Fara í efni
Mannlíf

„Ef maður sér eina rottu þá er eitthvað að“

Feðgarnir Sveinbjörn Árnason og Árni Sveinbjörnsson, til hægri.
Feðgarnir Sveinbjörn Árnason og Árni Sveinbjörnsson, til hægri.

Eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem þarf að hyggja að í vetrarbyrjun eru meindýravarnir. Þegar kólnar á Fróni sækja mýs inn í hýbíli mannanna og valda þar ýmsum spjöllum. Þessa dagana eru menn því mikið að spá í nagdýravarnir í kringum húsin sín, tjaldvagna, húsbíla og ekki síst sumarbústaði, að sögn Árni Sigurjónssonar, meindýraeyðis.

Árni er með 30 ára reynslu í meindýravörnum. Í samtali við Akureyri.net segir hann að músagangur á Akureyri sé svipaður og í öðrum bæjarfélögum. „Munurinn er að meira er af húsamús hér á Akureyri en hagamús í minni bæjarfélögum. Húsamúsin er miklu frekari og fjölgar sér mun meira. Hún gýtur allt árið, jafnvel 16-18 ungum í einu. Ef það er nóg fæða þá lifa flestir einstaklingarnir. Hagamýs fjölga sér bara yfir sumartímann, fimm til sjö ungum í einu. Ef báðar tegundir eru á sama stað þá yfirtrompar húsamúsin hagamúsina,“ segir Árni.

Hann telur að ekki sé mikið af rottum á Akureyri. Þær er þó helst að finna í eldri hverfum bæjarins þar sem lagnir eru orðnar lélegar. „Ef maður sér eina rottu þá er eitthvað að einhver staðar. Lagnir í sundur eða vantar ristar.“

Eyðing skordýra algengust

En við mannfólkið þurfum stundum að takast á við aðra sambýlinga en mýs og rottur. Algengustu verkefni Árna og félaga eru eyðing skordýra, og tróna þar efst á lista silfurskottur og hambjöllur/hamgærur. Þá eru mölur, geitungar, veggjalús og jafnvel kakkalakkar einnig á listanum, en tvennt síðastnefnda berst hingað með ferðamönnum og fólki sem hefur dvalist erlendis.

Allir með réttindi

Alla jafna eru starfsmenn fjórir en hægt að hóa í fleiri á álgastímum. Allir sem koma að störfum hjá fyrirtækinu eru með réttindi til meindýravarna og metnaður er lagður í að allar búnaður sé eins nýr og fullkominn og á verður kosið. Vinnuaðstæður eru oft erfiðar og því er nauðsynlegt að hafa réttan tækjakost.

Að lokum segir Árni: „Í upphafi átti meindýraeyðing bara að vera þægileg aukavinna í eitt sumar fyrir mig og synina“. Hann komst þó fljótlega að því að svona starf tekur maður ekki í hjáverkum. Það er hringt á öllum tímum og þá gengur ekki að vera fastur í annarri vinnu, segir Árni.

Hamgæra