Fara í efni
Mannlíf

Brjálað að gera við vínylplötugerð

Guðmundur Örn Ísfeld er forstjóri RPM Records í Kaupmannahöfn. Hann stofnaði fyrirtækið með vini sínum. Þeir byrjuðu smátt, en geta nú pressað 2000 hljómplötur á dag. Fyrirtækið blómstrar og það er brjálað að gera.

Guðmundur Örn er af skagfirskum ættum en fæddur og uppalinn í Þorpinu. Hann flutti út í Svarfaðardal seinni hluta gunnskólaáranna en var alltaf með annan fótinn á Akureyri.

Fór 19 ára gamall í lýðháskóla með vini sínum

Akureyri.net lék forvitni á að vita hvernig það vildi til að Guðmundur Örn fór til Danmerkur og stofnaði þar fyrirtæki. Um það segir hann:

„Þegar ég varð 19 ára, þá stakk Einar vinur minn uppá að við skyldum skella okkur í lýðháskóla í Danmörku. Úr því varð, og ég fór á kvikmyndabraut og skemmti mér eins og kóngur. Þar með var það ákveðið, ég flutti til Kaupmannahafnar sumarið eftir að skólinn kláraðist. Núna eru allt í einu liðin 14 ár! Þessi ár hef ég verið að bardúsa allt mögulegt, lært kvikmyndagerð, grafíska- og margmiðlunarhönnun. Ég fór beint úr margmiðlunarhönnunarnáminu yfir í vínylbransann. Það hefur verið mjög nytsamlegt að hafa þann reynslukokteil í þessu brasi, að starta og keyra fyrirtæki eins og okkar í þessum bransa“, segir forstjórinn.

Upphafið

„Árið 2014 þá var ég heltekinn af vínylplötum og tók eftir því að það var ekki neinn að framleiða vínyl á öllum Norðurlöndunum“. Segir Guðmundur Örn og bætir við: „Svo ég og tveir aðrir ákváðum að gera eitthvað í því og byrjuðum að framleiða vínylplötur í mjög litlu upplagi, þá undir nafninu vinyltryk.dk. Sú starfsemi varð til 2017, en það ár ákváðum við að hoppa í djúpu laugina. Við tókum heljarinnar lán og létum smíða fyrir okkur svaka flotta vínylpressu sem framleiðir allt upp í 2.000 stykki af hljómplötum á dag. Þetta var frekar mikil áhætta sem við tókum, því við gengum í fulla ábyrgð fyrir þessu öllu sjálfir, og vínyllinn var alls ekki stabíll á þeim tíma. En blessunarlega þá sprakk þessi bransi út!“

Covid

„Það kom bersýnilega í ljós strax í upphafi Covid það varð bara brjálað að gera“, segir forstjórinn og bætir við, „líklega vegna þess að allt tónlistarfólk var lokað inni og hafði nægan tíma. Einnig voru tónlistarunnendur og safnarar að vinna að heiman, fóru kannski að taka eftir því að það vantaði plötu eða fimm í safnið“, að sögn Guðmundar Arnar. Við þetta myndaðist mikill flöskuháls í framleiðslunni. Biðtími frá pöntun til afhendingar hefur farið úr 14 dögum upp í 4-5 mánuði; en samt eru þeir með þeim fljótustu á markaðnum!

Ætla að stækka við sig á fleiri sviðum

„Stefnan hjá okkur er að stækka talsvert við okkur, bæði í framleiðslu og líka á þeim sviðum sem við gefum okkur út í. Við höfum til dæmis verið að sjá um tónleikahald, fyrirlestra og erum útgáfufyrirtæki. Ætlunin er að fókusa frekar á þessa hluti og stefna á að gera þá á stærri skala í komandi framtíð“, segir Guðmundur Örn að lokum.

Heimasíða RPM Records

Facebook-síða RPM Records