Fara í efni
Mannlíf

Engin lögsókn en samtal um Múmínlund

Skógræktarfélag Eyfirðinga vinnur að því að skapa ævintýralegt leiksvæði í Kjarnaskógi. Þetta Múmínhús er nú þegar komið upp í skóginum. Það kemur frá fyrirtæki í Finnlandi en stefnt er að því að kaupa fleiri Múmíntengd leiktæki frá fyrirtækinu. Mynd: Skógræktarfélag Eyfirðinga

Fréttir þess efnis að Skógræktarfélag Eyfirðinga eigi yfir höfði sér lögsókn vegna fyrirhugaðs „Múmínlundar“ í Kjarnaskógi hafa vakið talsverða athygli. Blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til Ingólfs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra félagsins, til þess að kanna stöðuna á málinu.

„Það er ekkert hræðilegt í gangi. Við erum bara að ræða við rétthafa um það hvort við megum kalla þetta svæði Múmínlund og munum sækja formlega um það. Ef ekki næst sátt um það þá bara breytum við nafninu á þessum lundi í Ævintýraskóg,” segir Ingólfur og er pollrólegur yfir málinu sem hann telur að sé að mestu byggt á misskilningi. Hann staðfestir jafnframt að engin lögsókn sé í gangi. Trúir hann ekki öðru en að þetta mál leysist farsællega. 

Leiktæki frá aðilum sem vinna með rétthöfunum

DV greindi fyrst frá málinu fyrir helgi og var þar sagt að rétthafar Múmínálfanna væru æfir yfir Múmínlundinum í Kjarnaskógi og að þeir myndu lögsækja Skógræktarfélag Eyfirðinga vegna Múmínlundarins.

Ingólfur útskýrir að umrætt leiksvæði hafi átt að vera tileinkað sögupersónum úr Múmíndalnum. Búið er að reisa Múmínhús sem kemur frá finnska fyrirtækinu Lappset Group Ltd. sem starfar í nánu samstarfi við fyrirtækið Moomin Characters, sem á höfundar- og vörumerkjarétt á Múmínálfunum. Múmínhúsið er það fyrsta og eina sem komið er upp í umræddum Múmínlundi en verkefnið er annars á forstigi og langt frá því að heilt Múmínland sé risið í skóginum.

Ingólfur ítrekar að tilgangurinn með nýja leiksvæðinu sé einungis að glæða skóginn lífi, til gleði fyrir börn og fullorðna. Þá ítrekar Ingólfur að allt verði gert „rétt“, þ.e. í samræmi við höfundarrétt og formlegt verklag. „Það stóð aldrei annað til en að fígúrurnar væru fengnar í gegnum framleiðandann sem vinnur með rétthöfunum.“

Gosi og fleiri sögupersónur úr barnabókum hafa prýtt Kjarnaskóg undanfarin ár, þar á meðal Snorkstelpan en hún hefur nú verið fjarlægð af tillitsemi við rétthafa. Krakkar smíðuðu þessar fígúrur.  Mynd: Skógræktarfélag Eyfirðinga. 

Snorkstelpan fjarlægð

Eina beina tengingin við Múmínheiminn fram til þessa er tréstytta af Snorkstelpunni sem verið hefur í Kjarnaskógi undanfarin ár ásamt öðrum vinsælum persónum úr sögubókum á borð við Gosa, Fíu Sól o.fl. en nemendur í Hlíðarskóla gerðu þessi verk árið 2021 undir handleiðslu kennara. „Krakkarnir máttu smíða sína uppáhalds persónu úr bókum og Snorkstelpan var ein þeirra,“ segir Ingólfur. Snorkstelpan var hins vegar fjarlægð um leið og athugasemdir bárust og verður ekki sjáanleg í skóginum á meðan verið er að yfirfara málin með rétthöfum.