Fara í efni
Mannlíf

Evrópukeppnin er skemmtilegt verkefni

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs.

„Þetta er spennandi verkefni fyrir okkur í félaginu. Við fengum dýrmæta reynslu í fyrra þegar við tókum þátt í Evrópukeppninni í fyrsta sinn,“ segir Andri Snær Stefánsson, þjálfari handboltaliðs KA/Þórs, sem dróst í morgun gegn Gjoche Petrov-WHC frá Skopje, höfuðborg Norður Makedóníu, í Evrópubikarkeppninni.

Ungt lið í vetur

„Við munum tefla fram ungu liði í vetur, tímabil uppbyggingar er framundan hjá KA/Þór og ungar heimastelpur munu fá stór hlutverk þar sem við höfum misst nokkra lykilmenn frá því síðasta vetur,“ segir Andri Snær við Akureyri.net.

„Evrópukeppnin er fyrst og fremst skemmtilegt verkefni þar sem við mátum okkur við öðruvísi andstæðinga en venjulega og það verður áhugavert að fara til Norður Makedóníu. Nú förum við á fullt í að skoða hvernig best er að stilla þessu upp, hvort jafnvel sé betra að spila báða leikina á útivelli eða öfugt. Það kemur í ljós á næstu dögum en allavega ljóst að þetta verður langt ferðalag!“ segir Andri.

Gulrót að taka þátt

„Það verður gaman á næstu dögum að safna sér upplýsingum um liðið en ennþá er nægur tími til stefnu,“ segir Andri. „Það styttist í að við hefjum æfingar að nýju og þetta ætti að auka tilhlökkun hjá leikmönnum og þjálfurum að byrja undirbúning fyrir tímabilið, vitandi að það er gulrót að keppa erlendis á móti hörkuliði.“

Frétt Akureyri.net um dráttinn: KA/Þór fer til Norður Makedóníu