Fara í efni
Mannlíf

Einar við Mývatn, álag á liði ræður ferð

Samsett mynd. Sjálfsmynd á fjöllum, ekki um annað að ræða þegar þú gengur einn um öræfin, og varða sem minnir á að vörður gegndu mikilvægu hlutverki í starfi landpóstanna. Myndirnar tók Einar Skúlason.

Einar Skúlason, bréfburðarbrjálæðingur ef svo mætti segja, er á göngu meðfram Mývatni í dag, farinn að finna fyrir álaginu á hnjáliði og fleiri líkamshluta, en er væntanlegur til Akureyrar síðdegis eða að kvöldi fimmtudags. 

Einar hóf gönguna austur á Seyðisfirði þann 4. desember, klyfjaður bakpoka með jólakortum og jólakveðjum til fólks og fyrirtækja á Akureyri. Gönguna fer hann til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. 


Gengin spor. Mynd: Einar Skúlason.

Þegar tíðindamaður Akureyri.net sló á þráðinn heyrðist marrið á frostkaldri gönguleiðinni við hvert fótspor vel í gegnum símann enda hefur Einar gengið í miklum kulda, en almennt þokkalegu veðri þó nú séu blikur á lofti og hann gæti lenti í umhleypingum á lokakaflanum. Einar var þá á göngu meðfram Mývatni, væntanlega að njóta náttúrufegurðarinnar eins og raunar alla leiðina. Um það bera margar af myndum hans á Facebook-síðu póstgöngunnar glöggt vitni.


Einar hefur fengið góðar móttökur þar sem hann hefur komið við á leið sinni og fengið gistingu þar sem því hefur verið við komið, en stundum er ekki um annað að ræða en að tjalda. Mynd: Einar Skúlason.

Spurður um komutíma til Akureyrar sagði hann líklegast að hann næði á áfangastað hér á fimmtudagskvöld eða síðdegis á fimmtudag, en hann ætti eftir að meta stöðuna því gangan er farin að taka dálítið á, sérstaklega hnjáliði og aðra liði því hann er með yfir 20 kílóa bakpoka sem skapað hefur langvarandi álag þar sem hann hefur tekið langar dagleiðir á hverjum degi, lengst um 35 kílómetra en styst um 14 kílómetra.


Staðan í dag þegar fréttin var unnin. Skjáskot af garmin.com.

Einar fer hina gömlu Þingmannaleið yfir Vaðlaheiðina þar sem hann fer upp hjá Systragili, skammt frá gangamunna Vaðlaheiðarganganna. Hann mun síðan meta stöðuna og hefur gamla Vaðlaheiðarveginn til vara ef á þarf að halda.

Stefnt er að því að Einar fái félagsskap síðasta spölinn, að fólk mæti honum á ákveðnum tíma úti á Leiruvegi og verði samferða honum í bæinn. Spurður um áfangastað á Akureyri kvaðst Einar ekki alveg viss, það hafi ekki verið rætt nákvæmlega, en spurði svo hvort jólatréð á Ráðhústorginu væri ekki kjörinn endastöð. Pósthúsið er ekki lengur starfandi í miðbænum og skrifstofa Krabbameinsfélagsins er í Glerárgötu, en væntanlega fáum við nákvæmari fréttir af komutíma og áfangastað þegar Einar nálgast Akureyri.


Klyfjaður 24ra kílóa þungum bakpoka hefur Einar gengið alla leið frá Seyðisfirði, yfir fjöll og firnindi og það er farið að taka á. Mynd: Einar Skúlason.

Enn er mögulegt að styrkja verkefnið með frjálsum framlögum og fá kveðju á vefinn líka. Söfnuni  stendur í 661.500 krónum núna, samkvæmt upplýsingum frá KAON.

Hægt er að senda hvatningar- og jólakveðju sem birtist á þessari síðu. Frjáls framlög eru með slíkum kveðjum.

Greiðslur fara þannig fram að millifært er á eftirfarandi reikning í eigu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis:

Reikningur: 0302 - 13 - 301557

Kennitala: 520281-0109

  • Eftir að hafa greitt er fólk beðið að senda tölvupóst á kaon@krabb.is.

Þessa mynd birti Einar á Facebook-síðunni með smá fróðleik. Mynd: Einar Skúlason

„Fjalla-Bensi dó á Akureyri eftir að hafa flust þangað á efri árum. Hann var svo jarðaður í sinni kæru Mývatnssveit í kirkjugarðinum við Reykjahlíðarkirkju.

Ég þakkaði honum í nokkrum orðum fyrir dugnað og að hafa bjargað svona mörgum kindum á þessum ca. þrjátíu árum sem hann fór í eftirleitir á aðventunni. Svo þakkaði ég honum líka fyrir að hafa haft svona góð og inspirerandi áhrif á Gunnar Gunnarsson rithöfund og okkur hin æ síðan.“


Drottningin varð að sjálfsögðu á vegi Einars. Mynd: Einar Skúlason.