Fara í efni
Mannlíf

Ferðaáætlun FFA fyrir 2026 komin í loftið

Barna- og fjölskylduferð í fuglaskoðun hefur verið mjög vinsæl hjá FFA. Hér eru áhugasamir þátttakendur í ferðinni sl. vor að kíkja á fuglana við Kristnestjörn í Eyjafirði. Mynd: ffa.is

Ferðafélag Akureyrar hefur birt ferðaætlun sína fyrir árið 2026. Að vanda eru fjölbreyttar ferðir í boði og áhersla á barna- og fjölskylduferðir fer vaxandi. Skráning er þegar hafin í ferðirnar.

Að vanda er byrjað á gönguferð út í óvissuna á nýársdag, sem er létt gönguferð við allra hæfi. Síðan taka við alls kyns fjölbreyttar ferðir, langar sem stuttar, þægilegar eða krefjandi og allt þar á milli. Gönguferðirnar eru áberandi en einnig verður notast við skíði, reiðhjól og skip, svo eitthvað sé nefnt.

Ýmsar áhugaverðar nýjungar eru fyrirhugaðar á næsta ári. Af lengri ferðum má nefna sex daga gönguskíðaferð um Öskjuveginn í Ódáðahrauni og kvennaferð á Víknaslóðir í lok júní. Þá verður tvívegis boðið upp á siglingu í Flatey á Skjálfanda og eina ferð í Málmey en eyjaferðirnar hafa notið mikilla vinsælda. Þá eru fastir liðir eins og fuglaskoðunarferð og rafhjólaferðir á sínum stað.

Undanfarin ár hefur félagið lagt áherslu á að bjóða upp á sérstakar barna- og fjölskylduferðir og á næsta ári verða margar áhugaverðar ferðir í boði. Fuglaskoðunarferðin hefur verið afar vinsæl hjá börnum og hún verður áfram á sínum stað. Einnig verða mislangar gönguferðir í boði, auk veiðiferðar að Ljósavatni og fjöruferðar á dagskránni, svo eitthvað sé nefnt.

Skráning er hafin í flestar ferðir og hlekk á skráningarform er að finna í yfirlitinu yfir ferðir ársins.