Fara í efni
Mannlíf

Margir fluttir sitjandi sem í lágréttri stöðu!

Öldungurinn kominn í hlað á Ystafelli. Heimir Heiðarsson, lögreglumaður, afhendir Sverri Ingólfssyni í Samönguminasafninu bílinn formlega til varðveislu.

Samgönguminjasafninu á Ystafelli í Þingeyjarsýslu barst í gær góður gripur, þegar lögreglumaður frá Akureyri renndi í hlað á Ford Econoline bifreið sem verið hefur í notkun á götum höfuðstaðar Norðurlands síðan 1997 en var „lagt“ í helgan stein hjá Sverri Ingólfssyni í gær og verður framvegis í Kaldakinn, ásamt miklum fjölda annarra gamalla bifreiða.

Margir hafa byrjað sín fyrstu skref í lögreglunni sem þriðji maður í aftursætinu í þessari lögreglubifreið, sagði á Facebook síðu lögreglunnar, þar sem meðfylgjandi myndir birtust. Einn þeirra er Hermann Karlsson, núverandi aðalvarðstjóri Lögreglunnar á Norðurlandi eystra og segir hann margs að minnast. Hermann segir bílinn hafa verið áberandi við vinnu lögreglunnar í kringum næturlífið um helgar í gegnum tíðina og margir hafi fengið „skutl“ í misjöfnu ástandi. „Í þessum bíl hafa margir verið fluttir sitjandi sem í lágréttri stöðu“ segir Hermann við Akureyri.net og hefur gaman af.

„Bíllinn kom til okkar 1997, nýr úr kassanum og ég efast um að nokkur bíll hafi enst okkur svona lengi. Staðið hefur til í töluverðan tíma að endurnýja en það var ekki fyrr en í haust að nýr bíll kom og leysti þennan af hólmi. Marían, eins og við kölluðum hann yfirleitt – vegna þess að svörtu lögreglubílarnir sem voru í notkun á undan hans kynslóð voru kallaðir Svarta María – er mjög góður bíll til að vinna á, þægilegur og rúmgóður og þótt hann hafi verið orðinn þetta gamall er hann ekki keyrður nema rúmlega 200 þúsund kílómetra. Notkunin minnkaði mikið síðustu árin.“

Glæsileg kaka var bökuð með mynd af „afmælisbarninu“ annað hvort þegar það varð lögráða - náði 18 ára aldri - eða á tvítugsafmælinu. Hermann Karlsson mundi það ekki svo gjörla. Hin myndin er tekin í Vaðlaheiðargöngunum á leiðinni austur í Ystafell, Heimir Heiðarsson lögregluþjónn á milli Maríunnar og eins af nýrri bílum lögreglunnar.

Marían komin í ný heimkynni, austur að Ystafelli í Kaldakinn.