Fara í efni
Mannlíf

Dísætt súkkulaði víða á borðum um jólin

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

16. desember – Góðgæti

Dísætt súkkulaðið er víða á borðum um jólin. Reyndar halda því einhverjir fram að til sé einn jólasveinn í viðbót, Súkkulaðisníkir, því góðgætið á það til að hverfa með leiftrandi hraða úr skálunum.

Sykur er munaðarvara sem landsmenn opnuðu munn sinn fyrir upp á gátt. Í verslunum var hann oftast seldur í toppum, stórum keilulaga stykkjum, svokallaður toppasykur. Keilurnar voru höggnar í mola sem síðan voru klipnir í smátt með sykurtöngum.

Súkkulaði var enn meiri munaðarvara og ekki á allra færi að kaupa. Það var þó ekki verðlag heldur skömmtun súkkulaðis sem ýtti við Eyþóri H. Tómassyni sem árið 1948 stofnaði Lindu og nefndi eftir dóttur sinni. Hugmyndin kviknaði í London, ekki borginni heldur vefnaðarvöruversluninni, sem Eyþór rak í Skipagötu 6.

Linda var fram til 1961 á efri hæð Hólabrautar 16 þar til fyrirtækið flutti á Hvannavelli í Linduhúsið svokallaða, sem var Eyþór lét reisa fyrir sælgætisframleiðsluna. Eitt af því sem framleitt var í Lindu var Pez sem oft rataði í skóinn hjá börnum fyrir jólin.

Lindu sælgætið varð þekkt um allt land og Linda var nefnd í sömu andrá og KEA, Amaró og SÍS í þekktum dægurlagatexta sem hljómsveit Ingimars Eydals söng 1968.

Hér má lesa fróðlegt viðtal við Eyþór um sögu súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Í súkkulaðiverksmiðjunni Lindu. Að neðan: Linduhúsið við Hvannavelli sem Eyþór Tómasson lét reisa 1961. Ljósmyndir: Gísli Ólafsson.

Forláta sykurtangir.