Fara í efni
Mannlíf

„Er of þröngt ástin, kemstu ekki inn?“

Út er komin hjá Völuspá útgáfu bókin, Þessir Akureyringar! Úrval grínsagna um íbúa bæjarins þar sem góða veðrið var fundið upp. Útgefandi fullyrðir að þetta sé fyndnasta bók ársins. Hér eru nokkur sýnishorn:

  • „Måske senere.“ – Herra Pétur Sigurgeirsson biskup er vændiskona vék sér að honum á Strikinu í Kaupmannahöfn og bauð þjónustu sína.
  • Iðnaðarsafninu á Akureyri barst flöskumiðabók með Sana-Víking flöskumiðum. Einn miðinn var af messuvínsflösku og samkvæmt honum var innihaldið þannig saman sett að 14% voru vínandi en 86% heilagur andi.
  • „Nei, til allrar guðs lukku hef ég aldrei eignast konu eða börn, þá hefði ég ekki getað gert margt svo skemmtilegt í lífinu.“ – Arnór Karlsson (Nóri í Blómabúðinni) aðspurður í tilefni áttræðisafmælis síns hvort hann hefði aldrei gifst.
  • „Það er lán mitt í þessum veikindum að eiga hjúkrunarfræðing fyrir dóttur og ef illa fer þá er sonur minn prestur.“ – Jón Viðar Guðlaugsson.
  • Þegar Solveig Kristjánsdóttir, húsfreyja á Munkaþverá, gekk með fjórða barn sitt fékk hún miklar blæðingar. Læknir nokkur á Akureyri sagði að hún skyldi láta eyða fóstrinu því það hlyti að vera eitthvað að barninu.

Solveig kom á tilsettum tíma á sjúkrahúsið til Guðmundar Karls sem átti að sjá um fóstureyðinguna. En þegar hann fór að skoða hana sagði hann: „Nei, andskotinn, ég vil ekkert hræra í þessu. Ef það er dautt þá er það dautt, en ef það er lifandi er best að lofa því að lifa.“

Í fyllingu tímans fæddi Solveig heilbrigðan dreng sem var rúmar 20 merkur að þyngd. Hann var látinn heita Eysteinn. Þegar hann var um það bil ársgamall kom Guðmundur Karl í sjúkravitjun að Munkaþverá og sá Eystein, stóran og stæðilegan. Þá varð honum að orði: „Heldurðu að það hefði verið vit að fleygja þessu?“

  • „Auðvitað hefði ég bara átt að skrá mig strax í Skautafélagið og losna þannig við allt þetta og gæta hlutleysis.“ – Hermann Gunnarsson um ríginn á milli KA og Þórs en hann var þjálfari ÍBA árið 1970.
  • Ódi [Jón Óðinn] og kona hans, Inga, eignuðust fellihýsi sem varð þeim mikill hvati til ferðalaga. „Þar er maður í útiloftinu en á dúnmjúkum dýnum,“ lýsir Ódi og á ekki orð að lýsa hinu „dýrðlega lífi“ sem fylgir slíkum útilegum.

Gefum Óda orðið: „Mest gistum við á tjaldsvæðum. Þar er heldur meiri nánd en hentar okkur Ingu minni, okkur lætur hátt rómur svo aðrir gestir á tjaldsvæðinu neyðast til að þegja, það er engin leið að yfirgnæfa okkur.

Einu sinni vaknaði ég um miðja nótt og var þyrstur. Ég renndi smá frá og tróðst út um lítið op, fékk mér að drekka og reyndi svo að troðast aftur inn um sama opið. Inga mín vaknaði við bröltið í mér og sagði sínum sterka rómi: „Er of þröngt ástin, kemstu ekki inn?“

Það fór kurr um tjaldsvæðið.

  • Eitt sinn voru þau Lalli [Haraldur Sigurðsson] og Elsa, eiginkona hans, á leið til Reykjavíkur. Þetta var fyrir mörgum áratugum, vegvísar fáir og þau hjón ekki allt of viss um leiðina.

Þegar kemur efst í Borgarfjörð sér Lalli hvar birtist bíll með R-númeri á undan þeim en þá var sá góði siður að bílar voru merktir heimkynnum sínum. A-bílar áttu heima á Akureyri og R-bílar í Reykjavík.

Lalli ákveður því að fylgja bílnum eftir enda muni hann leiða þau hjón rakleitt í höfuðstaðinn. Gengur svo vel framan af en þá fer Lalli að merkja versnandi veg og var nú ekki á það bætandi, þjóðvegur eitt ómalbikaður, holóttur og þröngur og ekkert nema einbreiðar brýr á leiðinni.

Endar svo ökuferðin skyndilega uppi undir fjallsrót þegar R-bíllinn rennir í hlað bóndabæjar og augsýnilegt að þar endar vegurinn. Lalli á því ekki annað ráð en að snarsnúa bílnum á hlaðinu en í því hann brunar burt tautar hann fyrir munni sér: „Aldrei er nú hægt að treysta þessum Reykvíkingum.“

  • Jón Hjaltason sagnfræðingur er iðulega fenginn til að halda fyrirlestra um hin margvíslegustu málefni og tekst misjafnlega upp. Eitt sinn var hann á aðalfundi Sambands íslenskra samvinnufélaga og hafði talað sig í myljandi stuð um SÍS og KEA á Akureyri. Kom þar í ræðu sagnfræðingsins að hann gat um gjaldþrot Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Fór þá kliður um salinn.

  • Fáeinar myndir eru í bókinni. Meðal annars sú að ofan af Ragnari Ásgrímssyni, Ragga langa. Með fylgja fáeinar sögur af Ragga. Hér er ein:

Ragnar átti sannarlega bágt með sig ef hann sá sundskýlu á snúru.

Eitt sinn hafði Friðrik [Magnússon hæstaréttarlögmaður] vinur hans sett skýluna sína út til þerris og var Ragnar fljótur að láta hana hverfa. En þegar hann sá að skýlan var ekki öll heimsótti hann Friðrik og spurði höstuglega: „Hvað hefur þú gert við beltið af skýlunni þinni?“