Fara í efni
Mannlíf

Býr til nýtt skart úr gömlu í Hofi í dag

Katrín Káradóttir eigandi Kistu, til vinstri, og skartgripahönnuðurinn Steinunn Vala Sigfúsdóttir. Aftan við þær er veggjaskart sem Steinunn sýnir nú í fyrsta skipti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Steinunn Vala Sigfúsdóttir, skartgripahönnuður, og Katrín Káradóttir, eigandi verslunarinnar Kistu í menningarhúsinu Hofi, brydda upp á skemmtilegri nýjung í húsinu í dag. Þær setja upp „endurvinnsluverkstæði skartgripa“, þar sem vinnsluferlið verður sýnt og nýtt skart búið til á staðnum.

Steinunn Vala, hönnuðurinn á bak við merkið Hring eftir hring, hefur gert skartgripi úr endurnýttu hráefni undanfarin ár. „Hugmyndina fékk ég þegar ég fór í gegnum eigur ömmu minnar, Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts, eftir andlát hennar árið 2016,“ segir Steinunn. „Hún skildi eftir sig mikið af fallegu skarti sem hún hafði sjálf verið gjörn á að nota. Sumt merkilegra en annað. Mig langaði að nota það áfram en það passaði mér ekki eins vel og henni. Þá fékk ég þá hugmynd að taka sumt af því sem hún hafði átt í sundur og setja saman á nýjan leik þannig að ég og fleiri afkomendur hennar gætum notað.“

Skartgripalínuna kallar Steinunn Guðrúnu eftir ömmu sinni.

Hluti hráefnisins sem Steinunn Vala mun nota við skartgripagerðina í dag. 

Ótrúleg viðbrögð

Steinunn Vala auglýsti nýverið eftir gömlu skarti á Facebook og segir viðbrögðin hreint út sagt ótrúleg.

„Í ljós hefur komið að fjöldamargt fólk á heima hjá sér í skúffum og öðrum hirslum heilu hrúgurnar af skartgripum sem það er hætt að nota og enginn vill sjá,  segir hún. „Sumt er orðið lúið, annað slitið. Margt var fengið ódýrt, hefur tapað sjarmanum og borgar sig ekki að gera við. En þegar betur er að gáð og hrúgan er leyst í sundur má oft finna dásemdar perlur og steina. Það gerir endurvinnsluverkefnið svo unaðslega skemmtilegt. Ég hef líka sérstaklega gaman af því að vinna úr ljóta dótinu. Glíma við það að sjá fegurðina í því ljóta og skapa fallegan grip úr erfiðasta hráefninu. Upp kemur alltaf sama spurningin: er eitthvað til sem er ljótt? Er ekki allt fallegt á sinn hátt? Og alltaf er svarið það sama: allt getur verið fallegt.“

Eyrnalokkar og Aðalheiður

Viðbrögðin kveiktu þá hugmynd hjá þeim Katrínu að opna endurvinnsluverkstæði hjá Kistu í Hofi og bjóða fólki að koma og sjá hvernig Steinunn vinnur. „Einnig verður til sýnis, í fyrsta sinn, veggjaskart sem ég hef unnið úr gamla skartinu. Ég er enn að safna hráefni og því er tilvalið fyrir þá sem eiga eitthvað að koma með það í endurvinnsluna. Í staðinn býð ég upp á nýja eyrnalokka að eigin vali, góða samvisku og ríkulegar þakkir,“ sagði Steinunn í vikunni.

Katrín Káradóttir í Kistu og Steinunn Vala Sigfúsdóttir skoða skartgripaskrín sem þeim barst á dögunum.

„Við vitum að júbílantar verða á vappi um bæinn og verandi sjálfar 23 ára og 34 ára MA stúdínur, bjóðum við þá sérstaklega velkomna á hamingjustund til okkar. Til sýnis verða einnig veiðifluguarmbönd og á stalli sérgerð armbönd með flugum sem bera til að mynda nöfnin: Beinið, Uglan, og Stúdentinn.“

Steinunn Vala kann afar vel við sig í Hofi, ekki síst nú vegna sýningar á verkum listakonunnar Aðalheiðar Eysteinsdóttur sem stendur yfir. „Sýningin er hreint út sagt unaðsleg þannig að ef það sem ég hef upp á að bjóða heillar fólk ekki er alltaf hægt að njóta verka Aðalheiðar í staðinn! Það er því víst að enginn sem leggur leið sína í Hof 16. júní fer þaðan ósnortinn,“ segir Steinunn Vala Sigfúsdóttir.

Viðburðurinn á Facebook: https://www.facebook.com/events/1644688305944576