Fara í efni
Mannlíf

Erfið reynsla var ekki til einskis

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Í dag kemur út ljóðabókin Meinvarp eftir séra Hildi Eir Bolladóttur, prest í Akureyrarkirkju. Þar fjallar hún um glímuna við krabbamein og lýsir tilfinningum sem fylgja slíkum átökum.

„Meinvarp var skrifað í seinna stríði mínu við krabbamein, sem sagt upp úr því að ég greinist með meinvarp í lifur. Bókin er ljóðabálkur þar sem ég teikna með orðum myndir af ferlinu og hugsunum og líðan á meðan það er að eiga sér stað. Inn í bálkinn blandast síðan ýmislegt úr fortíðinni og samtíðinni, það er að segja myndir úr æsku minni, eldgosinu á Fagradalsfjalli og Me too byltingunni,“ segir Hildur Eir í samtali við Akureyri.net.

Sköpunarkraftur

„Það er nú einu sinni þannig að við búum öll yfir sköpunarkrafti þó birtingarmyndir hans séu ekki þær sömu hjá okkur öllum enda væri það nú hálf leiðinlegt. Mín reynsla er að þegar maður er að upplifa sterkar tilfinningar eins og ótta, sorg, angist en líka gleði og hamingju og þakklæti þá vaknar sköpunarkrafturinn til lífsins, hann gengur raunar fyrir sterkum tilfinningum, þess vegna er ekkert skrýtið að eitthvað verði til úr jafn umbyltandi reynslu eins og að greinast með krabbamein, og það tvisvar á einu ári. Mér finnst gott að hafa skapað eitthvað úr þessari erfiðu reynslu og deila henni með öðru fólki, þannig finnst mér hún ekki hafa verið til einskis. Við höfum öll þörf fyrir að gefa þjáningunni í lífi okkar einhvers konar merkingu,“ segir Hildur Eir.

Meinvarp er þriðja bók Hildar. Áður komu út Hugrekki – saga af kvíða árið 2016 og ljóðabókin Líkn árið 2019.