Einn til þrír kaldir í bjórhlaupi Kalda

Bjórhlaup Bruggsmiðjunnar Kalda verður haldið í þriðja sinn föstudaginn 11. júlí. „Þetta er ekki keppni og engin tímataka. Fólk má labba þetta með hundinn sinn ef það vill,“ segir Ester Líf Ólafsdóttir, starfsmaður Kalda, og bætir við að það kosti ekkert að taka þátt í hlaupinu en gott sé þó að skrá sig í gegnum Facebooksíðu Kalda. „Við viljum bara skapa góða stemningu og bjóða upp á eitthvað skemmtilegt fyrir samfélagið.“
Góð stemming var í hlaupinu í fyrra en þá tóku um 130-40 manns þátt. Mynd: Bruggsmiðjan Kaldi
Vinsæll viðburður
Fyrsta Kaldahlaupið var haldið árið 2017. Viðburðurinn lá síðan í dvala í nokkur ár en var endurvakinn í fyrra við gríðargóðar undirtektir. „Við fengum frábær viðbrögð í fyrra, um 130–140 manns mættu og tóku þátt. Það var svakalega góð stemning og mjög gott veður. Því ákváðum við að endurtaka leikinn,“ segir Ester Líf.
Viðburðurinn, sem hefst kl. 17.30, fer fram í nágrenni brugghúss Kalda á Árskógssandi og geta allir tekið þátt, óháð hlaupaformi og aldri. Hægt er að velja um tvær vegalengdir, 2 eða 4 kílómetra, og verða þrjár drykkjarstöðvar á leiðinni þar sem þátttakendur (eldri en 20 ára) fá bjór í dós. Þeir geta síðan sjálfir ráðið hvort þeir taki dósina með sér eða skelli innihaldinu í sig á drykkjarstöðinni.
Það verður stuð á Árskógssandi á föstudaginn þegar Bruggsmiðjan Kaldi heldur þar bjórhlaup. Myndin er frá hlaupinu í fyrra. Mynd: Bruggsmiðjan Kaldi
Happdrætti og hamborgarar
Að loknu hlaupi verður boðið upp á hamborgara og bjór til sölu. Þá verður einnig dregið í happdrætti en hlaupanúmerin gilda jafnframt sem happdrættismiðar. Veðurspáin er ágæt og skipuleggjendur vonast til að hlaupið marki upphaf góðrar helgar, en eins og í fyrra má gera ráð fyrir að margir nýti tækifærið og haldi síðan áfram út í Hrísey þar sem Hríseyjarhátíðin fer fram um helgina.