Fara í efni
Mannlíf

Dásamlegt – frábærar aðstæður í Kjarnaskógi

Hjónin Harpa Barkardóttir og Jean-Marc Plessy ásamt syninum sem heitir Vakur Hrafn Plessy. Ljósmynd:…
Hjónin Harpa Barkardóttir og Jean-Marc Plessy ásamt syninum sem heitir Vakur Hrafn Plessy. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Frábærar aðstæður eru fyrir gönguskíðafólk þessa dagana í bæjarlandinu, enda hefur verið kalt í veðri, logn og bjart. „Þetta er upp á 10, algjörlega frábært,“ sagði Elma Eysteinsdóttir sá margfaldi blakmeistari sem gekk um Kjarnaskóg á sunnnudag ásamt vinkonum.

Ein göngukvenna var Birna Baldursdóttir, fyrrverandi landsliðskona í blaki, strandblaki og íshokkí, og var einnig í skýjunum. Reyndar ekki vön. „Ég byrjaðí í gær!“ segir hún. „Það verður að gera eitthvað á Covid tímum,“ bætti Birna við, en fólk hefur ekki mátt fara í líkamsræktarsal í töluverðan tíma sem kunnugt er.

Með þeim í för eru Guðríður Sveinsdóttir og Alma Ólafsdóttir. Þær segjast oft fara á svigskíði í Hlíðarfjalli „en við tókum gönguskíðin með trompi síðasta vetur í Covid,“ segir Guðríður og Alma bætir við að þetta sé sannarlega íþrótt fyrir alla og einmitt sé mjög gaman að því að taka börnin með. Fari þau ekki á skíði sé ekkert mál að þau gangi samhliða skíðamanninum.

„Allir sem geta ættu að prófa að fara á gönguskíði,“ botnar Elma og þær dásama aðstæður í skóginum. „Þetta er paradís,“ segir ein þeirra. „Algjörlega geggjað að vera hér, ég tala nú ekki um þegar dimmir og ljósin eru kveikt. Stórkostlegt.“

Ekki er Harpa Barkardóttir síður hrifin. „Þetta er dásamlegt. Við förum eins oft og við getum og sá litli byrjaði í fyrra. Við skiptumst á að ganga hér og í Hlíðarfjalli,“ segir hún en eiginmaðurinn Jean-Marc Plessy og sonur þeirra, Vakur Hrafn Plessy, voru ekki síður ánægðir á svip.

Hjónin Jóhann Þórhallsson og Þórhildur Björnsdóttir voru um að bil að ganga af stað ásamt tveimur barna sinna, Jóhann á skíðum, Þórhildur á tveimur jafnfljótum og dró yngsta barnið, Bergþóru, á sleða. Edda Júlíana og Þórhallur á skíðum. „Ég er nýbyrjaður,“ segir Jóhann, „er að fara í annað skipti. Ég fékk skíðin í jólagjöf, fyrirfram.“ Þórhildur segist töluvert hafa stundað þessa góðu íþrótt á árum áður en bíði spennt eftir jólagjöfinni frá Jóhanni, sem eru einmitt gönguskíði og hlakkar til: „Þetta er geggjað.“

Jóhann Þórhallsson, Þórhallur, Þórhildur Björnsdóttir, Bergþóra og Edda Júlíana. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Elma Eysteinsdóttir, Guðríður Sveinsdóttir, Alma Ólafsdóttir og Birna Baldursdóttir.