Fara í efni
Mannlíf

Fimm Norðlendingar á hundraðasta ári

Ljósmynd: Sigurgeir Haraldsson

Af þeim 43 Íslendingum sem nú eru 100 ára eða eldri eru aðeins tveir sem eiga heima á Norðurlandi, Nanna Franklínsdóttir á Siglufirði, 105 ára, og Jakobína Valdimarsdóttir á Sauðárkróki, 100 ára.

Jónas Ragnarsson segir frá þessu á Facebook síðunni Langlífi í kvöld.

Hann segi ennfremur: „Auk þess eru fimm sem eru fæddir á Norðurlandi en búa annars staðar á landinu. Elst í þeim hópi er Dóra Ólafsdóttir, 109 ára og nær hálfu ári betur, fædd á Kljáströnd við Eyjafjörð. Enginn hér á landi hefur náð hærri aldri.“

37 eru 99 ára

Á síðunni segir einnig: „Nú eru 37 á lífi sem orðnir eru 99 ára og geta náð hundrað ára aldri 2022. Af þeim eru fimm norðanlands. Margrét Franklínsdóttir á Siglufirði, systir Nönnu, á afmæli í janúar, Guðný Finnsdóttir á Skagaströnd í apríl, Marteinn Sigurólason á Akureyri í ágúst, Helga Jóhannesdóttir á Akureyri í september og Líney Bogadóttir á Siglufirði í desember.“

Skemmtilegt fólk í garðinum ...

„Norðurlandsmetið í langlífi á Halldóra Bjarnadóttir á Blönduósi, ef miðað er við þá sem hafa náð hæstum aldri á Norðurlandi, en hún lifði í 108 ár og 43 daga og dó 1981. Þá var Halldóra jafnframt næstelsti Norðurlandabúinn. Halldóra hafði mælt svo fyrir að hún vildi að útförin yrði gerð frá Akureyrarkirkju og að jarðsett yrði í kirkjugarðinum þar. Hún hafði sagt að það væri svo margt skemmtilegt fólk í garðinum og nefndi séra Matthías Jochumsson sérstaklega en þau munu hafa kynnst meðan hún var skólastjóri á Akureyri.“

Því má bæta að Dóra Ólafsdóttir, sem áður er nefnd, býr nú á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík. Dóra bjó á eigin heimili á Akureyri þar til hún náði 100 ára aldri en flutti þá á borgarhornið, þar sem hún komst inn á hjúkrunarheimili.

  • Myndin: Dóra Ólafsdóttir frá Kljáströnd við Eyjafjörð. Hún varð 109 ára síðastliðið sumar – er fædd 6. júlí 1912.