Fara í efni
Mannlíf

Er Pondus fallegasti köttur á Íslandi?

Er Pondus fallegasti köttur á Íslandi?

Pondus, köttur af tegundinni birman, þótti fallegastur allra á haustsýningu Kattaræktarfélag Íslands, Kynjakatta, fyrr í mánuðinum.

„Hver tegund þarf að uppfylla ákveðna staðla,“ segir Kristín Kristjánsdóttir við Akureyri.net. Hún fékk köttinn frá Lindu Björk dóttur sinni, sem ræktar tegundina, fyrst í Noregi en er nú búsett í Svíþjóð.

Í tilfelli Pondusar skoða dómarar til að mynda höfuðlag, feld og líkamsbyggingu. „Þetta er ekki ósvipað keppni í fitness!“ segir Kristín, sem lengi var besta fittness kona landsins. Hún segir einnig skipta máli hvort köttur heilli dómarana. „Það hefur áhrif ef kettir eru pirraðir eða hvæsa; það er ekki vel séð. Kettirnir þurfa að vera geðgóðir.“

Nánast fullkominn

Kynjakettir halda alla jafna tvær sýningar á ári, vor og haust, en þetta var sú fyrsta í hartnær tvö ár. Covid setti strik í reikninginn eins og víða annars staðar. Á sýningunum er keppt í tveimur flokkum, annars vegar flokki geldinga, hins vegar ógeldra. Pondus er í fyrri flokknum.

Allir þættir sem dæmt er eftir þóttu nánast fullkomnir í tilfelli Pondusar. Fyrst er keppt í flokki þar sem líkar tegundir eru bornar saman, með birman eru til dæmis dæmdir persneskir kettir. Þar bar Pondus sigur úr býtum og í heildarkeppninni, þar sem kettir úr öllum flokkum eru bornir saman, var niðurstaðan sú sama; Pondus þótti fallegastur.

„Hann varð að skila sínu!“

„Pondus var sá eini á heimilinu sem átti eftir að keppa í einhverju. Hann varð að skila sínu!“ segir Sigurður Gestsson, eiginmaður Kristínar, líkamsræktarfrömuður á Akureyri og margfaldur Íslandsmeistari í vaxtarrækt, við Akureyri.net. Börnin hafi keppt í fótbolta og fleiri íþróttum  í gegnum tíðina – og nú hafi verið komið að Pondusi.

Kristín átti persneska ketti fyrir einum 20 árum. „Mér þótti það ægilega skemmtilegt en þó stóð ekki til að fá sér kisu aftur. En þegar Linda  byrjaði að rækta þessa tegund féll ég alveg fyrir birman. Það er æðisleg tegund og var ekki til á Íslandi. Ég gat því ekki annað en fengið mér kött! Pondus, sem er tveggja og hálfs árs, er rosalega fallegur og ofboðslega góður. Okkur þykir óskaplega vænt um hann; hann er mikill karakter og spjallar mikið við okkur, sem þessi tegund er einmitt þekkt fyrir.“

Leyla, móðir Pondusar, þykir sérlega fallegur köttur og sigrar nú í hverri keppninni á fætur annarri í Skandinavíu. Ræktandinn, Linda Björk Óðinsdóttir, dóttir Kristínar, á Leylu og þær fara innan tíðar á heimsmeistaramótið sem haldið verður á Ítalíu. Pondus á ekki langt að sækja glæsileikann.

Sesselja, dóttir Kristínar og Sigurðar, með Pondus.

Mæðgur! Kristín með Pondus, nýlega eftir að hann kom til Íslands, og Linda Björk með Leylu, móður Pondusar.

Dómari skoðar Pondus á haustsýningu Kynjakatta fyrr í mánuðinum.