Fara í efni
Mannlíf

Natan Dagur: „Ég vil verða heimsfrægur“

Natan Dagur Benediktsson á sviðinu í Osló í norsku The Voice keppninni. Ljósmynd: The Voice.

Natan Dagur Benediktsson söng í fyrsta skipti opinberlega í september og réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur; steig á svið í norsku útgáfu sjónvarpssöngkeppninnar The Voice og sló rækilega í gegn. Flutti lagið Bruises með Lewis Capaldi svo vel að dómararnir fjórir voru nánast agndofa.

Norsku þjóðinni stóð til boða að horfa og hlýða á sönginn á föstudagskvöldi fyrir rúmri viku, þegar fyrsti þátturinn var sendur út.

Fyrir þá sem ekki þekkja The Voice ber að geta þess að í fyrstu umferð fer fram svokölluð blindprufa; dómararnir fjórir snúa baki í söngvarann þegar hann stígur á svið og snúa sér ekki við nema þeim lítist vel á flutninginn, og hafi áhuga á að þjálfa viðkomandi í keppninni.

Fjölmargir áhorfendur í salnum fögnuðu Natani gríðarlega og ekki var nóg með að dómararnir fjórir hafi allir snúið sér við heldur stóðu þeir upp og klöppuðu og einn var svo klökkur að hann mátti vart mæla!

Mundi ekki neitt!

„Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem ég söng fyrir framan áhorfendur. Tilfinningin var mjög óraunveruleg, og þegar ég kom af sviðinu mundi ég eiginlega ekkert eftir því sem gerðist,“ segir Natan í samtali við Akureyri.net. „Ég mundi eftir því að ég gekk á svið og stóð fyrir framan míkrafóninn – en eftir það náði ég að einbeita mér svo rosalega, að ekkert annað en flutningurinn komst að. Ég hvarf hreinlega inn í augnablikið. Ég náði þar af leiðandi litlu sem engu af því sem dómararnir sögðu; heyrði í rauninni ekki viðbrögð þeirra fyrr en ég horfði á þáttinn á föstudaginn – en hann var tekinn upp í september!“ segir hann.

„Ég man þó vel að ég þornaði í munninum og að hægra hnéð á mér skalf!“ bætir Natan við og hlær. „En það var ekki fyrr en ég horfði á þáttinn að ég fékk að heyra það sem einn dómarinn sagði eftir að ég fór af sviðinu: A Star is born!“

Natan var í skýjunum yfir viðtökunum eins og nærri má geta og ekki síður faðir hans, Benedikt Viggósson, og frændi hans sem var með í för. „Þetta var einstök tilfinning,“ segir söngvarinn, „tilfinning sem ekki fæst keypt, stórkostlegt augnablik sem maður upplifir sjaldan.“

Talar norsku eins og innfæddur

Athygli vakti að Natan, sem er 21 árs, talaði norsku eins og innfæddur. „Ég bjó hér í fjögur ár þegar ég var lítill og hef komið til Noregs árlega síðan; mamma hefur búið hér síðan við fluttum fyrst út, og ég á hér tvo bræður og eina systur.“

Fjölskyldan settist að á Akureyri þegar Natan var fjögurra ára. „Ég var á [leikskólanum] Kiðagili og í 1. og 2. bekk í Giljaskóla þangað til við fluttum til Noregs. Ég kláraði 6. bekkinn þar áður en við pabbi fluttum heim á ný og ég fór aftur í Giljaskóla í 7. bekk.“

Eftir grunnskóla byrjaði Natan í MA en var þar aðeins eina önn. „Þá flutti ég til Ítalíu; mig langaði að fá tíma fyrir sjálfan mig til að þroskast. Var í ítölskuskóla í nokkra mánuði, var hálft ár í Flórens og aðra sex í Rivoltella við Gardavatnið. Pabbi flutti út til mín og var í nokkra mánuði, og þegar við fluttum aftur heim settist ég að í Garðabænum, þangað sem hann hafði flutt frá Akureyri á meðan ég var úti.“

Dómararnir mjög þekktir tónlistarmenn

Benedikt, faðir Natans, segir þá sem taka þátt í blindprufunum vona að einhver einn dómaranna snúi sér við, „en að allir skuli hafa snúið sér við var frábært, ég tala nú ekki um að þau hafi öll staðið upp og klappað!“

Dómararnir, sem taka svo að sér að þjálfa þá söngvara sem komast áfram, eru allir þekktir í tónlistarbransanum.

  • Tom Stræte Lagergren – sem notar listamannsnafnið Matoma – er heimsþekktur upptökustjóri. Hann var klökkur af hrifningu og kom varla upp orði!
  • Ina Wroldsen er söngkona og lagahöfundur sem hefur samið smelli fyrir Shakira, Britney Spears, One Direction og David Guetta, svo einhverjir listamenn séu nefndir. Natan valdi Inu úr hópi þjálfaranna til að vinna með.
  • Espen Lind er söngvari, lagahöfundur og upptökustjóri sem bæði flytur eigin tónlist og er vinsæll sem slíkur, en hefur að auki samið lög sem Lionel Richie, Beyoncé, Jennifer Hudson og fleiri hafa gert vinsæl.
  • Yosef Wolde-Mariam er þekktur rappari. Lög dúetts hans og Tshawe Baqwa hafa verið spiluð meira en 100 milljón sinnum á youtube.

Langaði, en þorði ekki

Natan segist lengi hafa langað til að skrá sig í keppni eins og The Voice en aldrei þorað að taka skrefið. „Bróðir minn skráði mig svo í keppnina hér í Noregi án þess að ég vissi. Þegar hringt var í mig hélt ég fyrst að hann væri í símanum að fíflast í mér svo ég fíflaðist bara á móti, en þegar ég áttaði mig á því um hvað málið snérist ákvað ég bara að kýla á þetta.“

Hann undirbjó sig með því að fá leiðsögn hjá Bryndísi Ásmundsdóttur söngkonu. „Við völdum nokkur lög og ég fékk að standa á sviði til að fá tilfinninguna fyrir því. Svo fór ég bara út!“

Natan söng ekki fyrir neina áhorfendur á æfingunum hjá Bryndísi en salurinn þegar The Voice þættirnar voru teknir upp var fullur af fólki. Það var fyrir Covid bann í Noregi.

Feðgarnir fóru utan í september og eru nú búsettir tímabundið í Noregi. Búið er að taka upp alla þætti sem sýndir verða áður en beinar útsendingar hefjast í apríl. Þeir eru þó bundnir þagnareiði; mega ekki segja neitt annað en Natan sé kominn áfram í næstu umferð, eins og allir vita. Hann verður næst á skjánum eftir tæpa tvo mánuði og þá kemur í ljós hvort hann heldur áfram keppni eða dettur út. Á endanum stendur einn söngvari uppi sem sigurvegari.

Þegar spurt er um framtíðardrauma er Natan snöggur til svars: „Það er draumur minn að búa til mína eigin tónlist, út frá eigin hugsunum, upplifunum og tilfinningum. Mig langar til þess að nafnið mitt verði þekkt um allan heim – ég vil verða heimsfrægur.“

Sjáðu og heyrðu Natan syngja í Voice