Dýrmætt að eiga hús af fornri kostajörð

Margir kannast við Eyrarlandsstofu, elsta húsið í Lystigarðinum á Akureyri; svart, fallegt hús við innganginn af bílastæðinu við Sjúkrahúsið. Arnór Bliki Hallmundsson fjallar um þetta merkilega hús í stórfróðlegum pistli í röðinni Hús dagsins sem Akureyri.net birtir í dag.
Jörðin Stóra-Eyrarland á sér aldalanga sögu og munu elstu heimildir um hana, svo vitað sé, vera frá því snemma á 15. öld en væntanlega er jörðin miklu eldri. Jörðin var gríðarlega stór en bæjarhúsin nokkurn veginn þar sem nú er bílastæði norðan Sjúkrahússins.
Arnór Bliki fjallar af kunnri nákvæmni um stórmerkilega sögu Eyrarlandsstofu. Hann nefnir að þegar Fjórðungssjúkrahúsið var tekið í notkun 1953 hafi verið farið að þrengja nokkuð að Eyrarlandsstofunni. „Áfram var þó búið þar um nokkurra ára skeið en síðar komst húsið í eigu sjúkrahússins, sem nýtti það sem skrifstofuhúsnæði, þar sótti starfsfólk m.a. launin sín.“
Endurbætur og friðlýsing
„Þegar fram liðu stundir þótti ljóst, að Eyrarlandsstofan yrði að víkja. Einhverjir töldu eflaust fara best á því að rífa hana en einnig komu fram hugmyndir um, að Lystigarðurinn fengi hana til umráða,“ segir Arnór Bliki í pistlinum. „Hefði Eyrarlandsstofan verið rifin, lifði eflaust ekkert af hinni fornu kostajörð í bæjarlandinu annað en örnefni.“
Ákveðið var á fundi bæjarráðs Akureyrar í lok nóvember 1983 að flytja Eyrarlandsstofu í Lystigarðinn. Húsinu var komið fyrir á nýjum grunni í garðinum í janúar 1987, og í kjölfarið endurbætt með miklum glæsibrag og þremur árum síðar var Eyrarlandsstofa friðlýst.
„Niðurstaða þess, hvernig staðið var að varðveislu og endurbyggingu Eyrarlandsstofu, hlýtur að teljast til mikillar fyrirmyndar. Enda þótt húsið hafi verið flutt um einhverja tugi metra, stendur það engu að síður enn og nokkurn veginn á réttum stað, því hún er steinsnar frá bæjarstæði Stóra-Eyrarlands,“ segir Arnór Bliki.
Vert er að vekja athygli á því að í pistlinum segir hann einnig frá fjölmörgum örnefnum í landi Eyrarlands. Það er fróðleg lesning.
Pistill dagsins: Eyrarlandsstofa