Fara í efni
Mannlíf

Búið að rjúfa þann vítahring sem ég var í

Dröfn Árnadóttir, notandi í Grófinni. Mynd RH

Grófin – Geðrækt á Akureyri, heldur upp á tíu ára afmæli sitt í þessari viku. Á opnu húsi í tilefni afmælishalda, hitti blaðamaður Akureyri.net Dröfn Árnadóttur í huggulegri setustofu Grófarinnar. Dröfn hefur glímt við djúpstætt þunglyndi um langt skeið, og hún er ein af þeim sem hafa nýtt sér þjónustu Grófarinnar til þess að ná bata.

Geðdeildin og göngudeild geðdeildar

„Ég hef mikla reynslu af geðdeildinni á Akureyri,“ segir Dröfn. „Legudeild geðdeildar er sá staður sem maður fer þegar maður er mjög veikur og sá staður hefur reynst mér mjög vel. Þegar maður útskrifast af legudeildinni er algengt að göngudeild geðdeildar taki við. Þar eru iðjuþjálfar með virkniprógramm sem miðar að því að koma manni aftur út í samfélagið.“

Hvað tekur við?

Þrátt fyrir öll tiltæk ráð og góðan vilja á göngudeildinni, segir Dröfn að það sé því miður ekki alltaf nóg. „Þau gera allt sem þau geta til þess að hjálpa okkur, en ég þori að fullyrða að mjög margir í þessari stöðu séu gjarnir á að einangra sig. Þú dregur þig í hlé og það eykur líkur á því að þú missir félagsfærni, félagsþol og fleira.“ Dröfn hefur reynslu af því að upplifa það sem hún kallar vítahring, þar sem hún dettur fljótlega aftur í þunglyndi og fer að loka sig af eftir að hún er útskrifuð af göngudeildinni. Þangað til hún svo lendir aftur á geðdeildinni og endurtekur ferlið aftur.

Slagur við innri fordóma.

„Ég var svo heppin að göngudeildin hefur verið dugleg að fara í ferðir með fólk til þess að heimsækja Grófina,“ segir Dröfn. „Árný, einn iðjuþjálfinn, fór sér ferð með mig hingað og ég man eftir að hafa sagt við hana að ég vissi að ég væri skrítin, en ég væri sko ekki svona skrítin. Þá var ég að takast á við innri fordóma og taldi Grófina alls ekki vera fyrir mig. Annað kom á daginn, ég er bara skrítin eins og allir hinir!“

 

„Það sem ég fékk út úr þessu er að einangrunin var rofin. Ég fór að hitta fólk, kynnast fólki og eignast vini.“

 

Einangrunin rofin

„Ég ákvað að gefa Grófinni tækifæri,“ segir Dröfn. „Ég ákvað að skuldbinda mig, mæta í þrjá mánuði og gefa þessu almennilegan séns.“ Þá fór Dröfn að kynnast Grófinni í raun og veru og sjá að hún er fyrir alla. „Það sem ég fékk út úr þessu er að einangrunin var rofin. Ég fór að hitta fólk, kynnast fólki og eignast vini,“ segir Dröfn. Grófin býður ekki bara upp á stað til þess að hittast yfir kaffibolla, heldur er líka fjölbreytt stundarskrá og ýmislegt í boði sem býður upp á sjálfsvinnu og virkni. „Það eru tímar í sjálfsrækt og geðrækt þar sem við fáum tækifæri til þess að vinna í okkar málum í sameiningu. Sumar rannsóknir hafa sýnt að það að vinna í sér með jafningjum getur jafnvel virkað betur en sálfræðimeðferð á suma einstaklinga,“ bætir hún við.

 

„Þegar maður er búinn að vera hérna í einhvern tíma, þá fer maður að hugsa með sér að það væri kannski hægt að leggja eitthvað til.“

 

Aukin ábyrgð og skuldbinding lykill að bata

„Með því að mæta í Grófina ertu líka að rífa þig upp úr rúminu, sem er aðal þunglyndisstaðurinn,“ segir Dröfn. Með tímanum fékk hún aukið sjálfstraust til þess að taka næstu skref í bataferlinu í Grófinni. „Þegar maður er búinn að vera hérna í einhvern tíma, þá fer maður að hugsa með sér að það væri kannski hægt að leggja eitthvað til. Því fylgir ábyrgð og meiri skuldbinding, fleiri skipti sem þú getur ekki legið upp í rúmi og vorkennt sjálfum þér,“ segir Dröfn og leggur áherslu á að þannig hafi Grófin hjálpað sér að komast á stað sem hana hafði ekki órað fyrir að komast á. „Ég er komin þangað að ég er farin að íhuga það að komast aftur út á vinnumarkaðinn.“

Vítahringurinn rofinn

Dröfn segir að það hafi nú liðið langur tími síðan hún þurfti neyðarhjálp á geðdeildinni. „Það er búið að rjúfa þennan vítahring sem ég var föst í. Ég er ekki að segja að ég sé orðin hraust, það er ekki allt komið í lag, en það hefur ekki liðið svona langur tími lengi. Og það er stuðningurinn sem ég hef fengið hér sem gerir gæfumuninn.“ Að lokum leggur Dröfn áherslu á það að til þess að ná bata af geðrænum vanda, þarf að gefa sér tækifæri og yfirvinna innri fordóma.