. „Við byrjuðum bara með fisk en eftir að Hrísalundur hætti með borðið var farið að tala um það við okkur hvort við vildum ekki fara í kjötið líka, og það varð úr,“ segir Ragnar. „Við fórum út í töluverðar breytingar á húsnæðinu, stækkuðum verslunina og bættum við kjötborði,“ segir Ólöf. „Nú erum við eiginlega að sprengja utan af okkur húsnæðið, einn einu sinni,“ segir hún og hlær.

Aldrei kom til greina að breyta nafni verslunarinnar, þrátt fyrir að þau hafi aukið umsvifin. „En það er gaman heyra af því að þegar fólk talar um að það vilji fá sér kjöt, að best sé að fara í Fisk Kompaní!“ segir Ragnar í léttum dúr.

Húsnæðið er þrískipt, segir Ragnar. „Það er verslunin, og á bak við erum með þurrsvæði, þar sem við gerum salat og undirbúum það sem fer fram í borð á hverjum morgni, og svo er það blautvinnslan, þar sem fiskurinn er flakaður og snyrtur.“ Ein vél er í húsinu, segir Ragnar, roðflettivélin. Annað er unnið í höndunum; fiskurinn, sem kemur ferskur í hús, er sem sagt allur handflakaður.

Ragnar sest við tölvuna laust eftir hádegi á hverjum virkum degi og kaupir hráefni á fiskmarkaði; kaupir óveiddan fisk, sem hann fær þó afhentan strax næsta dag.

Þau nefna tvennt þegar talið berst að velgengninni. „Við erum auðvitað mjög þakklát Akureyringum og nærsveitungum fyrir hvað þeir eru duglegir að koma til okkar og versla. Fólk heldur mikilli tryggð við okkur.“ Það á ekki síður við um starfsfólkið og er einmitt hitt atriðið sem þau nefna. „Við höfum verið rosalega heppin með starfsfólk, það er eiginlega lykillinn að þessu. Margir hafa verið með okkur alveg frá upphafi,“ segir Ragnar, bæði í versluninni og í flökuninni.

Einn réttur alla daga í átta ár!

Í versluninni eru jafnan til sölu ýmsar hefðbundnar tegundir sem fólk hanterar sjálft þegar heim er komið en einnig fjöldi fiskrétta á hverjum degi. Og sumt er vissulega vinsælla en annað, segja þau. Suðræn bleikja og lax í mango og chili eru góð dæmi um vinsæla rétti, en eru þó ekki í borðinu alla daga. Stundum komi þó fyrir að fólk biðji um þá rétti þótt þeir séu ekki í boði og þá eru þeir lagaðir í snatri.

Katalóníusaltfiskur skipar einstakan sess í sögu verslunarinnar. „Hann var í borðinu hjá okkur strax á fyrsta degi fyrir átta árum og hefur verið í boði á hverjum einasta degi síðan!“ segir Ólöf. Og svo verður áfram. „Honum verður aldrei breytt,“ segir hún.

Þakklæti efst í huga

„Okkur er þakklæti efst í huga. Það er eiginlega fyrsta og eina orðið sem kemur upp í hugann,“ segir Ólöf, þegar spurt er, í tilefni dagsins. Hún hefur orð á því að það sé þeim hjónum dýrmætt hve fólk sé ánægt. „Við fáum alltaf að heyra hvað fólk er ánægt, alveg sama hvort við erum hér í búðinni, á Glerártorgi, í miðbænum eða annars staðar. Fólk hrósar okkur stöðugt og segir okkur hve geggjuð búðin er. Það er ómetanlegt.“

Katalóníusaltfiskrétturinn- hann sló í gegn strax  við opnun verslunarinnar og hefur verið á boðstólum á hverjum einasta degi síðan! 

Ólöf og Ragnar: Við finnum fyrir mjög miklu þakklæti hvert sem við förum!