Fara í efni
Mannlíf

Diskó Sólin skín á þá sem vilja dansa í kvöld

Akureyringarnir Gestur Þór Guðmundsson og Magnús Smári Smárason hafa saknað alvöru balla í bænum; dansleikja þar sem einungis er leikin tónlist sem hægt er að dansa við. Hvað var þá til ráða? Jú, að taka málin í eigin hendur og bjóða upp á slíkar samkomur.

„Okkur fannst skorta böll eins og þau voru á árum áður,“ segir Gestur og Diskó Sólin varð því að veruleika.

Frumraunin verður á Verkstæðinu í kvöld og ákveðið hefur verið að halda annað ball á sama stað 30. desember. Ballið byrjar kl. 23.00 í bæði skiptin og fjörið stendur til klukkan 2 eftir miðnætti. Tveir diskótekarar, DJ Pompier og DJ Lilja, ætla að halda uppi stuðinu. 

Böllin eru auglýst fyrir 30 ára og eldri, en hægt verður að námunda þá tölu, að sögn Gests! Flestir sem hafa mikinn áhuga á að koma til að dansa ættu því væntanlega að komast inn. Gestur segir mikið framboð af skemmtunum fyrir yngri kynslóðina en hvergi sé lögð almennileg áhersla á að skemmta þeim sem eru örlítið eldri. Tilraun þeirra félaga felst í að breyta því.