Fara í efni
Mannlíf

Fimm úr Óðni valin í Framtíðarhóp SSÍ

Frá vinstri: Magni Rafn Ragnarsson, Jón Ingi Einarsson, Björn Elvar Austfjörð, Alicja Julia Kempisty og Ísabella Jóhannsdóttir.

Fimm krakkar úr sundfélaginu Óðni á Akureyri hafa verið valdir í Framtíðarhóp Sundsambands Íslands. Í hópinn eru valdir efnilegir sundmenn sem fæddir eru 2009, 2010 og 2011.

Þau sem valin eru frá Óðni eru Magni Rafn Ragnarsson,  Alicja Julia Kempisty og Ísabella Jóhannsdóttir, öll fædd 2010 og hafa verið valin áður í hópinn, og Jón Ingi Einarsson og Björn Elvar Austfjörð, fæddir 2011, nýliðar í hópnum.

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, formaður Óðins er afar stolt af krökkunum. „Það er mjög flottur árangur hjá Óðni að eiga 5 iðkendur í hópnum en alls voru valdir 15 drengir samanlagt af öllu landinu í þessum þremur aldursflokkum og 18 stúlkur,“ segir hún.

Framtíðarhópurinn æfir saman í Reykjavík helgina 6. - 7. janúar næstkomandi. Markmið Sundsambandsins með æfingahelgum Framtíðarhóps er að fræða og hvetja upprennandi sundfólk, einnig til að styrkja liðsheildina. Vonast er til að slíkar æfingahelgar virki hvetjandi, auki metnað hjá sundfólki til að ná árangri og að góð vinabönd myndist óháð félögum og búsetu.