Fara í efni
Mannlíf

Elton John lék á plötu Tónaútgáfunnar

Umslag plötunnar Þó líði ár og öld - Pálmi Stefánsson - Elton John. Myndin af þeim síðastnefnda er af Twitter reikningi hans.

Tónaútgáfan, sem Pálmi heitinn Stefánsson stofnaði 1967, var merkilegt fyrirtæki og gaf út margar goðsagnakenndar plötur. Ein þeirra er fyrsta plata Björgvins Halldórssonar, Þó líði ár og öld, sem kom út 1971. Önnur, sem kom út sama ár, er Lifun með Trúbrot, ein þekktasta plata Íslandssögunnar.

Upplýst var um helgina að einn tónlistarmannanna sem lék á fyrstu plötu Björgvins var Elton nokkur John; Englendingurinn Sir Elton John, sá frábæri söngvari, píanóleikari og lagasmiður! 

Þorsteinn Gretar Gunnarsson var sögumaður á tónleikum í Hofi síðasta laugardagskvöld, þar sem saga Tónaútgáfunnar var sögð í tali og tónum. Hann upplýsti áheyrendur þar um þátt Eltons á plötunni. Á þessum árum var algengt að tónlist fyrir íslenskar plötur væri tekin upp í London. Svo var í tilfelli Björgvins en söngur hans var tekinn upp í Ríkisútvarpinu í Reykjavík síðar.

Björgvin sagði Þorsteini Gretari á dögunum að ekki sé langt síðan hann hitti  eiganda hljóðversins í London þar sem tónlistin á Þó líði ár og öld var tekin upp, og Englendingurinn hafi þá sagt íslenska söngvaranum frá því að Elton John hefði verið einn tónlistarmannanna á plötunni. Þetta var um þær mundir sem Elton sló í gegn og varð heimsfrægur, en vann enn sem lausamaður í hljóðverum þegar tónlistin var tekin upp.

Pálmi Stefánsson vissi aldrei af þessari skemmtilegu staðreynd. Haukur sonur hans, sem stóð fyrir tónleikunum í Hofi á laugardag, segist fyrst hafa heyrt af þessu með Elton John á laugardag. Pálmi lést á síðasta ári.