Fara í efni
Mannlíf

Casa Maria í Toskana tekur á sig mynd

Það er allt að smella í Casa Maria en hópfjármögnun á Karolina fund hjálpaði til við að mikilvægar endurbætur á húsinu náðust. Útsýnið er fallegt úr Casa Maria, eins og sjá má.

Akureyrska listakonan María Sigríður Jónsdóttir hefur verið að gera upp hús í Toskana héraðinu á Ítalíu. Nú sér fyrir endann á framkvæmdunum en stuðningur í gegnum Karolina fund hjálpaði henni yfir erfiðasta hjallann.

„Söfnunin gerði mér mögulegt að ljúka við og framkvæma mikilvæga hluti til að endurbæta húsið og ég er einstaklega þakklát öllum þeim sem tóku þátt, sem fá svo gistingu í staðinn í Casa Maria,“ segir María sem fyrir áramót hratt af stað söfnun á Karolina Fund. Söfnunin snéri að því láta draum hennar rætast um gefa húsi sem byggt var árið 1600 í Sinalunga nýtt líf og nýja sögu. Söfnunin gekk glimrandi vel og safnaðist meira en markmiðið var sett á. Síðan henni lauk hefur heldur betur verið gangur í verkefninu.

Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net um söfnunina

„Á undanförnum mánuðum hefur mikið gerst þó stundum hafi mér fundist allt ganga svo löturhægt en þannig er það líklegast oft þegar maður vill að hlutirnir gangi hratt! Húsið hafði staðið mannlaust í 10 ár og þurfti miklar endurbætur til að aðlaga það að mínum þörfum og því sem lög og reglur segja til um á Ítalíu. Það þurfti að endurnýja allt rafmagn, vatnslagnir, hita og gas. Ég reif niður veggi, málaði og ýmislegt annað. Listinn var langur.“

Jóhann Heiðar og Sigurður Unnsteinn við endurbætur á Casa Maria. Fyrstu gestir eru væntanlegir í lok maí.

„Harðstjórinn“ María

Um páskana fékk María veglegan liðsauka frá stórfjölskyldunni á Íslandi.

„Það var augljóst frá upphafi að verkefnið var gríðarstórt. Ég er svo lánsöm að eiga yndislega og samheldna fjölskyldu og hluti hennar kom til mín um páskana. Við lögðum aðal áherslu á að klára leiguíbúðina og stigaganginn svo ég geti farið að taka á móti gestum og það tókst. Fólkið mitt vann frá morgni til kvölds með þvílíkum krafti og jákvæðni sem ég mun seint geta þakkað þeim fyrir. En það var líka ótrúlega gaman hjá okkur, gleði, líf og fjör og þessi samvera bætist í minningafársjóðinn,“ segir María.

Af myndum að dæma var sannarlega fjör á hópnum sem mætti í sérmerktum bolum til Ítalíu. Jóhann bróðir Maríu átti hugmyndina að bolunum en fékk svo hjálp frá fleirum við útfærsluna. „Hann er svo skemmtilegur og uppátækjasamur að hann ákvað að útbúa boli og húfur á alla sem komu til að hjálpa mér. Hann langaði að hópurinn birtast þarna sem lið og vildi hafa aldur hvers og eins skráð á bol viðkomandi svo ég, „Harðstjórinn“ gæti nú tekið tillit til þess þegar ég færi að „harðstjóra“ þeim áfram! Svo fengu allir líka viðurnefni á sinn bol eins og Málbandið, Kústurinn og Nösin. Þetta vakti mikla kátínu hjá okkur öllum.“

Vaskur hópur frá Íslandi kom og hjálpaði Maríu um páskana. Talið frá vinstri: Valdís Rut, Sigurður Unnsteinn, Þórdís, Margrét og Guðmundur. María Sigríður húseigandi og „harðstjóri“ er lengst til hægri. Bróðir Maríu, Jóhann Heiðar (sem er reyndar ekki á myndunum) fékk þá hugmynd að sérprenta boli fyrir vinnuhópinn sem kom til að hjálpa til í Casa Maria um páskana. 

Fjölskyldan og kærastinn ómetanleg hjálp

Þegar verið er að gera upp og laga gömul hús kemur alltaf eitthvað óvænt upp á. Það hefur María líka fengið að upplifa en það hefur þó ekki beygt hana og verkefnið er á tíma.

„Það hafa verið margar hindranir og ég viðurkenni að það hefur reynt á úthaldið en þegar ég sé að þetta er að taka á sig þá mynd sem ég sá fyrir mér endurnýjast orkan og vinnugleðin. Þegar gömul hús eru tekin í gegn þá kemur alltaf eitthvað óvænt í ljós sem enginn sér fyrir en maður þarf þá að vinna í þeim og reyna að leysa á sem bestan hátt og mér hefur tekist það jafnóðum,“ segir María. „Grunnur hússins er frá 1600. Þegar ég byrjaði í framkvæmdunum gaf ég mér góðan tíma til að finna sérkenni og andrúmsloft hússins. Í stofunni fann ég til dæmis freskuverk, veggfóður þess tíma, undir mörgum lögum af málningu sem ég skóf af með litlum spaða og það tók heillangan tíma og mikla þolinmæði.“

María hefur reynt að gera mikið sjálf varðandi vinnuna í húsinu en hefur auðvitað þurft að fá aðstoð iðnaðarmanna og eins segir hún að kærastinn hennar, Stefano hafi verið henni ómetanleg aðstoð. „Hann hefur staðið við hlið mér eins og klettur og yndislega fjölskyldan mín einnig. Án þeirra allra hefði ég ekki getað gert þetta.“

Ítalskur stíll með skandinavískum áhrifum

María hefur lengi verið búsett á Ítalíu þar sem hún starfar sem listmálari. Hún keypti húsið í Sinalunga í ágúst 2022 en það er með tveimur íbúðum, vinnustofu, svölum og garði.

„Ég hafði skoðað nokkrar eignir á svæðinu en þegar ég sá þetta hús uppi á hæðinni í þessum litla gamla miðaldabæ heillaðist ég strax af húsinu og sá strax fram á mikla möguleika. Húsið er frá 1600, teiknað af Leonardo Del Vegni sem teiknaði leikhúsið í Sinalunga. Ég hef reynt að varðveita sem mest af tíðaranda hússins en mig langar að gefa því nýtt líf og nýja sögu. Það er á 4 hæðum, er tengt inn í húsaröð eins og algengt er á Ítalíu og hefur tvo innganga. Þar sem húsið stendur hátt er einstakt útsýni úr íbúðunum. Efri íbúðin er til útleigu og er sirka 80 fermetrar. Þar er stofa með svefnsófa, eldhúsi, baði og svefnherbergi, samtals svefnpláss fyrir fjóra. Í íbúðinni er hátt til lofts, arinn í eldhúsi og freskur á veggjum,“ segir María og bætir við að íbúðin sé með stigalausum sérinngangi. Fyrir þá sem vilja dvelja lengur og sinna fræðistörfum eða listsköpun þá er aðgangur að þráðlausu neti (wifi) og prentara og svo er hugmynd að listafólk geti fengið aðgang að vinnustofunni hjá Maríu ef þannig stendur á. Svo eru ýmsar aðrar hugmyndir um námskeið og fleira skemmtilegt sem kemur í ljós í framtíðinni að sögn Maríu.

„Stíllinn er ítalskur með skandinavískum áhrifum. Ég hef reynt að halda í það sem minnir á gamla tíma hússins og gefur því karakter en svo hef ég auðvitað aðlagað það að nútíma aðstæðum og blandað saman gömlu og nýju.“

María spókar sig í bænum Sinalunga þar sem Casa Maria er staðsett. Þetta er þó ekki húsið hennar, vel að merkja.

Ekki dæmigerður ferðamannabær

Það er farið að hlýna í Sinalunga og ávaxtatrén eru í blóma. Aðspurð um áframhaldið segir María að draumurinn sé að geta leigt gestaíbúðina út til lengri eða skemmri tíma, bæði fyrir ferðafólk og einnig fyrir þá sem sinna listsköpun eða fræðimennsku. Þó gestaíbúðin sé nú svo gott sem tilbúin, en fyrstu gestir koma þangað í lok maí, eru fleiri verkefni framundan hjá Maríu. Það þarf líka að vinna í hinni íbúðinni og þá er vinnustofan ekki tilbúin. „Vonandi kemur fljótt að vinnustofunni en ég hlakka mikið til að fara að geta unnið þar að minni listsköpun og er viss um að það verður gott að vinna í því fallega rými.“

María ásamt kærastanum Stefano á Principina a Mare ströndinni sem er í sirka eins og hálfs tíma akstursfjarðlægð frá Sinalunga.

En afhverju ætti fólk frekar að velja Sinalunga fram yfir aðra bæi og þorp Toskana héraðsins? Það stendur ekki á svari hjá Maríu:

„Sinalunga er ekki dæmigerður ferðamannabær heldur upplifir maður þar heimafólkið í litlum ítölskum bæ þar sem heldri borgarar sitja á torginu löngum stundum og tíminn virðist hreinlega standa í stað. Í Sinalunga ríkir ró og friður, í dásamlega fallegri sveit og í nágrenni bæjarins er mikið af göngu- og hjólaleiðum sem enginn verður svikinn af,“ segir hún og heldur áfram að lýsa dásemdum bæjarins:

„Sinalunga er ekki dæmigerður ferðamannabær heldur upplifir maður þar heimafólkið í litlum ítölskum bæ þar sem heldri borgarar sitja á torginu löngum stundum og tíminn virðist hreinlega standa í stað,” segir María en fallegt útsýni er úr húsinu hennar.

„Á aðaltorginu er kaffibar, tveir litlir veitingastaðir og pizzustaður, bakarí, apótek, banki og hægt að kaupa sér ekta ítalskan ís. Leikhús er starfrækt í bænum og á torginu eru fjórar kirkjur og Palazzo Pretorio sem er frá miðöldum, sem fyrst var stjórnarráðshús og síðar fangelsi og dómshús. Í nokkurra mínútna göngufæri frá íbúðinni er sundlaug sem er opin á sumrin þar sem má taka sundsprett og fara í sólbað. Í kringum Sinalunga eru jarðhitasvæði og þar er hægt að fara í jarðböð og slaka á og njóta fallegrar náttúru í leiðinni. Í nærumhverfinu má finna vínsmökkun, skoða vínframleiðslu, borða ljúffengan mat, njóta náttúrunnar og ekki síðast en síst listarinnar sem Ítalía hefur upp á að bjóða.“

Áhugasamir geta fylgst með fréttum frá Maríu og húsinu hennar í Toskana:

Facebook – https://www.facebook.com/CasaMariaSinalunga

Instagram – @casamariajons

Þá er líka hægt að senda póst á Maríu: msj969@gmail.com

María hefur haldið í það sem minnir á gamla tíma hússins og gefur því karakter.