Fara í efni
Mannlíf

Um að gera að lifa lífinu lifandi þangað til

Margrét Heinreksdóttir, fyrrverandi blaða- og fréttamaður, lögfræðingur og kennari. Ljósmynd: Kristí…
Margrét Heinreksdóttir, fyrrverandi blaða- og fréttamaður, lögfræðingur og kennari. Ljósmynd: Kristín Aðalsteinsdóttir.

Margrét Heinreksdóttir starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu í fimmtán ár en hætti um miðjan áttunda áratuginn. Hún fór í háskólanám í lögfræði sem hún lauk fimmtug að aldri, en vann inni á milli hjá RÚV, fyrst hljóðvarpi og síðan sjónvarpinu. Eftir fjórtán ára starf sem lögfræðingur, framhaldsnám í þjóðarétti og mannréttindum og ársdvöl hjá UNIFEM í Kósóvó flutti hún til Akureyrar 68 ára og tók að sér kennslu við lagadeild háskólans hér í bæ. Þegar borgarbarnið Margrét settist í hinn helga stein hélt hún kyrru fyrir hér nyrðra og býr í Vaðlaheiðinni, þar sem útsýnið er dásamlegt yfir fjörðinn og bæinn.

Margrét, sem fædd er 1936,  skrifar kafla í bókina Raddir - annir og efri ár sem nýverið kom út. Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi ritstjóra bókarinnar, útgefandans og Margrétar til þess að birta kaflann og kann þeim bestu þakkir fyrir. Millifyrirsagnir eru vefsins.

Akureyri.net er heiðarlegur frétta- og mannlífsvefur! Því er rétt að nefna að kafli Margrétar Heinreksdóttur er langur, en ekki er síður mikilvægt að leggja áherslu á að hann er afar merkilegur; frásagnir og vangaveltur Margrétar eru einkar fróðlegar og umhugsunarverðar. Tímanum við lestur hans er vel varið að mati ritstjóra vefsins.

_ _ _ _ _

Vordag einn fagran sat ég sem oftar úti fyrir hreiðrinu mínu í Vaðlaheiðinni, böðuð hlýjum sólargeislum. Ég naut þess að láta létta og ljúfa goluna leika um hörundið, hlusta á fuglakvak og flugnasuð, horfa á trén í óðaönn að laufgast, skip sigla inn fagurbláan fjörðinn og bæinn handan hans eins og blómabreiðu í fangi fjallanna sem enn skörtuðu hvítum haddi.

Í hendinni bréf til umhugsunar. Efni þess tilmæli um að leggja til kafla í bók um hvernig sé að verða gamall. Mér fannst það fráleitt í fyrstu, hef stundum verið hvött til að skrifa æviminningar mínar en jafnan aftekið það með öllu. Enda þótt ég hafi svo sem margt lifað og reynt í áranna rás og hefði kannski frá ýmsu að segja, eins og flestir á mínum aldri, er hæpið að það höfði til svo margra að réttlæti ritun á bók. Þess utan eru sjálfsævisögur mér yfirleitt lítt að skapi. Þær eru oftar en ekki ósannar, því að svo mörgu er sleppt sem máli skiptir til skilnings á höfundi, frásagnir einfaldaðar og einhliða, því aðeins er fram reitt það sem honum hentar. En lífið er aldrei einfalt, kannski er fæst eða ekkert sem fyrir okkur kemur einfalt heldur á sér margar hliðar og tengingar sem sýna þarf til að fá fram sanna heildarmynd. Stundum er líka óhugsandi að segja söguna alla, því flestum hafa verið veitt – og hafa líka sjálfir veitt - sár, viljandi eða óviljandi, jafnvel mörg og djúp og þess eðlis að særa myndi aðra að lesa, einkum saklausa afkomendur þeirra sem í hlut áttu. Uppgjör við sjálfan sig og aðra getur svo sem átt erindi á bók en eigið líf er, að mínu mati, yfirleitt best spunnið í vef skáldskapar sem algild sammannleg reynsla.

Ráðgaðist við lappirnar
Nokkrum dögum síðar hringdi mín góða vinkona, Kristín Aðalsteinsdóttir, og fékk mig til að skipta um skoðun, sagði að það gæti ef til vill orðið öðrum til gagns að sjá hvernig ég hefði tekist á við þetta ferli, að verða öldungur og missa fótanna í orðsins fyllstu merkingu vegna svonefndra fjöltaugaskemmda sem hafa orðið til þess að hjólastóllinn hefur síðustu árin verið mitt farartæki innan húss sem utan. Að loknu símtalinu við Kristínu ráðgaðist ég við lappirnar mínar um hvað gera skyldi. Yrðu þær ef til vill leiðar ef ég segði frá þeim? Þætti þeim miður að fleiri fengju að vita en mínir nánustu, að þær hefðu brugðist mér? Væru þær kannski sakbitnar yfir því að geta ekki lengur borið mig? „Hví þá það, sögðu þær, sökin er ekki okkar. Það er ekki okkur að kenna að þú hefur erft gölluð gen frá forverum þínum. Við höfum gert okkar besta til að halda þér uppi hvernig sem þú hefur farið með okkur. Þú hefur neytt okkur til að hanga fram af stólum, þar sem þú sast áratugum saman við ritvélar og tölvur, lagt á okkur langar flugferðir þar sem við stokkbólgnuðum, hvergi hlíft okkur við að þramma um borgir og bæi – jafnvel stundum fjöll og firnindi - hér og þar um heiminn, látið okkur stikna í óþolandi hita og kólna í hundakulda. Lái okkur hver sem vill að hafa gefist upp eftir slíka meðferð. Þú situr barasta eins og þú hefur til unnið, gamla mín.“ Og þær höfðu svo sannarlega rétt fyrir sér – og minntu á það góða, gamla orðtæki, að ætíð skuli líta fyrst í eigin barm áður en öðrum er um kennt það sem miður fer í lífinu.

Að eldast er bæði hlutlæg og huglæg reynsla. Hlutlæg vegna þess að við sjáum líkamann hrörna, óhjákvæmilega og oftast örar en við hefðum kosið en er þó einstaklingsbundið og fer eftir heilsu og hugarfari. Við getum reynt að sporna við ferlinu og tefja fyrir því en allt kemur fyrir ekki, árin eyða líkamanum, vélin bilar smám saman, heilafrumurnar týna tölunni hvað sem við gerum. Við getum kannski aðeins dregið úr hraða eyðingarinnar með hæfilegri hreyfingu og með því að nýta hugann sem mest og best, láta á hann reyna við hin ýmsu viðfangsefni og vera andlega vakandi fyrir því sem gerist í umhverfi okkar, nær og fjær, en samt kemur allt fyrir ekki, öll gefumst við upp að lokum – eða sem er þó betra, að okkur sé svipt burt fyrirvaralaust. Þannig vildi ég sjálf gjarnan ljúka minni vegferð.

Huglægu reynsluna getum við betur ráðið við en hún fer þó mjög eftir ferli líkamans, eftir því hvernig heilsufarið þróast og þar ráða svo margir þættir, bæði erfða og umhverfis, aðstæður á yngri árum sem hinum síðari, hvernig við förum með heilsuna frá upphafi til enda, einnig heppni eða óheppni, hvort við lendum í yfirþyrmandi andlegum áföllum, slysum eða banvænum sjúkdómum og svo mætti lengur telja. Það er auðvelt að vera hress og kátur þegar ekkert amar að en erfiðara þegar veikindi ýmiss konar, vanlíðan og verkir eru tíðir ef ekki daglegir fylgifiskar sem smám saman lama hugarþrekið. En gefi líkaminn grið getur hugurinn starfað okkur til yndis og ánægju meðan ekki er úti ævin öll.

„Lögleg“ gamalmenni
Að íslenskri löggjöf verðum við „lögleg“ gamalmenni þegar 67 ára aldri er náð. Einhvers staðar verður víst að setja þau mörk og í mínu tilviki voru þau vissulega vel við hæfi því það var einmitt á því ári mínu sem ég fann fyrst að fæturnir væru að bregðast mér. Ég var þá starfandi í Kosovo á vegum Sameinuðu þjóðanna og hafði, eftir nokkurra mánaða göngur á holóttum götum höfuðborgarinnar, Pristinu, farið að gera mér grein fyrir því að fjöðrunin var farin úr göngulaginu, fæturnir orðnir þyngri og stirðari en áður og ég varð óstyrk þegar dimma tók, enda götur oft illa eða ekkert upplýstar því að skortur á rafmagni var þar mikill, dagleg skömmtun í aðeins nokkra tíma í senn. Ég hafði því ætíð með mér lítið vasaljós til að lýsa mér leiðirnar í kvöldmyrkrinu. Þetta bitnaði sem betur fór ekki á vinnunni, ég varð að vísu svolítið svifaseinni en því var auðvelt að leyna svo að mér tókst alveg að bægja frá mér þessum óþægindum. Hvunndagurinn tók hugann allan. Starfið var áhugavert og skemmtilegt sem og samstarfsfólkið, sem kom hvaðanæva að úr heiminum, að ógleymdu heimafólkinu sem ætíð sýndi mér stuðning og vinsemd, hjálpsemi og virðingu. Þar var reynsla aldraðra metin að verðleikum.

Ætlun mín hafði verið að nota fyrstu eftirlaunaárin til doktorsnáms við Háskóla Íslands, hafði fengið samþykkta umsókn þar um, en úr hömlu dróst að hefja námið þar sem ekki fannst viðurkenndur umsjónarmaður. Eini íslenski háskólakennarinn sem til greina kom dvaldist tímabundið í Asíu og þar sem samskipti á netinu voru ekki orðin jafn auðveld og nú gat hann ekki tekið verkið að sér. Einn norrænan fræðimann þekkti ég sem hafði skrifað doktorsritgerð um tiltekinn þátt viðfangsefnisins og hefði viljað taka verkið að sér, en hann var „aðeins“ kennari við menntaskóla í Svíþjóð og því ekki viðurkenndur af HÍ sem umsjónarmaður.

Komin hálfa leið til himnaríkis ...
Svo tóku örlögin í taumana og notuðu til þess skörðótta steinhellu á gangstétt neðst á Laugaveginum í Reykjavík. Um hana hnaut ég og brotnaði á ökkla hinn 25. ágúst 2003. Við tóku skurðaðgerð, gifshólkur og tveggja mánaða seta í hjólastól, sem kom í veg fyrir að ég kæmist upp á efri hæð íbúðar minnar þar sem vinnustofan mín var og bækur flestar. Góður vinur minn, sem hafði flust til Akureyrar til að taka þátt í stofnun lagadeildar við háskólann þar, hafði nokkrum sinnum ámálgað við mig að koma norður til að kenna þjóðarétt og mannréttindalög við deildina og aðstoða við uppbyggingu hennar. Ég hafði tekið þeirri málaleitan sem hverju öðru gríni, ætti nú ekki annað eftir en að fara að kenna, komin á gamals aldur og það á háskólastigi; jú vissulega hafði ég oft haldið fyrirlestra, bæði í Háskólanum, Lögregluskólanum, efstu bekkjum grunnskóla hér og þar um landið svo og hjá ýmsum samtökum en þarna fannst mér í of mikið ráðist. En - sem ég var rétt búin að gera mér grein fyrir því að hugsanlega yrði ég fyrr en seinna að skipta um íbúð, þar sem fæturnir væru líklegir til að gefa sig, var enn hringt að norðan og mín freistað svo, að næsta vor var ég flutt í hlýlegt hreiður í Vaðlaheiðinni, lítið látlaust hús en á svo fallegum stað, að ég lýsti því yfir að þar vildi ég búa í nokkur ár áður en ég hrykki upp af, þar væri ég komin hálfa leið til himnaríkis, ef svo mætti segja, og ætti hreint ekkert víst að komast lengra í þá áttina! Teningnum var kastað og ekki annað að gera en að hella sér í kennsluna og vona það besta. Í hönd fóru lærdómsrík og skemmtileg ár og þó svo að ég hafi kannski ekki verið heimsins besti kennari leitaðist ég við – og tókst þokkalega að ég held - að kenna nemendum mínum að vinna sjálfstætt úr námsefni þannig að þeim kæmi að gagni í framtíðinni.

Áratuga streita vék fyrir sálarfriði og frelsistilfinningu
Það kom mér á óvart hversu sársaukalítið það reyndist að kveðja ys og þys borgarlífsins og notalegt að flytjast í kyrrð og ró heiðarinnar - enda þótt ég saknaði margra ættingja og vina fyrir sunnan. Ég fann áratuga streitu smám saman víkja fyrir sálarfriði og þeirri frelsistilfinningu sem fylgir búsetu í faðmi náttúrunnar, þar sem fylgjast má með vaknandi lífi að vori, safaríkri grænku sumarsins, gullnum haustlitum trjánna áður en laufin fara að fjúka í allar áttir og loks veðraham á vetrum. Fyrsta sumarið var svo sólríkt og hlýtt að ég gat verið úti svo til daglega og átti síðan eftir að eiga ótaldar yndisstundir á veröndinni minni – en hef líka upplifað vetrarveður svo vond að snjór hefur hulið alla glugga svo hvergi sá út, að skaflar náðu upp á þá miðja og stundum betur og stormar hafa bergmálað svo í klettunum í kring að úr hefur orðið drynjandi hávaði. Kári er svo sannarlega stundum í jötunmóð í heiðinni - en svo steypist sólin allt í einu ofan úr skýjunum og sindrar á snjóhvítu landinu og umhverfið allt verður ein himnesk ævintýrahöll.

Síðan eru liðin fimmtán yndisleg ár, sem þó hefur á borið skugga taugasjúkdómsins í fótum og höndum, með tilheyrandi jafnvægisleysi, verkjum, svefnleysi og öðrum óþægindum, sem bundu enda á kennslustörfin fyrr en ég hefði viljað. Ég hafði komið norður á tveim hækjum, sem ég gerði ráð fyrir að losna við fljótlega, en úr því varð aldrei, við þær varð ég að hökta áfram og síðar með göngukerru þar til hjólastóllinn tók við. Mér þótti þetta leitt, einkum vegna þess að mér fannst ég bregðast vinum mínum sem höfðu gert sér vonir um að ég hefði lengri tíma til starfa. Var þó að, meira eða minna, til 75 ára aldurs en þá hófst hin eiginlega elli sem nú var sýnt að yrði öðruvísi en ráð hafði verið fyrir gert. Fyrirhugaðar gönguferðir í heiðinni voru úr sögunni, ekkert yrði af matjurtaræktun á lóðinni minni eins og til stóð og ferðalög takmörkuð, innan lands sem utan. Mér féllust að sjálfsögðu hendur í fyrstu en tókst þó fljótlega að sætta mig við þessar breyttu aðstæður, þær urðu mér nýtt viðfangsefni að takast á við. Ég hugsaði til þeirra sem árum og áratugum saman hafa verið og eru bundnir hjólastól, meira eða minna lamaðir og hjálparlausir. Í samanburði við þær hetjur var mér hreint engin vorkunn.

Fréttaheimurinn heimtaði athygli mína á ný
Framan af ætlaði ég að dunda við faglegar skriftir. Mér voru hugleikin ýmis viðfangsefni sem gaman væri að reyna að gera skil. En þá gerðist það að nákominn ættingi, sem var farinn að gerast svolítið skrítinn í háttum, greindist með Alzheimer og eftir að hafa fylgst með hratt hrakandi andlegu ástandi sjúklingsins greip mig ótti um að fara sömu leið, um að dómgreind minni mundi hraka án þess að ég gerði mér þess grein og ég færi að senda frá mér greinaskrif sem ekki stæðust fræðilegar kröfur. Hætti því við þá fyrirætlun og hellti mér þess í stað í bóklestur af ýmsu tagi, munað sem ég hafði aldrei haft nægan tíma fyrir í önnum meira en hálfrar aldar starfa utan og innan heimilis. Nú gafst líka nægur tími til að hlusta á sígilda tónlist sem ég ánetjaðist ung að aldri og hefur ætíð verið mér andleg nautn og sáluhjálp. Ég fjárfesti í góðum hljómtækjum til að geta hlustað aftur á mínar gömlu vinýlplötur og bætti smám saman við nýjum hljómdiskum. Til að lífga upp á sjónvarpið viðaði ég að mér mynddiskum, einkum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem byggðust á góðum bókum, allt frá klassík Shakespeares til krimma Stiegs Larssons og hef haft gaman af að bera saman listform orðs og myndar um sama viðfangsefni. Undi mér þannig vel við sjónvarpsgláp, gjarnan með garn á prjónum til að halda höndunum á hreyfingu. Gerðist einnig áskrifandi að svokölluðu Fjölvarpi með tugum sjónvarpsstöðva, þar á meðal fjölda fréttastöðva, sem hafa gert mér fært að sjá viðburði, bæði samtímans og sögunnar, í öðru og víðara ljósi en áður. Frábærar fréttaskýringar og heimildamyndir hafa sýnt mér það sem gerst hefur frá öðrum sjónarhólum en hinum vestrænu sem við höfum alist upp við að mestu í áranna rás, ómetanlegt fyrir gamlan fréttamann, sem nú sagði til sín svo um munaði. Ég hafði í tuttugu ár verið blaða – og fréttamaður hjá Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi, en fundist þá nóg komið, tekið lögfræðipróf frá Háskóla Íslands fimmtug að aldri og síðar meistarapróf í þjóðarétti og mannréttindum í Lundi í Svíþjóð. Ný og spennandi viðfangsefni höfðu auðveldað mér að snúa baki við fréttaheiminum en nú gerðist hann æ áleitnari og heimtaði athygli mína á ný - sem betur fer, því að hann hefur hjálpað mér til að sjá eigin aðstæður í samhengi við örlög og erfiðleika annarra.

Samfélagið skafið að innan ... 
Með sjónvarpinu hefur hugurinn flogið vítt og breitt um veröldina, ekki aðeins um átakasvæði heims, pólitísk og hernaðarleg, heldur og slegist í för með hinu mætasta fólki um fjöll og firnindi, sem ég hefði aldrei séð ella, um listasöfn og aðra merkisstaði stórborganna, m.a. staði sem ég heimsótti sjálf á árum áður en hafði ekki tök á að skoða nógu vel. Með netmiðlunum hef ég séð og heyrt tónleika, balletta og óperusýningar víða að úr veröldinni, minjar og rústir fornra og fjarlægra menningarheima og bætt þar við eigin upplifun og reynslu af ferðum til ýmissa landa, í Evrópu, Mið – Ameríku, Mið – Austurlöndum, Asíu og Afríku. Sjónvarpið og heimsnetið eru tæki sem geta víkkað sjóndeildarhringinn til allra átta, sem mér finnst skipta miklu enda þótt ég vildi hvergi annars staðar búa en á Íslandi þrátt fyrir margvíslega – og alltof oft óþarfa – galla á íslensku þjóðfélagi. Landið okkar fallega er gersemi sem því miður liggur víða undir skemmdum og samfélagið, sem áratugi tók að byggja upp á grundvelli samhygðar, hefur á síðustu 15-20 árum verið skafið að innan smám saman í þágu gróðafíknar og sjálfselsku. En heimurinn er ekki kálfskinn eitt og nútímatækni gerir okkur kleift að njóta náttúru og gersema annarra landa og þjóða enda þótt við komumst hvergi en sitjum bara heima í hægu sæti. Það jafnast auðvitað aldrei á við eigin upplifun en er þó sannarlega betra en ekki. Umhugsunar- og viðfangsefnin eru óþrjótandi og ég nýt þess munaðar að hafa nægan tíma til að velta fyrir mér hinum óteljandi tilbrigðum mannlegs lífs, gjörðum og samspili einstaklinga og þjóða, andstæðunum í náttúrunni og eðli mannsins, sköpunarkraftinum og eyðingarmættinum, baráttu góðs og ills, sem ætíð móta og merkja listaverk lífsins, hvar og hvenær sem er, óháð stað og tíma.

Er hægt að hafa það betra?
Síðan hjólastóllinn varð mitt hjálpartæki hefur einangrun mín eðlilega aukist en þar er engum um að kenna nema sjálfri mér, eðlislægum ódugnaði við að sækja mér og rækta félagsleg samskipti. Var þokkalega félagslynd á yngri árum en hef á seinni árum dregið mig í hlé, líður heldur ekki alltof vel í margmenni og skvaldri - mun betur í fámennum hópi fólks sem hefur ánægju af að ræða mikilvæg dægurmál, góðar bækur og lífsins gang og tilverunnar, ef svo mætti segja. Að þessu stuðlar og að ég er sjálfri mér yfirleitt nóg því að ég hef allt sem þarf til fæðis og klæðis, til andlegrar næringar og upplyftingar. Hitti samt, sem betur fer, góða vini öðru hverju og fæ í heimsókn kærkomna gesti, héðan og þaðan, einkum á sumrin þegar færð og veður auðvelda ferðalög. Aðstæðum á heimilinu hef ég hagrætt svo að ég get sjálf sinnt mínum daglegu þörfum en gestirnir mínir sjá um sig sjálfir, eru mér aldrei til óþæginda heldur aðeins yndis og ánægju. Þjónustu fæ ég ágæta hjá sveitarstjórninni á Svalbarðseyri, akstur í bæinn þegar þarf, aðstoð við að halda heimilinu hreinu, unglingarnir í vinnuskólanum þar slá fyrir mig grasið á sumrin og hreystimenni moka snjó á veturna svo að ég komist nauðsynlegra ferða minna. Sjúkraþjálfarinn minn frábæri er svo vænn að koma heim til mín vikulega úr því að ég kemst ekki til hans. Það er fyrst og fremst honum að þakka að skrokkurinn hefur ekki stirðnað meira en orðið er þrátt fyrir þrásetuna í hjólastólnum. Heimahjúkrun á Akureyri hefur boðið mér aðstoð við böðun ef þarf, sem ekki hefur enn komið til en er öryggi af að vita – og öðru hverju lítur til mín þaðan indæl kona, jafnvel stundum færandi hendi, til að kanna hvernig mér vegnar. Mat gæti ég væntanlega fengið sendan einhvers staðar frá en kýs að malla sjálf þótt ekki sé beysinn kokkurinn! Öryggisþjónustu hef ég notið í mörg ár og reynst vel, hef oft leitað aðstoðar þaðan þegar ég hef dottið, eitt sinn fótbrotin sem varð lokahnykkurinn í hjólastólinn og síðast þegar annað hjólið fór undan honum. Loks er ég svo lánsöm að eiga búsettar á Akureyri dætur mínar tvær sem eru mér ómetanlegar stoðir og styttur og sjá um aðdrætti vista og aðrar útréttingar þar sem heimsnetið dugar ekki til en það hefur hins vegar gert mér fært að finna og fá sendan heim að dyrum fatnað, húsbúnað og fleiri nauðsynjar. Er hægt að hafa það betra?

Eftir því sem aldurinn færist yfir leitar hugurinn eðlilega meira aftur í tímann. Ósjaldan sækja að mér minningar liðinna áratuga, bæði góðar og slæmar, sem ýmist létta lundina eða þyngja en allar eru þær jafn dýrmætir tónar í hljómkviðu lífs míns. Ég hef á minni löngu ævi upplifað miklar breytingar, bæði til góðs og ills, í íslensku samfélagi sem og umheiminum, lifað sögulega atburði, notið lista og menningar, sótt ógleymanlega tónleika, leikhús, óperur og listasöfn, bæði hér heima og erlendis, kynnst ólíkum menningarheimum með margs konar fólki af ýmsum kynþáttum og mismunandi litarhætti. Í einkalífinu hef ég upplifað allan litaskala tilfinninganna, allt frá þyngstu sorg til ólýsanlegrar hamingju. „Endurminningin merlar æ í mána silfri hvað, sem var, yfir hið liðna bregður blæ blikandi fjarlægðar,…“ sagði Grímur Thomsen svo fallega í einu af eftirlætis ljóðum æskuára minna – og bætti við .. „…gleðina jafnar, sefar sorg; svipþyrping sækir þing í sinnis hljóðri borg.“ Í minni sinnis hljóðu borg ræði ég við gengna vini, sem aldrei gleymast og þar geymist fjársjóður minninga sem margt má til sækja, ekki síst í skammdeginu, ýmist til að ylja sér við eða velta fyrir sér orsökum, tengslum og afleiðingum atvika liðinna ára, íhuga hvað rétt var gert eða ranglega, hvað það var í eðli mínu og annarra, aðstæðum okkar, uppvexti og mismunandi reynslu sem leiddi til þessa eða hins í samskiptum okkar.

Hver er ég?
Þær stundir hafa komið í áranna rás að ég hef staðið frammi fyrir spurningunni „hver er ég?“ og þá reynt að greina eigin innsta kjarna frá áhrifum annarra, sem hafa viljandi eða óviljandi haldið að mér hugmyndum sínum og sannfæringu um hvernig hlutirnir skuli vera, hvað sé rétt og rangt, við hæfi eða ekki, hvernig mér beri að vera og vera ekki, hvernig ég eigi að leita tilgangs lífs míns og hamingju. Oft var það í nafni ástar og umhyggju, því sumir telja sig svo gjarnan vita hvað öðrum sé fyrir bestu en ekki reyndust öll ráð til heilla og því eins gott að læra að treysta á eigin dómgreind og tilfinningu. Að árum athafna og annríkis liðnum, í kyrrð og ró ævikvöldsins, er ekki seinna vænna að gera það upp við sig í fullri hreinskilni hvers konar manneskja ég er, vildi vera, reyndi að vera, var? Enginn þekkir annan til fulls en þekkir sjálfur sjálfan sig? Hver er hin sanna og rétta mynd hvers einstaklings? Því er vandsvarað. Eitt er þó víst að einskis manns mynd er einföld eða auðsæ. Á yngri árum leiðum við lítt hugann að slíkum spurningum, því eins og Grímur sagði: „Í æsku fram á lífsins leið vér lítum, en ei annað neitt, vonandi að breiða gatan greið grænum sé blómum skreytt…“ Ungum liggur okkur þessi reiðinnar ósköp á að verða fullorðin og fara að „lifa lífinu“ – upplifa ást og ævintýri og fást við spennandi verkefni, bjartsýn á að ávallt verði allir vegir færir – en fyrr eða síðar verðum við flest fyrir margvíslegum vonbrigðum og áföllum og þau fara hvorki eftir veraldlegum auði né stöðu í samfélaginu. Sumir bogna kannski en verða svo af sterkari en aðrir brotna og bera síðan ekki sitt barr. Sumir draumar rætast aldrei, við getum ekki alltaf gert né fengið allt sem við viljum en þá er að leita annarra leiða og þær eru til svo ótal margar og skemmtilegar, lífið býður upp á endalaus tækifæri sem mestu skiptir að grípa þegar gefast.

Og svo líða árin og „aftur horfir ellin grá“ og þá kemur að því að „Sólarlag liðinn dag laugar í gulli þá“ – svo enn sé vitnað í vin minn, Grím. Þá verður mér hugsað til þeirra ótalmörgu, margvíslegu og ógleymanlegu sólarlagsstunda sem ég hef lifað í áranna rás. Ég sé fyrir mér himininn yfir hverju landinu af öðru í öllum hugsanlegum litbrigðum, stundum sem logandi eldhaf, stundum purpuralit ský á fleygiferð, stundum bak við sindrandi hitamistur, stundum var sólin sem eldrauður knöttur hoppandi á gullnum haffleti sem svo sogaði hana til sín og húmið lagðist yfir. Og þá ekki síður hér heima á Íslandi þar sem hæst hafa borið í áranna rás óviðjafnanleg sólsetur ótal ágústkvölda. Í íbúðinni minni gömlu hafði ég daglega fyrir augum í tuttugu ár fjöllin fögru, Keilinn, Esjuna, Skarðsheiðina og jökulinn dularfulla á Snæfellsnesi sem aldrei var eins á að líta og sást oft alls ekki. Í kvöldsólinni var oft sem íbúðin sjálf og flóinn framundan stæðu í ljósum logum. Þaðan hefði ég aldrei farið ef örlögin hefðu ekki tekið í taumana og svipt mér norður yfir heiðar í annan stað - engu síðri sem betur fór, þótt öðruvísi væri. Þar hef ég séð miðnætursólina dansa við ystu sjónarrönd á björtum sumarkvöldum - en nú sé ég fyrst og fremst eigið sólarlag.

Ekki bara góðar minningar
Það eru ekki aðeins góðar og fallegar minningar og myndir sem leita á huga öldungsins, inn í hann þrengja sér aðrar sárari, sumar úr einkalífinu, aðrar héðan og þaðan úr veröldinni. Ég minnist meðal annars sofandi fátæklinga í húsaskotum í City, miðstöð fjármálalífs Lundúna – og á Viktoríustöðinni þar sem gaf að líta afleiðingar trúarinnar á Mammon, guð hins frjálsa markaðar, sem hefur safnað auði á æ færri hendur en valdið öðrum vaxandi örbirgð og ómældum hörmungum víða um heim. Ég hugsa til fólksins sem ég sá og hitti fyrir í fátækrahverfum hinna ýmsu borga þriðja heimsins svokallaða, í löndum rómönsku Ameríku og Afríku. Ég sé enn fyrir mér vonleysið í augnaráði ungmenna í flóttamannabúðunum í Súdan, þau höfðu flúið átök og skelfingu heima fyrir í Eritreu, höfðu ekkert við að vera og sáu ekki fram á neina leið til að öðlast menntun eða mannsæmandi líf. Ég finn enn fyrir höndum barnanna litlu sem leiddu mig um búðirnar þar sem flóttafólkið beið í röðum eftir matarúthlutun í steikjandi sólarhitanum. Ég minnist sjúkraskýla í sveitum, stundum undir beru lofti þar sem örþreytt hjúkrunarlið reyndi við bágar aðstæður að létta þrautir fólks á öllum aldri, sem hafði kannski gengið illa haldið marga kílómetra eftir hjálp. Ég hugsa um börn sem ég sá, tærð og nærri hungurdauða og um barnið litla dauðvona í fangi mér í þyrlunni í Hondúras, þar sem fellibylur hafði eyðilagt akurlendi á margra ferkílómetra svæði, aurskriður streymt yfir hýbýli og vegi, einangrað byggðir og ekrur í hæðum uppi þar sem fólk vann fyrir smánarlaunum, oft aðeins goldnum í matvælum og áfengi. Allt hefur þetta mótað líf mitt og lífsviðhorf og gert mér fært að sjá eigið líf og annarra í sterkara og skýrara ljósi en ella.

Í þessu ljósi minninganna lifi ég nú lúxuslífi sem blómi í eggi, áttræður öldungur og þrem árum betur, sakbitin þó vegna annarra sem ekki fá notið slíks munaðar. Ég geri mér grein fyrir því láni sem það er að fá að verða gamall í landi þar sem hvorki er of heitt né of kalt en nóg vatn að fá, bæði heitt og kalt; þar sem ég get átt í mig og á og þak yfir höfuðið, notalegt hreiður í heiði norður með yndislegu útsýni yfir fjörð, fjöll og fallegan bæ, notið heilsugæslu - þó þar hafi eitt og annað farið verr en skyldi – og frábærrar umönnunar á sjúkrastofnunum þegar virkilega á reyndi. Ég nýt þess að geta haft húsið mitt hlýtt allan sólarhringinn, minnug kuldans í leiguíbúðinni í Kosovo með stopulli rafmagnshitun og viðarkolaofni sem dugði ekki dekurdrósinni íslensku. Ég hugsa um það daglega, að ég bý við hreinlætisaðstæður eins og best gerast í heiminum og hef hreint, svalandi vatn að drekka, minnug eitrunarinnar sem ég fékk á sínum tíma í Sýrlandi eftir að hafa óvart tekið nokkra sopa af kranavatni með töflu við höfuðverk eftir erfitt ferðalag um borgir og bæi, auðnir og sanda, fornar minjar og merkileg mannvirki sem nú er búið að sprengja í tætlur. Skelfingarnar sem yfir þetta land og þjóð hafa dunið á undanförnum árum hafa gengið hjarta mínu afar nærri. Ég hugsa líka um það daglega að ég hef nægan mat, minnug þeirra sem líða skort og neyð, ýmist vegna misskiptingar lífsins gæða, hamfara náttúrunnar eða hernaðarátaka skammsýnna manna, sem berjast um auðlindir og kjötkatla, leiðtoga sem nota fjármuni þjóða sinna til vopnakaupa ef ekki í eigið lúxuslíf og þeirra sem láta sér í léttu rúmi liggja þótt fólk svelti heilu hungri og hrökklist frá átthögum sínum út og suður um allan heim. Á flótta undan sprengjuregni og skorti hafa þúsundir hætt og týnt lífi sínu á undanförnum áratugum, ekki ósjaldan í leit að skjóli hjá þeim vel stæðu þjóðum sem kynt hafa undir ófriðnum með pólitískum afskiptum og taumlausri sölu hergagna, hjá þjóðunum okkar hvítu, vestrænu, sem neita oftlega að taka við þessu flóttafólki enda þótt við berum siðferðilega ábyrgð á sprengjuregninu sem rak það frá heimkynnum sínum. Við Íslendingar líka með stuðningi við óhæfuverk bandalagsríkja í fjarlægum löndum. Samt drögum við lappirnar þegar flóttafólk leitar til okkar og sendum burt, oft í skjóli nætur og myrkurs, út í óvissu, örbirgð og kannski opinn dauðann.

Að lifa lífinu lifandi þangað til ...
Og tíminn líður! Já, tíminn er fugl sem flýgur hratt eins og persneska skáldið, stærð - og stjörnufræðingurinn Omar Khayyam, sagði á sínum tíma, og bætti við „hann hverfur kannski úr augsýn þér í kvöld“ … Ég geri mér þess fulla grein að kallið getur komið hvenær sem er. Til þess sér ekki aðeins staðreynd áranna og hrörnunarmerki ellinnar heldur og tíðar fregnir af andláti ættingja, náinna vina og kunningja af minni kynslóð, fregnir sem ætíð koma róti á hugann. Það líður að leiðarlokum – en er á meðan er og um að gera að lifa lífinu lifandi þangað til, læra svo lengi sem lifir. Reyndar hef ég ætíð verið mér mjög svo meðvituð um dauðann og fallvaltleika lífsins, allt frá barnsaldri þegar ég missti móður mína. Hún lést eftir margra vikna dauðastríð, aðeins 26 ára að aldri, frá þrem börnum sem síðan var sundrað, ól síðasta barnið á Landspítalanum í janúarlok árið 1944 og smitaðist þar af skarlatssótt sem tók líf hennar. Biðin eftir úrslitunum er mér enn í fersku minni svo og sársaukinn sem því fylgdi að þurfa að sætta sig við það sem í hönd fór. Reynsla ótal barna á öllum aldri.

Síðan hef ég oftar en vildi fylgst með dauðastríði og setið við banabeð nákominna ættingja og vina fyrir utan að fylgjast með því hvernig fólk er strádrepið um allan heim. Mér er löngu ljóst að það er oftar en ekki tilviljunum háð hvenær, hvernig og á hvaða aldri endi er bundinn á vegferð okkar. Nema þegar mannfólkið sjálft slekkur líf, myrðir ástvini og aðra einstaklinga í sturlun ástríðna eða hefndarhugar - eða stráfellir, í blóðugum erjum um hagsmuni og völd, andstæðinga sína og óbreytta borgara með vígatólum sem engu eira. Ég hef enga trú á einhverjum æðri máttarvöldum, hverju nafni sem nefnast, sem útdeili einstaklingum lífi og dauða eftir hentugleikum, hvað þá að trúfesta eða guðsótti fái þar nokkru um ráðið. Raunsærri er trú á náttúruöflin, sem fara sínum hamförum í eldgosum, jarðskjálftum, flóðum eða fellibyljum sem valda manntjóni – og er þá líka tilviljanakennt hverjir fyrir verða.

Og nú lifi ég enn einn veturinn genginn í garð með öllum sínum undrum og umhleypingum. Jörð er nú auð og náttmyrkrið kolsvart en við mér blasa ljósin í bænum eins og gullinn lindi meðfram ströndinni, gimsteinum skreyttur. Framundan er endastöð okkar allra, þangað liggur leiðin og verður ekki af brugðið, aðeins spurning hversu hratt muni miða. Vona þó að lokaspretturinn verði sem léttastur, því hetja er ég engin og sársaukaþröskuldurinn ekki hár. Þegar ég lít yfir farinn veg er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að lifa svo lengi fjölbreyttu lífi og tilfinningaríku, að hafa aflað þó nokkuð víðtækrar reynslu, að hafa getað fundið til á gleði - sem og sorgarstundum minnar samtíðar svo og hlýhugur í garð allra þeirra sem snertu líf mitt til góðs eða ills og áttu þannig sinn þátt í að móta myndverk ævi minnar.

Skrudda gefur út bókina Raddir - annir og efri ár. Kristín Aðalsteinsdóttir og Jón Hjartarson eru ritstjórar bókarinnar.