Fara í efni
Mannlíf

Færði Þór 105 ára stílabók stofnandans

Þóra Pétursdóttir, formaður íþróttafélagsins Þórs, og Sigfús Ólafur Helgason, fyrrverandi formaður félagsins, sem afhenti stílabókina góðu fyrir hönd gefandans, Einars Malmquist. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íþróttafélagið Þór fékk mjög áhugaverðan grip að gjöf í tilefni 107 ára afmælis félagsins á dögunum; 105 ára gamla stílabók Friðriks Sigurðar Einarssonar, stofnanda og fyrsta formanns félagsins.

Stílabókina notaði Friðrik þegar hann stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík sextán ára að aldri. Hann merkir bókina svona, með sinni fallegu rithönd: Danskir stílar skrifaðir af Friðriki Einarssyni frá Akureyri í 5. bekk Mentaskólans í Reykjavík veturinn 1916 - 1917. Friðrik stofnaði Þór ásamt fleiri drengjum á Oddeyri 6. júní árið 1915.

Haldi minningunni á lofti

Það var Sigfús Ólafur Helgason, fyrrverandi formaður Þórs, sem afhenti Þóru Pétursdóttur formanni félagsins bókina góðu. „Það er bróðursonur Friðriks, Einar Malmquist sem býr hér í bæ sem kom að máli við mig um daginn og nefndi að hann ætti í sínum fórum umrædda stílabók og spurði hvort ég teldi að íþróttafélagið Þór hefði einhvern áhuga á svona löguðu,“ sagði Sigfús í ávarpi þegar hann afhenti gjöfina.

„Ég skal viðurkenna það að upp í mér kom þessi ódrepandi áhugi á sagnfræði og sögu og ekki hvað síst sögu Þórs og ég nefndi það við Einar hvort hann vildi ekki bara gefa félaginu þessa bók í afmælisgjöf. Það varð úr og bað hann mig fyrir sína hönd að afhenda félaginu hana hér í dag. Einar bað jafnframt fyrir góðar kveðjur til félagsins og sagði mér að þótt hann væri kominn á efri ár væri hugurinn til félagsins alveg jafn mikill og hlýr sem hann var strax í upphafi.

Það er von gefandans að bókin fái góðan stað í félagsheimili Þórs og haldi á lofti minningu drengsins, Friðriks Einarssonar, sem átti sér svo miklar vonir og stóra dauma um félagið sem hann stofnaði og ætlan hans var að fylgja því um langa tíð, en örlögin svo grimm sem þau geta orðið gripu inn í með þeim hætti er raun var,“ sagði Sigfús Ólafur.

Fékk berkla og lést úr lungnabólgu

Sigfús las síðan upp hluta samantektar Páls Jóhannessonar, stjórnarmanns í Þór til fjölda ára. Þar segir m.a. að Friðrik, sem fæddist aldamótaárið 1900 og þótti afburða greindur og framtakssamur ungur drengur, hugðist hefja nám í læknisfræði haustið 1918. Sumarið 1917, eftir veturinn í MR, veiktist hann hins vegar af berklum, þeim skæða sjúkdómi, og þurfti að leita sér lækninga á berklahælinu á Vífilsstöðum.

„Friðrik kom í frí frá læknismeðferð á Vífilsstöðum norður til Akureyrar frá Reykjavík með skipi í kringum 20. mars árið 1918. Miklar frosthörkur voru þennan vetur eins og kunnugt er og hlóð skipið á sig mikinn ís á leið norður. Þurftu bæði áhöfn og farþegar að taka þátt í að berja ís af skipinu, enda alltaf mikil hætta á ferðum þegar mikill ís hleðst utan á skip,“ segir í samantekt Páls. Friðrik lagði sig fram við ísbrotið þrátt fyrir að vera fjársjúkur sem sýnir vel hvað í hann var spunnið, segir Páll. Friðrik ofkældist í ferðinni og varð fárveikur.

Friðrik Sigurður fékk svæsna lungnabólgu sem varð hans bani. Hann lést tveimur eða þremur dögum eftir komuna til Akureyrar, 23. mars 1918 á átjánda aldursári.