Fara í efni
Mannlíf

Elspa – konan sem breytti lífi mínu

Í bókinni Elspa – saga konu, sem kom út á laugardaginn, rekur ævi sína Elspa Sigríður Salberg Olsen, sem ólst upp við erfiðar aðstæður á Karolínu Rest á Akureyri. Hún rekur „harmsögulega ævi sína og upprisu til nýs lífs á síðustu árum,“ eins og segir á bókarkápu. „Elspa, sem fæddist á Akureyri skömmu fyrir miðja síðustu öld, fékk bágborið veganesti út í lífið. Hún ólst upp við sára fátækt, alkóhólisma, ofbeldi og kynferðislega misnotkun og fór að mestu á mis við formlega menntun,“ segir þar.

Elspa hélt upp á 76 ára afmælið á laugardaginn, tugir manna mættu í útgáfuhóf í verslun Eymundsson, um 100 metrum frá æskuheimili hennar, og bókastaflinn sem Sögur útgáfa sendu norður seldust upp!

Margvíslegar raunir og mótlæti

Guðrún Frímannsdóttir, félagsráðgjafi, er höfundur bókarinnar en hún kom að málum Elspu og dætra hennar á sínum tíma með dramatískum hætti. Upp frá því þróaðist með þeim náinn vinskapur.

„Margvíslegar raunir og mótlæti sem Elspa hefur mætt á lífsleiðinni, eins og barnsmissir, forræðissviptingar, róstusöm hjónabönd og fátæktarbasl, hafa svo sannarlega reynt á. Erfiðustu glímuna háði hún samt við sig sjálfa, en hún þurfti að sitja af sér dóm í fangelsi auk þess að leggjast inn á geðdeild oftar en einu sinni. Styrkur Elspu og staðfesta hafa þó alltaf fleytt henni í gegnum boðaföllin,“ segir á bókarkápu.

Elspa og Guðrún árita bækur í útgáfuhófinu.

Guðrún Frímannsdóttir, höfundur bókarinnar, hélt magnaða tölu í útgáfuhófinu þar sem hún sagði frá kynnum þeirra Elspu og tilurð bókarinnar.

Frásögn Guðrúnar hófst árið 1979. Það er miðvikudagur 18. apríl og hún, rúmlega tvítugur ritari hjá Félagsmálastofnun Akureyrar, situr sem oftar við skrifborðið sitt og pikkar á ritvél upp af svokölluðum diktafóni, sem nú telst til safngripa en var mikið þarfaþing þegar þetta var, eins og hún orðaði það.

Búin að fá nóg af öllu

„Skrifstofan er á fjórðu hæð í gamla Búnaðarbankahúsinu á Akureyri sem stóð við Bankastíg. Ég sit við gluggann, sé yfir Ráðhústorgið og nágrenni, er í rauninni eins og hrafninn sem stendur efst á ljósastaur og fylgist með mannlífinu.

Austan Ráðhústorgsins er lítið hús sem fyrir löngu hefur vikið fyrir stærri byggingum, þarna var áður miðstöð langferðabíla sem óku meðal annars til höfuðborgarinnar. Nokkrar manneskjur standa við húsið auk bílanna sem þar eru. Það er tíu stiga hiti, sól og fallegt veður.

Það er nákvæmlega á þessu augnabliki sem ég sé Elspu Sigríði Salberg Olsen í fyrsta skipti og er auðvitað grunlaus um það þá að hún á eftir að gjörbreyta lífi mínu. Þarna stendur hún við einn langferðabílinn, stuttklippt með áberandi gleraugu, frekar mikil um sig, í víðri fráhnepptri kápu og pilsi sem náði niður á mið læri. Með henni voru tvær litlar stúlkur, dætur hennar þriggja og fimm ára gamlar. Elspa talar mjög hátt og reiðilega en ég greini ekki orðaskil. Athygli mín er samt fönguð og ég fylgist grannt með Elspu storma að Búnaðarbankahúsinu með fyrirgangi, hávaða og látum. Stúlkubörnin sem hún dregur á eftir sér eiga fullt í fangi með að halda í við hana. Hávaðinn eykst þegar Elspa og dætur hennar koma inn í Búnaðarbankahúsið. Ég verð óttaslegin þegar ég átta mig á að þær eru á leið upp á fjórðu hæð til mín. Þær mæðgur fikra sig upp stigana og smám saman heyri ég það sem fram fer og satt að segja er orðaflaumur Elspu ekki birtingarhæfur.“

Guðrún rifjaði upp að farsíminn var ekki kominn til sögunnar á þessum árum „og mér því engin leið að hringja í yfirmann minn og biðja hann um aðstoð strax. Nei, ég verð sjálf að taka til minna ráða. Eftir nokkra stund er hurðinni hrundið upp. Elspa snarar sér mikilúðleg í fasi inn á gólfið með dæturnar tvær. Hún sleppir höndunum af stúlkunum, ýtir þeim frá sér og snýr sér hranalega að mér með þeim háværu skilaboðum að hún sé farin til Reykjavíkur. Segir að ég geti hirt þessar stelpur, hún sé búin að fá nóg af þeim eins og öllu öðru.“

Hvernig stendur á þessu?

„Með hurðaskellum rýkur Elspa út úr herberginu og stormar niður stigana, yfir götuna og að langferðabílnum, sem ekur með hana á brott til höfuðborgarinnar. Eftir sit ég með tvö barnung stúlkubörn sem ég hef aldrei séð áður. Þær eru hljóðar, haldast í hendur og horfa á mig stórum óttaslegnum augum. Systurnar skilja ekki hvað er að gerast, skilja ekki af hverju mamma þeirra er svona reið og af hverju hún skilur þær eftir aleinar og umkomulausar hjá ókunnugri konu. Sjálf skil ég heldur hvorki upp né niður í þessari uppákomu, en ég reyni að hlúa að börnunum eftir bestu getu. Á meðan ég sinni þeim fer hugur minn á flug og ég spyr sjálfa mig spurninga sem ég veit að ég fæ engin svör við hér og nú, en ég veit líka að ég mun finna svörin þótt síðar verði:

Hvernig stóð á því að Elspu leið svona hræðilega illa og kom fram við börnin sín á þennan hátt?

Af hverju var hún svona reið?

Hafði einhver gert henni eitthvað?

Hvers konar fyrirmyndir átti hún í sínum eigin foreldrum?

Hvers konar ævi hafði hún átt sjálf?

Á hvern hátt væri hægt að koma henni til hjálpar?

Hvað beið stúlknanna?

Var þetta í fyrsta skipti sem þær upplifðu slíka höfnun frá móður sinni?“

Guðrún Frímannsdóttir og Elspa í útgáfuhófinu á laugardaginn.

Djúp og varanleg áhrif

„Það er ekki ofaukið orði þótt ég segi að þessi atburður hafi haft djúp og varanleg áhrif á mig,“ sagði Guðrún. „Hann markaði í rauninni lífsbraut mína og framtíð. Þarna skapaðist hjá mér þörf fyrir dýpri þekkingu á mannlegu eðli, löngun til þess að læra um þann félagslega vanda sem gjarnan berst á milli kynslóða. Og síðast en ekki síst hvernig megi koma fólki eins og Elspu og börnum hennar til hjálpar.“

Elspa hvarf ekki úr huga Guðrúnar Frímannsdóttir. „Rúmum þrjátíu árum eftir að hún henti stúlkubörnunum tveimur inn fyrir dyrnar hjá Félagsmálastofnun Akureyrar gerði ég klukkutíma langan útvarpsþátt um lífshlaup hennar. Við gerð þáttarins rifjaði ég upp þetta tiltekna atvik með Elspu. Hún sagði að minningin væri sér of erfið og því hefði hún grafið hana djúpt niður og geymt þar ásamt ýmsu öðru sem á daga hennar hefði drifið. Sumt væri einfaldlega of sárt að muna. Mótlæti, ofbeldi, sjálfsvígstilraunir, barnsmissir, svik, einelti og stöðug fátækt hafa verið fylginautar Elspu á lífsleiðinni. Félagslegur arfur fyrri kynslóða birtist henni strax í frumbernsku og hefur sett svip á og mótað allt hennar líf.“

Margvíslegar heimildir

Nú eru liðin tólf ár frá gerð þessa útvarpsþáttar og rúm fjörutíu ár frá þeim tíma er Guðrún og Elspa hittust fyrst. „Einhvern veginn finnst mér ekki nema rétt að ég ljúki starfsævi minni sem félagsráðgjafi og skrifi, í orðastað Elspu sjálfrar, um lífshlaup stórmerkrar konu sem hefur haft jafn mikil og mótandi áhrif á líf margra samferðamanna sinna, þar á meðal á mig,“ sagði Guðrún.

„Við gerð bókarinnar hafa ýmsar heimildir reynst hið mesta þarfaþing. Elspa fékk til dæmis afrit af gögnum frá félagsmála- og barnaverndaryfirvöldum Akureyrar, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Héraðsdómi Norðurlands. Skrif Elspu sjálfrar um líf sitt og stöðu frá því er hún sat í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Akureyri eru einnig mikilvæg og mögnuð heimild. Þetta eru þrjátíu og átta þéttskrifaðar blaðsíður sem Elspa handskrifaði á þremur dögum. Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir á Akureyri, hvatti hana til þessara skrifa, en honum var falið að gera á Elspu geðrannsókn eftir tilraun hennar til manndráps. Í skrifum Elspu eru áhrifaríkar lýsingar á lífi hennar þar sem hvergi er að finna stóran staf, punkt, kommu eða greinaskil. En án allra greinarmerkja lifna þær engu að síður við. Samantektina fékk Brynjólfur í hendur með loforði um að farga henni að lestri loknum. Sem betur fer varðveitti Brynjólfur skrifin. Auk þessara heimilda komu Saga Akureyrar og Hernámsárin á Akureyri eftir Jón Hjaltason að góðum notum. Sömu sögu er að segja um gamlar kirkjubækur á Akureyri og Bíldudal, skjöl í vörslu Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, gömul dagblöð og Íslendingabók.“

Gefandi en sársaukafullt

Guðrún segir það hafa verið sér lærdómsríkt, gefandi og á sama tíma sársaukafullt að hlusta á Elspu rekja sögu sína. „Minni hennar er gott og höfum við margsinnis fengið það staðfest þegar frásögn hennar er borin saman við þau opinberu gögn sem stuðst hefur verið við.“

Hún segir heiðarleika og ósérhlífni Elspu í eigin garð hafa verið aðdáunarverða. „Hún hefði auðveldlega getað fegrað sjálfa sig með því að segja ekki frá ýmsu sem á daga hennar hefur drifið. Eins hefði hún getað óskað eftir því að eitt og annað færi ekki á prent. Frásagnir hennar hafa hvað eftir annað kallað fram erfiðar minningar sem hún hefur grafið djúpt og reynt að gleyma. Þegar það gerðist gaf hún sér góðan tíma, upplifði sársaukann og talaði um líðan sína áður en hún hélt óhikað áfram.“

Guðrún segir að við gerð bókarinnar hafi komið fram skýringar og svör við vangaveltum hennar, sem fyrir rúmum fjörutíu árum upplifði hranalega framkomu Elspu við tvær barnungar dætur sínar.

„Saga Elspu gefur glögga mynd af því að hún átti ekki fyrirmyndir sem gáfu henni tilefni til að koma fram við dætur sínar á annan hátt en hún gerði. Elspa fór á mis við það í eigin uppvexti að eiga kærleiksríka foreldra sem mynduðu við hana heilbrigð tengsl, veittu henni öryggi og jákvæða athygli. Hvers kyns ofbeldi var hluti af hennar lífi allt frá fæðingu og fram á fullorðinsaldur. Hún var rænd skólagöngu sinni og barnung var hún látin kljást við hluti innan heimilisins sem voru henni ofviða. Hún þekkti ekki til jákvæðra samskipta milli foreldra og barna,“ sagði Guðrún.

Hörð og vægðarlaus barátta

„Barátta Elspu fyrir eigin tilveru var hörð og vægðarlaus þar sem hún lærði fljótt hegðun sem gerði henni kleift að lifa af. Líf hennar fór því í myrkan farveg strax við fæðingu og átti síðar eftir að móta hana sem barn, ungling, fullorðna konu, móður, eiginkonu og nú sem fullorðna konu sem segir sögu sína af æðruleysi og heiðarleika.

Elspa lét tilleiðast að segja sögu sína sem ég skrái hér. Hún hefur orðið í fyrstu persónu og ég trufla ekki framvinduna. Hún stiklar á stóru um lífshlaup sitt, henni er ekkert um smáatriðalýsingar gefið, og dregur ekkert undan. Við lestur bókarinnar vonast ég til að við, Íslendingar nútímans, kynnumst rótum okkar betur og færumst skrefi nær lífssögu sem vonandi heyrir fortíðinni til, eða ætti að minnsta kosti að gera það,“ sagði Guðrún Frímannsdóttir.