Fara í efni
Mannlíf

Evrópuleikir KA/Þórs verða báðir á Spáni

Leikmenn KA/Þórs fagna í Kósóvó um daginn, þegar sæti í 32 liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar var í…
Leikmenn KA/Þórs fagna í Kósóvó um daginn, þegar sæti í 32 liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar var í höfn. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta drógust gegn CB Elche frá Spáni í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar, eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum. Nú er ljóst að báðar viðureignir liðanna verða á Spáni.

KA/Þór mætti Kósóvómeisturum KHF Istogu í tvígang ytra í síðustu umferð og forráðamenn liðsins vildu ólmir kaupa útileikinn í þetta skipti, að sögn Erlings Kristjánssonar, formanns kvennaráðs, þannig að báðar viðureignirnar við CB Elche yrðu á Akureyri. Spánverjarnir voru jafn áfjáðir í að báðir leikirnir færu fram í Elche og sú varð raunin á endanum.

Fyrri leikurinn verður laugardaginn 20. nóvember og sá síðari daginn eftir.

Ferðalagið verður mun einfaldara að þessu sinni en þegar Stelpurnar okkar fóru til Kósóvó. Hægt er að fljúga beint til þess vinsæla áfangastaðar Alicante á suðausturströnd Spánar, og frá flugvellinum er innan við hálftíma akstur til borgarinnar Elche.