Fara í efni
Mannlíf

„Ég bara skildi skákina mjög fljótt“

Markús Orri Óskarsson, skákmeistari Akureyrar 2023, á heimsmeistaramóti ungmenna á Ítalíu síðastliðið haust.

Markús Orri Óskarsson varð á dögunum sá yngsti sem orðið hefur Skákmeistari Akureyrar í 87 ára sögu Skákfélags Akureyrar. Markús Orri er fæddur 2009, varð 15 ára fyrir nokkrum dögum og hefur stundað skákina í um sex ár. Áður en að skákþinginu kom hafði hann verið hástökkvari á FIDE-listanum yfir ELO-stig, hækkaði um 130 stig frá desember fram í janúar, en nýr listi er gefinn út mánaðarlega.

Feðgarnir Markús Orri og Óskar Jensson gáfu sér tíma í spjall við útsendara Akureyri.net. Óskar er í stjórn Skákfélagsins og fylgdi syninum meðal annars á Heimsmeistaramót ungmenna sem fram fór á Ítalíu í nóvember í fyrra.

Skákkennslan í skólanum kveikti neistann

Markús Orri var níu ára gamall þegar hann byrjaði að mæta í skákkennslu í Síðuskóla. Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar, fór í skólana og kenndi byrjendum að tefla. „Síðan var ég líka bara heima að tefla við pabba þegar ég var nýbyrjaður,“ segir Markús Orri þegar þegar við höfum komið okkur vel fyrir í stofusófanum heima hjá honum. Sigurður Arnarson, kennari í Síðuskóla, á líka dálítið í honum. 

Óskar tefldi sjálfur áður, en kveðst ekki hafa roð við stráknum í dag, vinna kannski eina af hverjum 20 skákum. Eitthvað af skákmönnum eru í báðum ættum, afi í móðurætt og langafi í föðurætt. „En hann á nú heiðurinn af þessu mest sjálfur,“ segir Óskar.


Feðgar að tafli. Óskar Jensson og Markús Orri Óskarsson. Óskar segist vinna kannski eina af hverjum 20 skákum gegn syninum núorðið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Það stendur ekki á svörum síðar í samtalinu þegar Markús Orri er spurður um framtíðina. Hann vill verða stórmeistari og Íslandsmeistari. Skákin virðist líka henta honum vel. „Ég bara skildi hana mjög fljótt og þess vegna ákvað ég að halda áfram og byrjaði að bæta mig,“ segir Markús Orri um upphafið á skákferlinum og kennslu Áskels Arnar. Pabbi hans bætir við að hann hafi verið afburða pússlari þegar hann var barn og Markúsi Orra gengur vel í náminu þannig að það liggur vel fyrir honum að nota höfuðið, ef svo má segja.

Markús Orri fór á fullt í skákinni fyrsta árið, en var líka að æfa fótbolta og seinna körfubolta einnig. Hann var í marki í fótboltanum og okkur skilst að það hafi verið söknuður hjá liðsfélögunum þegar hann ákvað að hætta. Eldri bróðir hans, Bjarmi Fannar, spilar fótbolta með liði Dalvíkur.

Ákvað að einbeita sér að skákinni

„Fyrir tveimur til þremur árum tók ég smá pásu frá skákinni, var kannski að mæta á nokkrar æfingar á mánuði. Þá var ég bæði í fótboltanum og körfuboltanum og var með meiri fókus á það. En kannski svona í byrjun síðasta árs þá byrjaði að fókusa meira á skákina,“ segir Markús Orri þegar hann er spurður um þessar þrjár greinar og forgangsröðina. Núna á skákin hug hans allan og hann stefnir hátt.

Skákin getur reynt á taugarnar, sérstaklega þegar maður er ungur og á í höggi við fullorðna skákmenn með reynslu og mögulega fleiri stig en maður sjálfur. Óskar bendir þó á, eins og stundum er sagt: „ELO-stigin tefla ekki.“

Mynd: Haraldur Ingólfsson

Skákmenn, eins og annað keppnisfólk, taka ósigrum á mismunandi hátt. Sumum gengur verr að sætta sig við ósigra en öðrum, eins og gengur. „Þetta er mikil sjálfsskoðun,“ segir Óskar þegar talið berst að því hvernig Markúsi Orra hefur gengið að taka því þegar hann tapar skák. „Ég man eftir því á fyrstu mótunum þegar ég var að sækja hann og reyna að hughreysta hann ef hann kom út eitthvað boginn eftir mótið. Það er náttúrlega erfitt að tapa. Ég var að reyna að segja honum að þetta væri engum að kenna. Hann horfði á mig: „Pabbi, jú, mér!“,“ segir Óskar um þessa hlið íþróttarinnar.

Markús Orri virðist ekki hafa miklar áhyggjur af eigin stressi eða styrk andstæðinganna, tekur þessu öllu með jafnaðargeði þó stundum geti verið erfitt að tapa „Þegar ég var um tíu ára byrjaði ég að mæta á mót með fullorðnum og þá var ég að tapa næstum því hverri skák. Síðan venst maður því og byrjar að vinna nokkra og svo bætir maður sig á móti þeim.“

Einkaþjálfun og netnám

Skákin getur stundum verið einmanalegt sport, mikill tími fer í að stúdera og rannsaka skákir og skákbyrjanir, gömul og ný afbrigði og þar fram eftir götunum. Markús Orri mætir reyndar ekki mikið á skákæfingar enda eru almennar æfingar barna ekki mikil áskorun fyrir hann eftir að hann náði ákveðnum styrkleika í skákinni. Hann hefur hins vegar verið í einkatímum hjá Símoni Þórhallssyni hjá Skákfélaginu og er kominn inn í afreksþjálfun sem Vignir Vatnar, nýjasti stórmeistari Íslendinga, heldur utan um. Nám og þjálfun í skákinni fer líka mjög mikið fram á netinu nú til dags. Segja má að skákskóli Markúsar Orra sé vefurinn chessable.com.


Markús Orri að tafli á þekktum samkomustað skákmanna í París, Lúxemborgargarðinum - Jardin du Luxembourg. Mynd: Óskar Jensson.
 

Skákmenn láta tækifæri til að tefla sjaldnast framhjá sér fara þegar þeir eru á annað borð byrjaðir að helga sig skákinni. Þeir feðgar segja frá skemmtilegu dæmi um slíkt þegar kom að því að Markús Orri tæki ákvörðun um hvernig hann vildi nýta fermingargjöfina frá foreldrunum, sem var utanlandsferð. Hann var alveg ákveðinn í því hvert hann vildi fara. París var áfangastaðurinn af því að hann langaði til að heimsækja þekktan samkomustað skákmanna í borginni, Jardin du Luxembourg. Þar iðar allt af skáklífi dagana langa og þar undi Markús Orri sér í nokkra klukkutíma að tafli við hina og þessa á meðan foreldrarnir máttu gjöra svo vel að bíða á meðan Markús tefldi.

Spurður um skákstíl kveðst Markús Orri ekki tefla alveg „solid“, en ekki heldur „aggressíft“, ef það segir skákáhugafólki eitthvað. Hann á sér nokkra uppáhaldsskákmenn. „Já, það eru nokkrir. Carlsen, hann er bestur í heiminum. Svo er einn Rússi sem heitir Daniil Dupov, mjög skemmtilegur skákmaður, og svo nokkrir Íslendingar eins og Vignir Vatnar, Jói Hjartar og fleiri.“

Þótt ungur sé skoðar Markús Orri líka skákir gamalla meistara og þarf ekki að koma á óvart hvaða meistarar verða fyrir valinu. „Ég skoða mikið af skákum frá Bobby Fischer. Mér finnst alltaf gaman að skoða skákirnar hans og svo líka frá Friðriki Ólafssyni.“

Viðurkenning og hvatning að vera valinn

Markús Orri tók þátt í Heimsmeistaramóti ungmenna síðla árs 2023 ásamt þremur drengjum að sunnan og vill svo skemmtilega til að nöfn allra byrja á M; Matthías, Mikael, Markús og Markús.

„Það var mikil viðurkenning og hvatning að vera valinn í þann hóp,“ segir Óskar um þátttöku sonarins í HM. Hann segir líka gott fyrir Markús Orra að kynnast álíka sterkum skákmönnum á svipuðu reki fyrir sunnan því það séu fáir af svipuðum styrkleika og hann hér fyrir norðan. „Það var gott upp á að kynnast þeim svolítið og búa til gott samband. Í dag er þéttara og betra samband á milli þeirra því þeir hittast eiginlega alltaf á þessum sterkari mótum.“

Auk hefðbundinna móta hér heima eins og Deildakeppni Skáksambandsins er stefnan sett á Reykjavík Open þar sem verða um 400 þátttakendur og margir sterkir skákmenn og svo Evrópumót ungmenna sem haldið verður í Prag í ágúst.

Skákævintýri á Ítalíu

Markús Orri segir að stærð Heimsmeistaramóts ungmenna hafi ekki vaxið honum í augum. „Fyrstu tvær skákirnar var ég ekkert stressaður. Báðir andstæðingarnir voru miklu stigahærri en ég og ég hafði varla nokkru að tapa. Síðan var ég búinn að venjast þessu og náði einhverjum sigrum og jafnteflum. Ég var bara að tefla þetta eins og þetta væri hver önnur skák.“


„Snertur maður hreyfður,“ stendur örugglega einhvers staðar í skákreglunum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Markús Orri segist oft hafa séð skákmenn hlaupa út, jafnvel grátandi, eftir tapskák, en honum virðist ganga nokkuð vel að takast á við mótlæti þegar hann lendir í því. „Ég veit oft beint eftir skákina hvaða leikur það var sem varð til þess að ég tapaði. Svo tekur það mig kannski hálftíma eða klukkutíma að jafna mig,“ segir hann. Óskar bendir líka á að þegar komið er á stór mót sé ekki mikill tími til að svekkja sig á einhverri einni skák því það þurfi strax að setja athyglina á næstu skák. „Hann hefur gert það mjög vel, að taka sér bara tíma í að vera fúll í einhvern tíma, en svo bara áfram gakk!“

Morgungöngur á austurströnd Ítalíu

Feðgarnir nutu þess báðir að dvelja í Montesilvano, litlum strandbæ skammt norður af Pescara á austurströnd Ítalíu, í um tvær vikur þegar Markús Orri tók þátt í Heimsmeistaramóti ungmenna í fyrra.

„Mér fannst þetta rosalegt ævintýri,“ segir Óskar. Hann segir gaman að hafa fengið að taka þátt í þessu með syninum, að vísu svolítið langt, tveggja vikna mót og tefld ein skák á dag. „Umgjörðin þarna var frábær, ítalskur strandbær og keppendur út um allt. Þetta var góður hópur og haldið vel á spilunum bæði hjá mótshöldurum og hjá Skáksambandinu, með flotta þjálfara, Björn Ívar Karlsson og Gauta Pál Jónsson.“

Það tekur á að tefla langar skákir á hverjum degi og mikilvægt að halda góðri rútínu og ekki síður að huga að heilsunni, mataræði og hreyfingu. „Maður sá líka að það fór mjög mikil orka í þetta hjá krökkunum, rosalega fókuseruð öll. Ég hefði aldrei getað þetta á þessum aldri,“ segir Óskar. „Það var frábært að taka þátt í þessu og upplifa þetta. Maður áttaði sig ekki á því hvað það er mikið prógramm í kringum þetta, hvað það skiptir líka miklu máli að halda góðri rútínu í svona móti því þetta sýgur alla orkuna úr fólki. Maður sá það bara eftir því sem á leið. Við reyndum að vera duglegir að fara í morgungöngur, halda rútínu og hugsa um heilsuna,“ segir Óskar.

Það er nefnilega þannig að skákmenn brenna hitaeiningum þó þeir sitji við taflborðið og hugsa næsta leik og tefla heila skák. Skákin er hugaríþrótt sem reynir á líkamann, ekki síður en hugann.

Markús Orri virðist jarðbundinn og yfirvegaður þrátt fyrir athyglina, tekur framanum með ró og hefur sín markmið og framtíðarsýn fyrir skákferilinn. Það verður forvitnilegt að fylgjast með honum í framtíðinni. Kannski eigum við næsta eða þarnæsta stórmeistara Íslendinga hér fyrir norðan, hver veit?